.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Feuille D'Album

Hérna er sú næsta. Hún er eftir Katherine Mansfield.


Image hosted by TinyPic.com

Hann var svo sannarlega ómöguleg manneskja. Allt, allt of feiminn. Hafði aldrei neitt að segja og var líka svo vandræðalegur í umgengni. Þegar hann var til dæmis sestur í sófann heima hjá þér gat hann setið þögull sem gröfin þangað til þú varst nærri farinn að öskra upphátt til að rjúfa þögnina; þig langaði helst til að fleygja einhverju þungu í hann þegar hann loksins hunskaðist út.

Það skrýtna var að við fyrstu sýn leit hann út fyrir að vera svo áhugaverður. Allir gátu sammælst um það. Maður rambaði inn á kaffihús eitt kvöldið og þarna sat hann út í horni, fíngerður strákur í bláum bol og gráum flauelsjakka að drekka kaffið sitt. Og þessi blái bolur og þessi grái flauelsjakki með stuttu ermunum gerði hann að þessum dæmigerða strák sem til dæmis flýr niður til hafsins. Strokið að heiman, það er að segja, og er með náttföt og mynd af mömmu sinni í vasaklút sem hann hefur bundið utan um prik. Svo gengur hann út í sjóinn og drekkir sér.

Eða dettur óvart í höfnina þegar hann ætlar um borð í skipið...hann hafði svart stuttklippt hár, grá augu með löng augnahár, hvítar kinnar og munnsvip eins og hann væri í sífellu að berjast við grátinn. Og hvernig gat nokkur staðist hann? Bara að sjá hann fékk hjartað til að taka kipp. Og ef það dugði ekki hafði hann þessa sérstöku leið til að roðna. Alltaf þegar þjónninn kom nálægt honum fór hann alveg í hnút.

“Hver ætli þetta sé. Veist þú það elskan?”

“Já. Hann heitir Ian French. Listmálari. Á víst að vera ótrúlega klár. Einu sinni tók einhver góðhjörtuð kona hann að sér í sonarstað, heyrði ég. Hún spurði hann alltaf hversu oft hann fengi bréf að heiman, grennslaðist fyrir um hvort hann hefði nægilega mörg teppi á rúminu sínu, hversu mikla mjólk hann drykki á dag og svo framvegis. En þegar hún heimsótti hann í risherbergið til að þvo sokkana hans svaraði enginn þótt hún hringdi og hringdi dyrabjöllunni. Jafnvel þótt hún sagðist hafa heyrt í honum hinum megin við dyrnar. Gjörsamlega vonlaus!”

Önnur kona stóð í þeirri trú að hið rétta væri að veita honum annars konar ást. Hún næstum því dró hann að sér, kallaði hann “ljúfurinn” og beygði sig yfir hann svo hann gæti fundið ilmvatnslyktina. Hún reyndi að sannfæra hann um hversu stórkostlegt lífið gæti orðið bara ef hann vildi, og heimsótti hann einnig í risherbergið eitt kvöldið og hringdi og hringdi bjöllunni. Gjörsamlega vonlaus.

,,Það sem aumingja pilturinn raunverulega vill er alvöru ástúð,” sagði önnur. Og þau fóru saman á kaffihús og dansstaði, þessa litlu þar sem drykkirnir brögðuðust eins og apríkósusaft, en flaskan kostaði tuttugu og sjö skildinga og kallaðist kampavín. Þau fóru einnig á aðra vafasamari staði, þar sem þau sátu í þokukenndu myrkri og maður gat nokkurn veginn verið viss um að einhver hafði verið skotinn á þessum stað kvöldið áður. En Ian French sýndi engin merki um breytingar. Aðeins eitt kvöldið varð hann töluvert drukkinn, en í staðinn fyrir að opna hjarta sitt sat hann hreyfingarlaus sem steinn og rjóður í kinnum eins og postulínsdúkka meðan djasstónlistin dunaði. Þegar hún fór með hann heim í risherbergið hafði hann nokkurn veginn náð áttum aftur og bauð henni kurteislega góða nótt fyrir utan húsið, rétt eins og hann hefði fylgt henni heim frá messu. Gjörsamlega vonlaus.

Eftir óteljandi tilraunir, því ástúð getur þraukað lengi í konum, gáfust þær loks upp. Að sjálfsögðu héldu þær andlitinu og buðu honum enn þá í leikhús og spjölluðu við hann á kaffihúsunum en það var allt og sumt. Því þegar maður er listmálari hefur maður engan tíma fyrir fólk sem svarar manni ekki. Eða hvað?

Og þar að auki finnst mér einhvern veginn eins og það sé eitthvað gruggugt við þetta allt saman, eða finnst þér ekki? Það er ekki allt eins og það sýnist. Ég meina, hvers vegna að fara til Parísar til þess að lifa eins og hreyfingarlaus fífill í túnfætinum?

Nei, ég er ekkert að væna neinn um neitt. En...

Hann bjó efst uppi í háu og þunglamalegu húsi með útsýni yfir ána. Svona húsi sem eru svo rómantísk á rigningar- og tunglskinsnóttum, allir hlerarnir fyrir gluggunum eru lokaðir og svo stóra og gamla útidyrahurðin með litlu skilti sem á stendur “lítil íbúð fæst til leigu”. Fyrir utan það eru svona hús frekar órómantísk og leigutakinn býr í nokkurs konar glerbúri á jarðhæðinni með skítugt sjal um herðarnar að grufla með sleif í svartri pönnu og lætur gamla hundinn sinn fá bita stöku sinnum...

Íbúðin var með dásamlegt útsýni. Stóru gluggarnir tveir sneru út að ánni; hann gat séð alla bátana og prammana sigla til og frá og einnig dulitla rönd af eyjunni úti á ánni þakin trjám eins og hnappur af blómum. Út um hliðargluggann mátti sjá annað hús, skítugra og minna; neðst þar niðri var blómamarkaður. Oft sáust risastórar sólhlífar á götunni eða blómaskreytingar, og litlir sölubásar með röndóttu sólþaki sem seldu pottaplöntur og suðræn pálmalauf í leirkrukkum. Bak við alla blómvendina skutust gamlar konur til og frá eins og krabbar. Hann hafði enga ástæðu til að fara út. Ef hann sat bara við gluggann þangað til hann væri kominn með hvítt skegg lafandi út fyrir gluggakistuna væri hann samt búinn að finna gott myndefni.

