Feuille D'Album
Hérna er sú næsta. Hún er eftir Katherine Mansfield.
Hann var svo sannarlega ómöguleg manneskja. Allt, allt of feiminn. Hafði aldrei neitt að segja og var líka svo vandræðalegur í umgengni. Þegar hann var til dæmis sestur í sófann heima hjá þér gat hann setið þögull sem gröfin þangað til þú varst nærri farinn að öskra upphátt til að rjúfa þögnina; þig langaði helst til að fleygja einhverju þungu í hann þegar hann loksins hunskaðist út.
Það skrýtna var að við fyrstu sýn leit hann út fyrir að vera svo áhugaverður. Allir gátu sammælst um það. Maður rambaði inn á kaffihús eitt kvöldið og þarna sat hann út í horni, fíngerður strákur í bláum bol og gráum flauelsjakka að drekka kaffið sitt. Og þessi blái bolur og þessi grái flauelsjakki með stuttu ermunum gerði hann að þessum dæmigerða strák sem til dæmis flýr niður til hafsins. Strokið að heiman, það er að segja, og er með náttföt og mynd af mömmu sinni í vasaklút sem hann hefur bundið utan um prik. Svo gengur hann út í sjóinn og drekkir sér.
Eða dettur óvart í höfnina þegar hann ætlar um borð í skipið...hann hafði svart stuttklippt hár, grá augu með löng augnahár, hvítar kinnar og munnsvip eins og hann væri í sífellu að berjast við grátinn. Og hvernig gat nokkur staðist hann? Bara að sjá hann fékk hjartað til að taka kipp. Og ef það dugði ekki hafði hann þessa sérstöku leið til að roðna. Alltaf þegar þjónninn kom nálægt honum fór hann alveg í hnút.
“Hver ætli þetta sé. Veist þú það elskan?”
“Já. Hann heitir Ian French. Listmálari. Á víst að vera ótrúlega klár. Einu sinni tók einhver góðhjörtuð kona hann að sér í sonarstað, heyrði ég. Hún spurði hann alltaf hversu oft hann fengi bréf að heiman, grennslaðist fyrir um hvort hann hefði nægilega mörg teppi á rúminu sínu, hversu mikla mjólk hann drykki á dag og svo framvegis. En þegar hún heimsótti hann í risherbergið til að þvo sokkana hans svaraði enginn þótt hún hringdi og hringdi dyrabjöllunni. Jafnvel þótt hún sagðist hafa heyrt í honum hinum megin við dyrnar. Gjörsamlega vonlaus!”
Önnur kona stóð í þeirri trú að hið rétta væri að veita honum annars konar ást. Hún næstum því dró hann að sér, kallaði hann “ljúfurinn” og beygði sig yfir hann svo hann gæti fundið ilmvatnslyktina. Hún reyndi að sannfæra hann um hversu stórkostlegt lífið gæti orðið bara ef hann vildi, og heimsótti hann einnig í risherbergið eitt kvöldið og hringdi og hringdi bjöllunni. Gjörsamlega vonlaus.
,,Það sem aumingja pilturinn raunverulega vill er alvöru ástúð,” sagði önnur. Og þau fóru saman á kaffihús og dansstaði, þessa litlu þar sem drykkirnir brögðuðust eins og apríkósusaft, en flaskan kostaði tuttugu og sjö skildinga og kallaðist kampavín. Þau fóru einnig á aðra vafasamari staði, þar sem þau sátu í þokukenndu myrkri og maður gat nokkurn veginn verið viss um að einhver hafði verið skotinn á þessum stað kvöldið áður. En Ian French sýndi engin merki um breytingar. Aðeins eitt kvöldið varð hann töluvert drukkinn, en í staðinn fyrir að opna hjarta sitt sat hann hreyfingarlaus sem steinn og rjóður í kinnum eins og postulínsdúkka meðan djasstónlistin dunaði. Þegar hún fór með hann heim í risherbergið hafði hann nokkurn veginn náð áttum aftur og bauð henni kurteislega góða nótt fyrir utan húsið, rétt eins og hann hefði fylgt henni heim frá messu. Gjörsamlega vonlaus.