Konurnar sem fjallað var um áðan myndu vafalaust reka upp stór augu hefðu þær komist inn. Öll íbúðin var fullkomin frá toppi til táar. Hann hafði raðað öllum hlutunum upp i ákveðið form, líkt og smágerðar kyrralífsmyndir – steikarpönnur hengu í fullkominni röð bak við gaseldavélina, við hliðina á henni var eggjabakkinn, mjólkurflaskan og tekannan á hillunni. Bækurnar hans stóðu á borðinu ásamt litlum lampa með krumpaðri pappírsskyggnu. Indverskt teppi með rauðu hlébarðamynstri lá útbreitt á rúminu hans á daginn og á veggnum í höfuðhæð þegar maður lá í rúminu var miði sem hann hafði skrifað með fíngerðri rithönd sinni “Farðu strax á fætur.”

Hver einasti dagur var nokkurn veginn eins. Á meðan bjart var þrælaði hann sér út við málverkin, síðan eldaði hann mat og tók til. Og á kvöldin fór hann á kaffihúsin, eða sat heima og las eða bjó sér til hina ótrúlegustu lista sem hétu “Það sem ég ætti að komast af með” og enduðu á “Ég, Ian French, lofa því staðfastlega að eyða ekki meiru en sem nemur þessari upphæð næsta mánuðinn.”

Það hljómar ekkert gruggugt við þetta, en þessar konur vissu lengra en nef þeirra nær. Það var einhver maðkur í mysunni.

Eitt kvöldið sat hann við gluggann að borða sveskjur og spýtti hratinu á stóru sólhlífarnar á mannlausa blómamarkaðnum. Það hafði rignt; raunar var þetta fyrsta alvöru vorrigningin og einkennilegur glampi var á öllu úti. Loftið angaði af nýjabrumi og rakri mold. Það mátti heyra daufar raddir og íbúarnir í húsunum sem komu út á svalir til að loka gluggunum og setja hlera fyrir hölluðu sér út fyrir í staðinn. Niðri á götunni voru trén byrjuð að fá laufknappa. Hvaða tegund ætli þau séu, hugsaði hann og fylgdist með manninum sem kveikir á götuvitunum koma gangandi inn götuna.

Hann horfði á litla og óhirðulega húsið hinum megin, og skyndilega, eins og svar við augliti hans, opnuðust tveir gluggar og stúlka steig út á litlu svalirnar með liljur í blómapotti. Hún var undarlega grönn stúlka með svarta svuntu um mittið og bleikan klút bundinn um höfuðið. Ermarnar voru næstum því brettar upp að öxlum og löngu og hvítu handleggirnir mynduðu fullkomna mótstöðu við dökkan klæðaburð hennar.

“Já, það er alveg nógu heitt úti til að ég geti haft þær hér á svölunum,” sagði hún og setti liljurnar niður. Áður en hún sneri sér við greiddi hún nokkra hárlokka frá andlitinu, leit niður á markaðinn og síðan til himins, en þar sem hann sat hinum megin við götuna hefði alveg eins getað verið tómarúm, það var eins og húsið einfaldlega væri ekki þarna. Síðan hvarf hún.

Hjarta hans féll út um gluggann niður á svalirnar hinum megin og gróf sig í blómapottinum með liljunum undir hálfopnuðu blómknöppunum og grænu laufblöðunum.

Herbergið með svölunum var augljóslega stofan og glugginn við hliðina á var þá væntalega eldhúsið. Hann heyrði glamra í diskunum þegar hún var að þvo upp eftir kvöldmatinn; síðan kom hún að glugganum, þurrkaði af syllunni með blautri tusku og hengdi hana á lítinn nagla til þerris. Hún söng aldrei eða lét hárið falla niður frjálst, eða teygði hendurnar upp til himins til móts við mánaskinið eins og stúlkur eiga að gera. Og hún var alltaf með svörtu svuntuna og bleika klútinn um höfuðið...hver ætli búi þarna í íbúðinni með henni? Enginn annar kom út í gluggann eða svalirnar og samt var hún alltaf að tala við einhvern í herberginu. Móðir hennar, hugsaði hann, og hún væri ábyggilega rúmföst. Þær lifðu af saumaskap. Faðir hennar hefði verið blaðamaður áður en hann lést. Hann sá fyrir sér fölan mann með langt yfirvaraskegg og svartan hársveip fyrir enninu.

Með því að vinna allan daginn hefðu þær rétt svo til hnífs og skeiðar, en þær færu aldrei út og ættu enga vini. Þegar hann settist við borðið til að gera áætlunarlistana sína þurfti hann að bæta fjölmörgum skilyrðum við þá... Ég, Ian French, heiti því hér með að fara ekki að glugganum fyrr en klukkan svo og svo. Ég, Ian French, heiti því hér með að hugsa ekki um hana uns ég hef lokið við hin daglegu málarastörf.

Þetta lá allt í hlutarins eðli. Hún var eina manneskjan sem hann vildi kynnast, því hún var, að hans ályktun, sú eina í heiminum á sama aldri og hann. Hann þoldi ekki skríkjandi stelpur og hafði enga þörf fyrir fullorðnar konur. Hún var á hans aldri, hún var...tja, alveg eins og hann. Hann sat í rökkvaðri íbúðinni, dauðþreyttur, með aðra höndina teygða yfir stólbakið og horfði á hana í glugganum og sá sjálfan sig fyrir sér í herberginu með henni. Hún var svo skapstór, þau rifust stundum heiftarlega, hún og hann. Hún var með þessa sérstöku aðferð við að stappa niður fætinum og kreista svuntuna upp og niður, gjörsamlega brjáluð.

Og hún hló örsjaldan. Aðeins þegar hún sagði honum frá litlum kettlingi sem hún átti sem reyndi að urra og þykjast vera ljón þegar honum var gefið kjöt. Svona hlutir fengu hana til að hlæja. Það var óskrifuð regla að þau sátu saman þögul sem gröfin; hann eins og hann sat núna með höndina á stólbakinu og hún með hendur í skauti og fæturna í kross undir stólnum, talandi í hálfum hljóðum eða sagði ekki neitt þegar hún var þreytt eftir dagsverkin. Að sjálfsögðu spurði hún hann aldrei út í málverkin, og að sjálfsögðu gerði hann undurfagrar teikningar af henni sem hún þoldi ekki því þær gerðu hana svo mjóa og dökka... En hvernig í ósköpunum gat hann kynnst henni? Þetta gæti haldið svona áfram svo árum skipti...

Síðan uppgötvaði hann að einu sinni í viku, á kvöldin, fór hún út að versla. Á sama tíma hvern fimmtudag birtist hún í glugganum í gamaldags kufli utan yfir svuntuna með körfu í hendinni. Þaðan sem hann sat sást ekki í útidyrahurðina á húsinu hennar, en næsta fimmtudagskvöld á sama tíma greip hann húfuna sína og hljóp niður stigaganginn. Það var sætbleikur bjarmi yfir öllu saman, líka yfir ánni og fólkið sem gekk í áttina til hans var með bleik andlit og bleika handleggi.

Hann setti bakið í húsvegginn á húsinu hennar og horfði í áttina að útidyrunum. Hann hafði ekki hugmynd um hvað hann ætti að segja við hana. “Núna kemur hún,” sagði hann við sjálfan sig í hljóði. Hún gekk hratt með léttu fótataki; með annarri hendinni hélt hún á körfunni og vafði kuflinum saman með hinni. Hvað gæti hann eiginlega gert? Hann gat aðeins elt hana. Fyrst fór hún til kaupmannsins og eyddi löngum tíma þar inni, síðan fór hún til slátrarans þar sem hann þurfti að passa sig á að hún sæi hann ekki er hún gekk fyrir hornið. Þá fór hún í vefnaðarvörubúðina og var óralengi þar inni að máta föt og síðan til ávaxtasalans og keypti þar sítrónu. Eftir því sem hann fylgdist lengur með henni varð hann vissari um að hann þyrfti að kynnast henni, strax. Fas hennar, alvarleiki hennar og einmanaleiki hennar, hvernig hún gekk og hegðaði sér eins og hún væri búin að fá nóg af þessum heimi fullorðinna, þetta var allt svo eðlilegt og ófrávíkjanlegt fyrir hann.

“Já, hún er alltaf svona,” hugsaði hann ánægður. “Við höfum ekkert með þetta fólk að gera.”

En núna var hún á leiðinni heim og var komin nokkuð langt í burtu... skyndilega breytti hún um stefnu og fór inn í mjólkurbúðina. Hann elti og horfði á hana kaupa eitt egg. Hún tók eggið úr körfunni svo mjúklega og fínlega; það var brúnt og fagurlega lagað, sjálfur hefði hann líka valið þetta egg. Og þegar hún var farin úr búðinni skaust hann inn á eftir henni. Að vörmu spori var hann kominn út aftur og fylgdi henni framhjá húsinu hans og gegnum blómamarkaðinn, beygði sig undan stóru sólhlífunum og steig óvart á blómin sem lágu á jörðinni og á hringina sem mynduðust þar sem blómapottarnir höfðu verið... smeygði sér síðan inn um dyrnar og á eftir henni upp stigann, passaði sig á að stíga á þrepin um leið og hún svo hún tæki ekki eftir honum. Loksins nam hún staðar á einum stigaganginum og tók lykil úr veskinu sínu. Á sama augnabliki og hún stakk lyklinum í skráargatið hljóp hann upp til móts við hana.

Hann roðnaði meira en nokkru áður, en leit þó á hana og sagði: “Fyrirgefið mademoiselle, þér misstuð þetta.”

Og hann rétti henni egg.

|

laugardagur, apríl 16, 2005

Á varðbergi

Hérna kemur þýðing mín á sögunni On Guard eftir Evelyn Waugh. Vonandi hafið þið gaman af henni.

Image hosted by TinyPic.com


I.


Hið ljósgullna hár sem Millicent Blade hafði var ekki það eina sem hreif svo fjölmarga; hún hafði einnig hrífandi líkamsburði og andlit sem gat breytt um svip á örskotsstundu úr vingjarnleika í hlátur og úr hlátri í nær lofsverðan áhuga.

En sá eiginleiki sem greindi hvað best hennar engil-saxneska uppruna frá öðrum var nefið.
Það höfðu ekki allir svona nef. Margir vilja frekar hafa það stærra; það félli málurum til dæmis ekki vel að skapi, því það var of lítið og hafði enga sérstaka lögun, í raun aðeins lítill bingur án nokkurrar sýnilegrar byggingar; nef sem gerði eiganda þess ómögulegt að vera montinn eða sýna einhverja yfirburði. Það myndi aldrei hæfa til dæmis barnfóstru eða póststjóra, en það hæfði persónuleika Blade stúlkunnar fullkomlega, því þetta var nef sem gaf til kynna brothætta yfirborðið sem þetta hlýja enska hjarta hefur og fær fólk til að láta sig dreyma um sokkabandsárin sín.

Þrír af hverjum fimm karlmönnum þykjast vaxa upp úr þessu og hugsa til þessara ára með hálfgerðri skömm og vilja frekar hafa nef sem vekur meiri eftirtekt meðal fólks, en hinir tveir eru bara venjulegir menn sem hvaða vel útlítandi stúlka væri ánægð með.

Hektor kyssti hana blíðlega á nefbroddinn. Um leið fóru skilningarvitin á flug og hann sá eins og í draumi kvöldhúmið í nóvember, þokuna sem breiddi sér yfir leikvanginn, hóp af rjóðum og ærslafullum drengjum í rúgbýleik; annan hóp af köldum og skjálfandi drengjum við vallarlínuna, stjakandi hver við öðrum á plankanum sem lá yfir drullusvaðinu, loppnir á fingrunum og öskrandi á sitt eigið lið þegar munnurinn á þeim var ekki fullur af kexi.

"Þú bíður örugglega eftir mér, er það ekki?" sagði hann.

"Jú elskan."

"Og þú skrifar mér?"

"Já elskan," svaraði hún með dulítilli efasemd í röddinni, "stundum...ég reyni að minnsta kosti. Ég er ekki sú besta við að skrifa, eins og þú veist."

"Ég mun hugsa um þig hverja einustu stund úti," sagði Hektor. "Þetta á eftir að vera taugaþjakandi...margra kílómetra fjarlægð milli mín og næsta hvíta manns, svíðandi sól, ljón, moskítóflugur, óvinveittir frumbyggjar, vinna myrkranna á milli með öll náttúruöflin á móti sér, drepsóttir, kólera...en bráðum verður þetta orðið það gott að þú getir komið og heimsótt mig.

"Já elskan."

"Þetta hlýtur að takast. Ég hef rætt þetta í þaula við Beckthorpe, þú veist, manninn sem er að selja mér bóndabýlið. Sjáðu til, uppskeran hefur brugðist hvert einasta ár hingað til...fyrst kaffi, svo rúgur, síðan tóbak. Og þetta er það eina sem hægt er að rækta þarna. Árið sem Beckthorpe ræktaði rúg, voru allir hinir að græða fúlgur fjár á tóbaki en rúgurinn kolféll; næsta ár ræktaði hann tóbak, en þá var það árgangurinn sem hentaði best til að rækta kaffi, og svo framvegis. Þannig gekk þetta í níu ár. En ef maður finnur þetta út með hjálp stærðfræðinnar, rétt eins og Beckthorpe segir, hlýtur maður að detta niður á réttu uppskeruna eftir þrjú ár. Ég get ekki útskýrt þetta alveg en þetta er eins og rúlletta og svoleiðis, ef þú skilur."

"Já elskan."

Hektor virti fyrir sér litla fallega nefið og týndi sér aftur.