Eftir óteljandi tilraunir, því ástúð getur þraukað lengi í konum, gáfust þær loks upp. Að sjálfsögðu héldu þær andlitinu og buðu honum enn þá í leikhús og spjölluðu við hann á kaffihúsunum en það var allt og sumt. Því þegar maður er listmálari hefur maður engan tíma fyrir fólk sem svarar manni ekki. Eða hvað?
Og þar að auki finnst mér einhvern veginn eins og það sé eitthvað gruggugt við þetta allt saman, eða finnst þér ekki? Það er ekki allt eins og það sýnist. Ég meina, hvers vegna að fara til Parísar til þess að lifa eins og hreyfingarlaus fífill í túnfætinum?
Nei, ég er ekkert að væna neinn um neitt. En...
Hann bjó efst uppi í háu og þunglamalegu húsi með útsýni yfir ána. Svona húsi sem eru svo rómantísk á rigningar- og tunglskinsnóttum, allir hlerarnir fyrir gluggunum eru lokaðir og svo stóra og gamla útidyrahurðin með litlu skilti sem á stendur “lítil íbúð fæst til leigu”. Fyrir utan það eru svona hús frekar órómantísk og leigutakinn býr í nokkurs konar glerbúri á jarðhæðinni með skítugt sjal um herðarnar að grufla með sleif í svartri pönnu og lætur gamla hundinn sinn fá bita stöku sinnum...
Íbúðin var með dásamlegt útsýni. Stóru gluggarnir tveir sneru út að ánni; hann gat séð alla bátana og prammana sigla til og frá og einnig dulitla rönd af eyjunni úti á ánni þakin trjám eins og hnappur af blómum. Út um hliðargluggann mátti sjá annað hús, skítugra og minna; neðst þar niðri var blómamarkaður. Oft sáust risastórar sólhlífar á götunni eða blómaskreytingar, og litlir sölubásar með röndóttu sólþaki sem seldu pottaplöntur og suðræn pálmalauf í leirkrukkum. Bak við alla blómvendina skutust gamlar konur til og frá eins og krabbar. Hann hafði enga ástæðu til að fara út. Ef hann sat bara við gluggann þangað til hann væri kominn með hvítt skegg lafandi út fyrir gluggakistuna væri hann samt búinn að finna gott myndefni.
Konurnar sem fjallað var um áðan myndu vafalaust reka upp stór augu hefðu þær komist inn. Öll íbúðin var fullkomin frá toppi til táar. Hann hafði raðað öllum hlutunum upp i ákveðið form, líkt og smágerðar kyrralífsmyndir – steikarpönnur hengu í fullkominni röð bak við gaseldavélina, við hliðina á henni var eggjabakkinn, mjólkurflaskan og tekannan á hillunni. Bækurnar hans stóðu á borðinu ásamt litlum lampa með krumpaðri pappírsskyggnu. Indverskt teppi með rauðu hlébarðamynstri lá útbreitt á rúminu hans á daginn og á veggnum í höfuðhæð þegar maður lá í rúminu var miði sem hann hafði skrifað með fíngerðri rithönd sinni “Farðu strax á fætur.”
Hver einasti dagur var nokkurn veginn eins. Á meðan bjart var þrælaði hann sér út við málverkin, síðan eldaði hann mat og tók til. Og á kvöldin fór hann á kaffihúsin, eða sat heima og las eða bjó sér til hina ótrúlegustu lista sem hétu “Það sem ég ætti að komast af með” og enduðu á “Ég, Ian French, lofa því staðfastlega að eyða ekki meiru en sem nemur þessari upphæð næsta mánuðinn.”
Það hljómar ekkert gruggugt við þetta, en þessar konur vissu lengra en nef þeirra nær. Það var einhver maðkur í mysunni.