"Hverjir eru bestir!" barst um völlinn, og eftir leikinn var hann heima hjá sér að rista beyglu...

II.

Seinna þetta kvöld snæddi hann kvöldverð með Beckthorpe. Eftir því sem leið á máltíðina varð vonarglæta hans æ daufari.

"Á þessum tíma næsta dag verð ég úti á rúmsjó," sagði hann og fitlaði við tóma púrtvínsglasið.

"Svona svona, hertu upp hugann drengur minn," sagði Beckthorpe.

Hektor hellti aftur í glasið og horfði með vaxandi fyrirlitningu á reykmettaða veitingastofuna á knæpunni hans Beckthorpe. Síðasti drukkni fastagesturinn var löngu farinn og þeir voru tveir eftir ásamt ísköldu matarleifunum.

"Hérna, ég hef reynt að komast til botns í þessu með uppskeruna. Þú sagðir að hún hlyti að heppnast eftir þrjú ár?"

"Það er rétt, drengur minn."

"Tja, ég fór aftur í gegnum útreikningana og mér virðist sem það gæti liðið áttatíu og eitt ár áður en hún verður rétt."

"Nei nei vinur, þrjú ár eða níu, eða í mesta lagi tuttugu og sjö."

"Ertu viss?"

"Að mestu leyti."

"Gott...þú skilur að það er hræðilegt að þurfa að skilja hana Millý eftir heima. Segjum að það liði áttatíu og eitt ár áður en uppskeran tekst...það er óskaplegur tími sem aumingja stúlkan þarf að bíða. Það hlýtur að vera einhver flötur á þessu."

"Á miðöldunum notuðu þeir stundum skírlífsbelti."

"Já einmitt, ég hef leitt hugann örlítið að því. En þau hljóta að vera skrambi óþægileg. Ég efast um að Millý vildi bera það utan um sig, jafnvel þótt ég fyndi eitt slíkt."

"Það er aldrei að vita. Þú verður þó að gefa henni eitthvað."

"Ansans vandræði...ég er alltaf að gefa henni eitthvað. Annað hvort brýtur hún óvart gjöfina, týnir henni eða gleymir samstundis hver gaf henni hana."

"Þú verður þá að gefa henni eitthvað sem hún man eftir. Eitthvað sem hún mun alltaf hafa hjá sér og sem endist."

"Í áttatíu og eitt ár?"

"Hmm, segjum að minnsta kosti tuttugu og sjö. Eitthvað sem minnir hana á þig."

"Ég gæti ef til vill gefið henni ljósmynd...en ég mun þó breytast heilmikið eftir tuttugu og sjö ár...?"

"Ljósmynd hæfir engan veginn. Gefðu henni frekar hund!"

"Hund?"

"Lífsglaðan hvolp sem er þó ekki of æstur og virðist langlífur er fullkomin gjöf. Hún gæti jafnvel skírt hann Hektor."

"Heldurðu að það sé góð hugmynd"

"Hundur er fyrsta flokks gjöf."

Næsta morgun, rétt áður en ferjan átti að fara, flýtti Hektor sér að einni af þessari tröllvöxnu stórverslunum í Lundúnum. Eftir mikið þóf var honum vísað í ”húsdýradeild”.

"Ég ætla að fá hvolp."

"Já, herra, af einhverri sérstakri tegund?"

"Einhvern sem lifir lengi. Áttatíu og eitt ár, eða... að minnsta kosti tuttugu og sjö.

Afgreiðslumaðurinn horfði á hann efasemdarsvip. "Við eigum hrausta og lífsglaða hvolpa að sjálfsögðu," sagði hann, "en engin ábyrgð um aldur fylgir þeim. Nú, ef herrann vill gæludýr sem er ögn varanlegra mæli ég með skjaldböku? Þær geta náð háum aldri og eru auðveldar í flutningi."

"Nei, það verður að vera hvolpur."

"Kannski páfagauk?"

"Nei nei nei, hvolp. Helst einhvern sem heitir Hektor."

Þeir héldu áfram um búðina, framhjá öpum og kettlingum og páfagaukum og loks yfir í hundadeildina sem jafnvel á þessum tíma dags hafði laðað að sér nokkurn hóp af ýmis konar gæludýrabröskurum. Þarna voru hvolpar með allar mögulegar gerðir af eyrum, nefjum, skottum og jafnvel göngulögum. Hektor valdi hvolp af handahófi og þegar afgreiðslumaðurinn gekk að borðinu til að ná í afganginn, horfði hann djúpt í augu hvolpsins, vék sér undan þegar hann ætlaði að glefsa framan í hann og sagði: "Þú átt að líta eftir Millý, Hektor. Gættu þess að hún giftist ekki neinum þar til ég kem aftur."

Hektor dillaði litla skottinu sínu.

III.

Millicent kom til að sjá hann fara, en í hirðuleysi sínu endaði hún á vitlausum brautarpalli, sem reyndar skipti engu máli þar sem hún var hvort eð er tuttugu mínútum of sein. Hektor og hvolpurinn eigruðu um brautarhliðið og það var ekki fyrr en lestin var byrjuð að hreyfast sem hann lagði hvolpinn í hendur Beckthorpe með þeim fyrirmælum að senda hann á heimilisfang Millicent.

"Ferðataska týndist - merkt Mombasa" stóð í tilkynningu á stöðvarhúsinu. Honum fannst hann vera einmanasta mannvera á jörðinni.

Þetta kvöld fékk hann símskeyti á meðan skipið sigldi fram hjá Channel vitanum: Sakna-þín-mikið-fór-Paddington-brautarpall-einsog-asni-takk
-fyrir-hundinn-elska-hann-pabba-langar-heyra-bóndabýlið-ekki-verða-hrifinn-af-skvísunum
-ástarkveðjur-Millý.

Í Rauðahafinu fékk hann annað: Passaðu-skvísurnar-hvolpurinn-beit-mann-sem-hét-Mike.

Eftir það fékk hann ekkert frá Millicent nema jólakort sem kom í lok febrúar.

IV.

Satt best að segja entist hrifning Millicent á hvaða karlmanni sem er sjaldnast lengur en fjóra mánuði. Það valt á því hversu langt hann hafði gengið á þessum fjórum mánuðum hvort hrifning hennar dofnaði smám saman eða hvarf eins og dögg fyrir sólu. Áhugi hennar á Hektor hafði byrjað að dofna um það leyti sem þau trúlofuðu sig, hann virtist ætla að birtast aftur í kjölfarið þrjár vikur á eftir þegar hann stóð í stappi við að finna sér vinnu á Englandi, en brottförin til Kenýu batt snöggan endi á það allt saman.

Og hvolpurinn Hektor hóf að rækja skyldustörf sín gagnvart karlmönnum og Millicent strax fyrstu dagana. Hann var að sjálfsögðu of ungur í hlutverk varðhunds og því er nær ómögulegt að kenna honum um það sem gerðist með Mike Boswell.

Mike Boswell var ungur maður sem naut fullkomlega órómantískrar vináttu við Millicent síðan hann kom fyrst út úr skápnum. Hann hafði orðið vitni að hinu fagra hári hennar í hvaða greiðslu sem er, með öllum höttunum, blómunum, teygjunum og borðunum, hann hafði séð uppbretta nefið í hvaða veðri sem er og jafnvel klipið hana þar stríðnislega við tækifæri, en hafði aldrei nokkurn tímann hrifist af henni öðruvísi en sem vin.

En því var varla við að búast að Hektor vissi þetta. Það eina sem hann varð vitni að var að tveimur dögum eftir að kaupandi hans hafði gefið honum þessi fyrirmæli, sá hann hávaxinn og myndarlegan mann sem virtist fullkomlega giftingarhæfur og kom fram við Millicent á þann hátt að hvolpurinn, samkvæmt uppeldi sínu í hvolpabúðinni, dró aðeins eina ályktun.

Ungmennin tvö voru að drekka te. Hektor horfði vandlega á úr sófanum með geltið á fremsta hlunni. Ákveðnum hápunkti var náð í samskiptum þeirra þegar Mike beygði sig fram og klappaði Millicent sakleysislega á hnéð.

Bitið var alls ekki fast, reyndar aðeins létt glefs, en Hektor hafði hárbeittar tennur eins og títuprjóna. Það var einnig þessi gríðarlegi hraði sem olli mesta skaðanum þegar Mike kippti hendinni að sér í skyndi; hann bölvaði, vafði hendinni í vasaklút og sýndi Millicent sárið eftir nokkrar mínútur við mikla geðshræringu hennar. Millicent talaði höstuglega við Hektor og blíðlega við Mike, og flýtti sér síðan að lyfjaskáp móður sinnar til að ná í flösku af joði.

Nú hefur enginn maður af enskum uppruna, hversu dauðyflislegur sem hann gæti verið, ekki getað orðið ástfanginn af stúlku sem smyr joði á hendur hans.

Mike hafði að sjálfsögðu séð nef hennar ótal sinnum áður, en þetta kvöld, þegar hann sá andlit Millicent dansa til og frá yfir særðu hendinni og heyrði hana segja ”meiðir þetta þig nokkuð ljúfur?” og ”svona svona, nú er allt í lagi” sá hann nefið í sama ljósi eins og svo margir aðrir karlmenn höfðu gert áður.

Hektor fylgdist með öllu sem gerðist og skildi um leið hvað hann hafði gert rangt. Hann skyldi sko aldrei aftur láta Millicent bera joð á hendur einhvers karlmanns.

V.

Þetta var einfalt verkefni hjá honum í það heila, því Hektor gat að nokkru leyti treyst á hina ófyrirsjáanlegu hegðun Millicent til að láta karlmenn ná ekki upp í nefið á sér af frústreringu. Það sem meira var, hún var byrjuð að elska hvolpinn út af lífinu. Hún fékk einnig bréf í hverri einustu viku frá Hektor sem, samkvæmt bréfunum lifði gleðisnauðu piparsveinalífi. Hún opnaði alltaf bréfin, oft las hún þau til enda en innihald þeirra hafði lítil áhrif á skapsveiflur hennar og smám saman féll sendandinn í gleymsku og dá. Þegar fólk spurði ”...og hvernig hefur hann Hektor það?” svaraði hún ”...ég er hrædd um að hann þoli illa þetta veður, og kápan hans er orðin hræðilega illa farin. Það þyrfti líka að láta snyrta feldinn hans,” í staðinn fyrir ”Hann fékk snert af malaríu eftir að svartmaðkurinn komst í tóbaksuppskeruna.”

Með tímanum kom Hektor sér upp tækni til að eiga við ungu herramennina sem heimsóttu Millicent. Hann var hættur að urra að þeim eða bleyta buxurnar þeirra, það endaði bara með því að hann var færður í annað herbergi. Þess í stað átti hann með tímanum afskaplega auðvelt með að eyðileggja öll innileg samtöl.

Tetími var hættulegasti hluti dagsins, því þá gat Millicent gjarnan skemmt vinum sínum í setustofunni. Og þótt Hektor þætti fátt betra en safaríkur kjötbiti þá náði hann að byggja upp einstakt þol gagnvart gríðarlegu magni af sykurmolum. Hverju sem það svo skipti fyrir meltinguna, þá beindi hann athygli Millicent að bellibrögðum sínum, hann gat gert ”biddu” og ”treystu”, leggjast og láta sem hann væri dauður eða standa úti í horni og lyfta framlöppinni að eyranu.

”Hvað þýðir ”s-y-k-u-r”? spurði Millicent og Hektor gekk í kringum teborðið að sykurskálinni og hnusaði af henni og setti móðu á allt silfurstellið.

“Hann skilur allt sem ég segi,” sagði Millicent þá sigri hrósandi.

Þegar bellibrögðin báru ekki lengur árangur krafðist Hektor að hann yrði færður í annað herbergi. Ungi maðurinn sæi þá skyldu sína í því að standa upp og opna dyrnar. Þegar hurðinni væri síðan lokað myndi hann ýlfra og væla og krafsa á hurðina til að fá að komast aftur inn.

Í ítrustu neyð þóttist Hektor vera veikur – sem var reyndar ekkert tiltökumál eftir allt þetta sykurát. Hann engdist þá allur um og kúgaðist eins og hann ætti lífið að leysa þangað til Millicent tók hann upp og færði hann á marmaragólfið fram á gangi, en með þessu gat hvolpurinn bundið snöggan endi á ofurviðkvæmt samtal milli hennar og herramannsins og allar vonir hans um rómantískan endi á heimsókninni voru runnar út í sandinn.

Þessar hernaðaraðgerðir héldu síðan áfram og áfram. Um leið og einhver sýndi merki þess að eiga við hana einlægt samtal birtist Hektor á milli þeirra og hver piparsveinninn á fætur öðrum var hrakinn í burtu, ringlaður og örvæntingarfullur.

Á hverjum morgni lá Hektor á sæng Millicent þegar hún snæddi morgunverð og las blöðin. Frá tíu til ellefu á morgnana helgaði hún sig algerlega símtólinu og það var helst þá sem ungu mennirnir sem hún hafði dansað við kvöldið áður gerðu hetjulega tilraun til að endurnýja samskipti þeirra og skipuleggja stefnumót. Í fyrstu reyndi Hektor að flækja sig í símasnúrunni en datt fljótlega niður á aðra áhrifaríkari lausn. Hann þóttist líka vilja hringja. Þannig, þegar síminn hringdi, dillaði hann skottinu og benti með trýninu á símann eins og hann vildi svara. Millicent tók upp tólið og Hektor kúrði sig upp að öxl hennar og hnusaði af símtólinu.