Eitt kvöldið sat hann við gluggann að borða sveskjur og spýtti hratinu á stóru sólhlífarnar á mannlausa blómamarkaðnum. Það hafði rignt; raunar var þetta fyrsta alvöru vorrigningin og einkennilegur glampi var á öllu úti. Loftið angaði af nýjabrumi og rakri mold. Það mátti heyra daufar raddir og íbúarnir í húsunum sem komu út á svalir til að loka gluggunum og setja hlera fyrir hölluðu sér út fyrir í staðinn. Niðri á götunni voru trén byrjuð að fá laufknappa. Hvaða tegund ætli þau séu, hugsaði hann og fylgdist með manninum sem kveikir á götuvitunum koma gangandi inn götuna.
Hann horfði á litla og óhirðulega húsið hinum megin, og skyndilega, eins og svar við augliti hans, opnuðust tveir gluggar og stúlka steig út á litlu svalirnar með liljur í blómapotti. Hún var undarlega grönn stúlka með svarta svuntu um mittið og bleikan klút bundinn um höfuðið. Ermarnar voru næstum því brettar upp að öxlum og löngu og hvítu handleggirnir mynduðu fullkomna mótstöðu við dökkan klæðaburð hennar.
“Já, það er alveg nógu heitt úti til að ég geti haft þær hér á svölunum,” sagði hún og setti liljurnar niður. Áður en hún sneri sér við greiddi hún nokkra hárlokka frá andlitinu, leit niður á markaðinn og síðan til himins, en þar sem hann sat hinum megin við götuna hefði alveg eins getað verið tómarúm, það var eins og húsið einfaldlega væri ekki þarna. Síðan hvarf hún.
Hjarta hans féll út um gluggann niður á svalirnar hinum megin og gróf sig í blómapottinum með liljunum undir hálfopnuðu blómknöppunum og grænu laufblöðunum.
Herbergið með svölunum var augljóslega stofan og glugginn við hliðina á var þá væntalega eldhúsið. Hann heyrði glamra í diskunum þegar hún var að þvo upp eftir kvöldmatinn; síðan kom hún að glugganum, þurrkaði af syllunni með blautri tusku og hengdi hana á lítinn nagla til þerris. Hún söng aldrei eða lét hárið falla niður frjálst, eða teygði hendurnar upp til himins til móts við mánaskinið eins og stúlkur eiga að gera. Og hún var alltaf með svörtu svuntuna og bleika klútinn um höfuðið...hver ætli búi þarna í íbúðinni með henni? Enginn annar kom út í gluggann eða svalirnar og samt var hún alltaf að tala við einhvern í herberginu. Móðir hennar, hugsaði hann, og hún væri ábyggilega rúmföst. Þær lifðu af saumaskap. Faðir hennar hefði verið blaðamaður áður en hann lést. Hann sá fyrir sér fölan mann með langt yfirvaraskegg og svartan hársveip fyrir enninu.
Með því að vinna allan daginn hefðu þær rétt svo til hnífs og skeiðar, en þær færu aldrei út og ættu enga vini. Þegar hann settist við borðið til að gera áætlunarlistana sína þurfti hann að bæta fjölmörgum skilyrðum við þá... Ég, Ian French, heiti því hér með að fara ekki að glugganum fyrr en klukkan svo og svo. Ég, Ian French, heiti því hér með að hugsa ekki um hana uns ég hef lokið við hin daglegu málarastörf.
Þetta lá allt í hlutarins eðli. Hún var eina manneskjan sem hann vildi kynnast, því hún var, að hans ályktun, sú eina í heiminum á sama aldri og hann. Hann þoldi ekki skríkjandi stelpur og hafði enga þörf fyrir fullorðnar konur. Hún var á hans aldri, hún var...tja, alveg eins og hann. Hann sat í rökkvaðri íbúðinni, dauðþreyttur, með aðra höndina teygða yfir stólbakið og horfði á hana í glugganum og sá sjálfan sig fyrir sér í herberginu með henni. Hún var svo skapstór, þau rifust stundum heiftarlega, hún og hann. Hún var með þessa sérstöku aðferð við að stappa niður fætinum og kreista svuntuna upp og niður, gjörsamlega brjáluð.