”Hlustaðu bara,” sagði Millicent þá, ”hér er einn lítill sem vill tala við þig. Er hann ekki algjör englabossi?” Síðan hélt hún símtólinu að Hektor og ungi maðurinn hinum megin á línunni var fljótt kaffærður af látlausu gelti. Þessi árangursríka aðferð féll Millicent svo vel í geð að oft á tíðum kærði hún sig lítið um hver var á hinni línunni en lét símtólið rakleiðis að Hektor, þannig að einhver grunlaus piparsveinn nokkra kílómetra í burtu, sem leið kannski ekki alltof vel í morgunsárið eftir gærkvöldið, var hreinlega tekinn úr umferð áður en hann gæti sagt eitt einasta orð.

Við önnur tækifæri reyndu piltar, undir áhrifum frá þessu ótrúlega nefi sem Millicent hafði, að sitja um fyrir henni í Hyde Park þegar hún spásséraði með Hektor. Til að byrja með þóttist hvolpurinn vera týndur, slóst við aðra hunda eða beit lítil börn til að beina athyglinni stöðugt að sér, en fór seinna meir mun þróaðri leið. Hann vildi fá að halda á töskunni hennar Millicent í kjaftinum. Síðan marseraði hann fyrir framan parið og hvenær sem nauðsynlegt var, missti hann töskuna svo herramaðurinn þyrfti að taka hana upp og rétta Millicent hana og síðan, að hennar beiðni, til hvolpsins. Fáir höfðu þrek eða hugrekki til að fara í fleiri en eina gönguferð í þessum hræðilegu aðstæðum.

Þannig liðu tvö ár. Stöðugar bréfasendingar frá Kenýa bárust henni, fullar tíðindum af slysum, uppskerubrestum, flóðum, hvirfilvindum og ógnarstjórninni sem þar ríkti eða gangi mála á heimsmarkaðnum. Við og við las Millicent bréfin fyrir hvolpinn en oftast skildi hún þau eftir ólesin á morgunverðarbakkanum. Hana og Hektor rak stefnulaust um hið áhyggjulausa haf enska skemmtanalífsins. Hvar sem hún rak inn nefið urðu tveir af hverjum fimm ógiftu piltum ástfangnir af henni tímabundið og hvar sem Hektor rak inn trýnið breyttust kurteisu og fyndnu piltarnir í angraða og skömmustulega piparsveina. Mæður víðs vegar um borgina byrjuðu að furða sig á því hvers vegna þessi aðlaðandi Blade stúlka var ennþá ógift.

VI.

Á þriðja ári þessarar ógnarstjórnar Hektors kom nýtt vandamál fram á sjónarsviðið, nánar tiltekið í persónu Sir Alexanders Dreadnought, majors og baróns. Hektor gerði sér strax grein fyrir að hér var á ferðinni erfiðara viðfangsefni en hann hafði nokkurn tímann tekið sér fyrir hendur.

Sir Alexander var þvert á móti ungur að aldri; hann var fjörutíu og fimm ára ekkill. Hann var vellauðugur, vinsæll og nær óhugnarlega þolinmóður, og hann var einnig mikils metinn sem formaður Midland hundafélagsins og með stútfulla stríðsferilsskrá af hetjudáðum. Foreldrar Millicent hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar þau sáu hvaða áhrif nef hennar hafði á majorinn. Hektor reyndi hvaða bellibrögð á hann sem hann hafði náð fullkominni færni í eftir tveggja og hálfs árs þjálfun, en allt án árangurs. Aðferðir sem höfðu hrakið tugi manna í hinar mestu ógöngur var einungis olía á ástareldinn. Þegar hann kom að ná í Millicent um kvöldið var hann alltaf með vasana troðfulla af sykurmolum; þegar Hektor var orðinn alvarlega veikur stökk Sir Alexander til með blaðsíðu úr The Times í hendinni; Hektor beit hann og beit en allt kom fyrir ekki. Majorinn sagði aðeins: ”Það mætti halda að ég sé að gera litla vininn öfundsjúkan. En trygglyndur hvutti.”

Sannleikurinn var sá að Sir Alexander hafði hlotið svipaða meðferð frá því hann var ungur maður – foreldrar hans, systkini, skólabræður, meðstjórnendur í hernum og herforinginn sjálfur, pólitísku samstarfsmenn hans, konan hans, veiðifélagar, kosningastjóri, ritari, og meira að segja einkaritari hans á þinginu voru allir samankomnir í majornum og hann tók þessari meðferð sem sjálfsögðum hlut. Fyrir honum var það ekkert eðlilegra en að láta gelta úr sér hljóðhimnuna þegar hann hringdi í stúlkuna á morgnana, og það var honum mikill heiður að taka upp tösku Millicent þegar Hektor missti hana í lystigarðinum. Sárin sem hann bar á ökklunum og úlnliðunum voru bara smáskrámur í augum hans. Á hátíðlegum stundum talaði hann um Hektor sem ”litli lagsmaðurinn”, að sjálfsögðu svo Millicent heyrði til. Og það fór ekki á milli mála þegar hann bauð Millicent og móður hennar að heimsækja sig, að ”heimboðið á að sjálfsögðu líka við um hann Hektor litla.”

Helgarheimsóknin til Sir Alexander var hreinasta martröð fyrir hvolpinn. Hann lagði sig fram eins og aldrei fyrr, hvert hernaðarbragðið á fætur öðru var ítrekað reynt án árangurs. Fyrir gestgjafann, það er að segja. Þjónustufólkið brást að minnsta kosti við, og hann fékk í sig illúðlegt spark þegar hann ætlaði að eyðileggja bollastell sem brytinn var að undirbúa fyrir tetíma.

Aðferðir sem höfðu gert Millicent vandræðalega í nær helmingi betri búinna heimila í Englandi var varla tekið eftir á herragarðinum. Það voru aðrir hundar í húsinu – eldri, stærri og betur siðaðir sem Hektor flýði undan en þeir létu sér nægja að snúa sér undan af hneykslun þegar hann gelti að þeim. Þeir röltu síðan með virðugleik eitthvað annað og Sir Alexander lét loka þá af það sem eftir lifði heimsóknarinnar.

Það var freistandi Aubusson teppi í borðstofunni sem Hektor náði að tæta í sundur en Alexander virtist ekki taka eftir því. Hann fann stóran hestvagn í garðinum og náði að rúlla honum af stað hvernig í ósköpunum sem hann gat það. Þegar hann sneri aftur inn klóraði hann í hvern einasta stól í teiknistofunni, en Sir Alexander hjálpaði Millicent í staðinn við að baða hann um kvöldið og kom meira að segja með baðsölt úr sínu eigin baðherbergi við aðgerðina.

Hektor ýlfraði eins og stunginn grís alla nóttina; hann faldi sig og lét hálft þjónustuliðið leita að sér logandi ljósi. Hann drap ungan fasana og gerði hetjulega tilraun við páfugl. Allt kom fyrir ekki. Hann náði meira að segja að bægja frá bónorðstilraun, það er dagsatt, einu sinni í hollenska lystigarðinum og annað skiptið þegar verið var að baða hann, en þegar mánudagurinn rann upp og Sir Alexander sagði ”Ég vona svo sannarlega að Hektor hafi notið heimsóknarinnar. Hann má endilega koma aftur sem fyrst,” vissi Hektor sig sigraðan.

Héðan í frá var þetta aðeins tímaspursmál. Á kvöldin í London var nær ómögulegt fyrir hann að fylgjast með henni. Einn daginn myndi hann vakna og heyra Millicent segja frá trúlofun sinni við vinkonur sínar í símann.

Þannig að eftir langa og stranga tilhugsun fann hann aðeins eina örvæntingarfulla leið. Hann var orðinn nokkuð hændur að henni, og þegar hún knúsaði hann fann hann til dulítillar samúðar með öllum þeim piparsveinum sem hann hafði farið svo illa með.

En Hektor var enginn ómerkilegur blendingsrakki. Eins og allir vel ættaðir hundar vissi hann að það eru peningarnir sem skipta máli og það er kaupandinn, en ekki eigandinn, sem skyldur hans liggja til. Hendurnar sem höfðu haldið á honum í risabúðinni í húsdýradeildinni voru nú blöðrum settar og fleiðraðar eftir ræktunarhokur í hinni villtustu Afríku en þessi heilögu fyrirmæli ómuðu enn í minni Hektors. Þannig að eftir miklar vangaveltur aðfaranótt mánudags hjá majornum komst hann að niðurstöðu: Nefið verður að fara.

VII.

Þetta var einfalt mál, aðeins hnitmiðað glefs þegar hún beygði sig yfir körfuna hans og ætlunarverkinu var náð. Hún fór í lýtaaðgerð og nokkrum vikum seinna var hvorki skráma né ör á nefinu. En það hafði breyst; lýtalæknirinn var á vissan hátt listamaður, og eins og kom fram áðan, hafði Millicent nef sem laut engum fagurfræðilegum lögmálum. Núna hefur hún listfræðilega fullkomið nef, sem hæfði vel þeirri piparjómku sem hún var í þann mund að breytast í. Eins og sannri piparjómku sæmir fylgist hún grannt með öllum útlenskum bréfum og geymir vandlega læsta skúffu fulla af niðurdrepandi landbúnaðarröfli. Og eins og sannri piparjónku sæmir fylgir henni hvert sem hún fer ört vaxandi kjölturakki.

|

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Fleiri sögur

Það er helvíti góður skóli að þýða enskar smásögur. Á næstu dögum birtast hérna tvö stykki sem við lásum í skólanum og mig langaði að snara yfir á íslensku. Þið getið vonandi haft gagn af þeim í prófunum.

|

föstudagur, apríl 01, 2005

Hvernig best er að stytta kennslustund

Eftir margra ára reynslu í þeirri eðlu listgrein að sóa 40 mínútum í ekki neitt hef ég sett saman litla leiðsögn sem hinir óreyndari nemendur geta vonandi nýtt sér við að láta tímann líða hraðar. Vonandi hafið þið gagn af.1. Hafa ber í huga að hver mínúta skiptir máli. Mættu því of seint. Þannig geturðu sparað þér allt upp í fimm mínútur af kennslustundinni - fimm mínútur sem færu í einhverja bölvaða vitleysu hvort eð er.

2. Komdu algerlega óundirbúinn og helst ekki með nein gögn. Mikilvægt er að þú hafir ekkert í fórum þínum sem tengist efni kennslustundarinnar því hætta er á að hugur þinn geti reikað inn á efnissvið þess sem kennt er og þá er öll fyrirhöfnin fyrir bí. Taktu með þér einhverja góða og auðlesna bók í staðinn - mælt er með Myndasögusyrpu nr. 45. og allan '93 árganginn af Lukku-Láka.

3. Sestu næst útganginum þar sem næsta skólabjalla er. Gefa skal gaum að því að það tekur hljóðið nokkurn tíma að ferðast gegnum andrúmsloftið - því nær bjöllunni sem þú situr því fyrr heyrirðu í henni.

4. Þegar kennarinn hefur byrjað kennslu skaltu passa þig að hlusta ekki á neitt sem hann segir. Athugaðu í staðinn borðið þitt. Hefur einhver krassað á það? Er búið að teikna eitthvað á bríkina? Skoðaðu með gaumgæfni samhengið milli teikninganna og textans og reyndu að finna út hvers konar persóna það var sem sat þarna á undan þér.
Kíktu síðan á borðfæturna. Ef hægt er að skrúfa einn borðfótinn ofurlítið upp(gert með það í huga að koma í veg fyrir að það sé valt) skrúfaðu hann þá eins hátt upp og þú getur. Athugaðu síðan hvort þú getir skapað nógu mikinn halla til þess að blýanturinn þinn renni sjálfkrafa niður.

5. Ruggaðu þér á stólnum. Í Heimsmetabók Guinness á Þjóðverjinn Klaus Grünbauer heimsmet í að rugga sér á stól, eða 27 mínútur sléttar. Reyndu að bæta metið hans - mundu að æfingin skapar meistarann. Athugaðu hvort þú getir ruggað þér á stólnum og gert broskall í strokleðrið þitt með blýantinum á sama tíma.

6. Spurðu kennarann hvort þú megir fara á klósettið(þó án þess að rétta upp hönd). Ef þú ert í tungumálatíma skaltu þvertaka fyrir að spyrja á því tungumáli sem kennslustundin er með. Farðu síðan fram á gang og reyndu að standa á höndum upp við vegginn. Komdu síðan kafrjóður í andlitinu aftur inn og tautaðu með sjálfum þér þvílík átök þetta hafi verið. Þetta ætti að tefja kennsluna nokkuð og lífga upp á tímann.