Og hún hló örsjaldan. Aðeins þegar hún sagði honum frá litlum kettlingi sem hún átti sem reyndi að urra og þykjast vera ljón þegar honum var gefið kjöt. Svona hlutir fengu hana til að hlæja. Það var óskrifuð regla að þau sátu saman þögul sem gröfin; hann eins og hann sat núna með höndina á stólbakinu og hún með hendur í skauti og fæturna í kross undir stólnum, talandi í hálfum hljóðum eða sagði ekki neitt þegar hún var þreytt eftir dagsverkin. Að sjálfsögðu spurði hún hann aldrei út í málverkin, og að sjálfsögðu gerði hann undurfagrar teikningar af henni sem hún þoldi ekki því þær gerðu hana svo mjóa og dökka... En hvernig í ósköpunum gat hann kynnst henni? Þetta gæti haldið svona áfram svo árum skipti...
Síðan uppgötvaði hann að einu sinni í viku, á kvöldin, fór hún út að versla. Á sama tíma hvern fimmtudag birtist hún í glugganum í gamaldags kufli utan yfir svuntuna með körfu í hendinni. Þaðan sem hann sat sást ekki í útidyrahurðina á húsinu hennar, en næsta fimmtudagskvöld á sama tíma greip hann húfuna sína og hljóp niður stigaganginn. Það var sætbleikur bjarmi yfir öllu saman, líka yfir ánni og fólkið sem gekk í áttina til hans var með bleik andlit og bleika handleggi.
Hann setti bakið í húsvegginn á húsinu hennar og horfði í áttina að útidyrunum. Hann hafði ekki hugmynd um hvað hann ætti að segja við hana. “Núna kemur hún,” sagði hann við sjálfan sig í hljóði. Hún gekk hratt með léttu fótataki; með annarri hendinni hélt hún á körfunni og vafði kuflinum saman með hinni. Hvað gæti hann eiginlega gert? Hann gat aðeins elt hana. Fyrst fór hún til kaupmannsins og eyddi löngum tíma þar inni, síðan fór hún til slátrarans þar sem hann þurfti að passa sig á að hún sæi hann ekki er hún gekk fyrir hornið. Þá fór hún í vefnaðarvörubúðina og var óralengi þar inni að máta föt og síðan til ávaxtasalans og keypti þar sítrónu. Eftir því sem hann fylgdist lengur með henni varð hann vissari um að hann þyrfti að kynnast henni, strax. Fas hennar, alvarleiki hennar og einmanaleiki hennar, hvernig hún gekk og hegðaði sér eins og hún væri búin að fá nóg af þessum heimi fullorðinna, þetta var allt svo eðlilegt og ófrávíkjanlegt fyrir hann.
“Já, hún er alltaf svona,” hugsaði hann ánægður. “Við höfum ekkert með þetta fólk að gera.”
En núna var hún á leiðinni heim og var komin nokkuð langt í burtu... skyndilega breytti hún um stefnu og fór inn í mjólkurbúðina. Hann elti og horfði á hana kaupa eitt egg. Hún tók eggið úr körfunni svo mjúklega og fínlega; það var brúnt og fagurlega lagað, sjálfur hefði hann líka valið þetta egg. Og þegar hún var farin úr búðinni skaust hann inn á eftir henni. Að vörmu spori var hann kominn út aftur og fylgdi henni framhjá húsinu hans og gegnum blómamarkaðinn, beygði sig undan stóru sólhlífunum og steig óvart á blómin sem lágu á jörðinni og á hringina sem mynduðust þar sem blómapottarnir höfðu verið... smeygði sér síðan inn um dyrnar og á eftir henni upp stigann, passaði sig á að stíga á þrepin um leið og hún svo hún tæki ekki eftir honum. Loksins nam hún staðar á einum stigaganginum og tók lykil úr veskinu sínu. Á sama augnabliki og hún stakk lyklinum í skráargatið hljóp hann upp til móts við hana.
Hann roðnaði meira en nokkru áður, en leit þó á hana og sagði: “Fyrirgefið mademoiselle, þér misstuð þetta.”
Og hann rétti henni egg.