Þegar bjallan hringir (samkvæmt náttúrulögmálunum ættir þú að vera sá fyrsti sem heyrir í henni) skaltu vera búinn að taka saman það litla dót sem þú hafðir með þér og ganga rösklega út án þess að líta til vinstri eða hægri. Nú er sigurinn unninn. Þessa litlu leiðsögn má síðan nota aftur og aftur í hartnær hvaða kennslustund sem er. Gangi ykkur vel.

|

sunnudagur, mars 20, 2005

Reglur í fegurðarsamkeppnum

Lengi hefur vantað haldbærar reglur um hvernig skuli dæma og meta kvenfólk í fegurðarsamkeppnum. Ákveðið var að bæta úr því og bókin Hestar eftir Theodór Arnbjörnsson höfð til hliðsjónar:

1. Kona í kyrrstöðu
Kona í kyrrstöðu skal sýnd svo, að hún standi á eðlilega sléttu. Verði einhver vafaatriði, leitar maður hins rétta með því að fara með konuna afsíðis, láta hana breyta um stellingar og gera hið óljósa ljóst. Í einrúmi má þannig oft fá konuna til að sýna það sem hún kann að vera treg til að auglýsa í margmenni.

2. Kona séð framan frá
Eyrun séu há, oddhvöss, uppvafin, fínhærð, upprétt og nástæð, en þó sitt hvoru megin á höfðinu. Bringan hvelfd. Síðurnar fylli vel út í sjónhending milli bóga og læra, og sé konan hæfilega feit og hærð á réttum stöðum.

3. Kona séð aftan frá
Þegar kona er skoðuð aftan frá er best að standa í nokkurra skrefa fjarlægð frá henni. Rétt er að skoða hana bæði nástæða og gleiða, en hafa ber í huga að gleiddin markast nokkuð af því hvort konan er bein eða bogin í hnjáliðunum. Margir dómarar hafa það fyrir sið að dæma konur að mestu leyti í þessari stellingu. Þannig er best að dæma lögun lendarinnar frá þessu sjónarhorni og láta þá konuna standa bæði á fram- og afturfótunum. Mjög er tíðkað í tímasparnaðarskyni að dæma andlitið í leiðinni, en það sést í þessari stellingu glöggt milli afturfótanna.
Andlitið samanstendur af enni, snoppu, nösum, kjálkum, vöngum, munni og eyrum.
Ef ekki er laut í nefbeininu, skammt fyrir neðan augun (en það kallast merarskál), þá telst konan vera snoppufríð.
Nasir eiga að vera flenntar, slímhúðin innan í nösunum rauð. Sá kostur fylgir flenntum nösum, að síður kemur slaki í efri vörina þegar konan eldist.
Munnurinn liggur á milli eyrnanna fyrir neðan nasirnar. Fegurstur er munnurinn þegar konan þegir, og varast skyldi hún að brosa, nema hún sé með sínar eigin tennur.
Hálsinn er fyrir ofan höfuð (við munum að við erum að skoða konuna aftanfrá á milli afturfótanna), og á hann helst ekki að vera grennri og lengri en það að konan geti með góðu móti haldið höfði.
Nú verða dómarar að snúa konunni aftur við, skoða hana á ný framan frá og dæma frá því sjónarhorni axlir, bringu, þind, skauf, mjaðmir (lendin hefur verið dæmd aftanfrá), læri. hné, leggi og fætur.
Bringan skiptist í tvennt, hægra og vinstra brjóstið. Gott er að brjóst séu það stór að hægt sé að sletta þeim aftur fyrir öxl og kallast það að ,,axla sín skinn“.
Og svo haldið sé niður eftir líkamanum eins og leið liggur, en þar taka lærin við. Þykkt læranna er best að skoða úr dálítilli fjarlægð, fyrir aftan konuna, og meta þau bæði í senn. Þau kallast vel þykk þegar konan er samvöðva niður á móts við hnéliði.
Að síðustu ber dómurunum að taka í dómum sínum verulegt tillit til geðslags keppenda. Leggja ber áherslu á að konan sé léttlynd. Slíkar konur hafa venjulega heldur lág eyru, nokkuð þykk og breið, ekki uppmjó, en þó með fínum broddum, þétthærð og gljáandi.

|

sunnudagur, mars 06, 2005

Bólu-þáttur

Tjaldið dregið frá. Tvær bólur liggja hlið við hlið á hálsi Kristjáns og taka tal saman:

1. bóla: "Sæl, þú ert bara enn hér?"
2. bóla: "Já, ætli það þýði nokkuð annað."
1. bóla: "Jah, þú getur trútt um talað. Ætli það sé nokkuð tekið út með sældinni að vera bóla. Þessi guðsvolaði staður ætlar mig lifandi að drepa."
2. bóla: "Þær hafa það nú víst lítið betra þarna uppi á enninu. Heyrði af tveimur eða þremur sem virðast lepja dauðann úr skel."
1 bóla: "Betra og ekki betra!" Setur upp snúðugan svip og sveiar. "Búin að vera kyrr á þessum stað í einar tvær vikur og fjandans maðurinn ætlar aldrei að láta mig í friði. Var alltaf að kreista mig til og frá og kroppa og klóra. Hann tók þá upp á því að vera alltaf með trefil og ekki var sú samvist betri. Rykmaurarnir skriðu um mig hér og þar, andskotans kvikindin og andarteppan fór loks að gera virkilega vart við sig þegar maður er innilokaður allan daginn alveg hreint undir treflinum."

Þegar hér var komið sögu vissi höfundur ekkert hvað hann átti að setja næst. Hann vöðlaði blaðinu saman og henti í ruslið, sem varð óhjákvæmilega til þess að blaðið lenti hér. Satt best að segja þá er þessi síða lítið annað en ruslakista óþekkts höfundar nokkurs sem gleypir við hvaða bulli sem er. Óvíst er hvort næsti þáttur um bólurnar tvær verði nokkurn tímann skrifaður - í millitíðinni hlýtur önnur himnasending af sorpskrifum að lenda hér í þessum netsins táradal.

|

föstudagur, febrúar 25, 2005

Þegar börnin fóru í heimsókn til ömmu og afa út í sveit að fara í berjamó. Sögðu gömlu hjónin þeim að gæta sín bæði á grænu berjunum og að ruglast ekki á þeim þroskuðu og lambaspörðum. Og það gerðu þau. Þegar þau komu aftur með berjasafann langt út á kinn skælbrosandi spurði afinn hvort þau hefðu rekist á nokkur lampaspörð. Svöruðu þau því neitandi en voru jafnframt mjög ánægð með hið gífurlega magn af saltpillum sem þau fundu út í móa og átu með bestu lyst.

|

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Screwing his wife

|

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Tímaþröng?

Hefurðu lítinn tíma? Viltu samt sem áður ná að fylgjast helstu bíómyndunum til að geta rætt um þær?
Þá er hér lausnin fyrir þig. Með kvikmyndaþjónustu Kristjáns geturðu fengið allar mögulegar kvikmyndir á þjöppuðu og aðgengilegu formi og vitað allt það nauðsynlega sem þú þarft að vita um þær. Dæmi:

Lion King

Skari:
Þú drapst föður þinn.

Simbi (hleypur í burtu.)

Nala:
Við þörfnumst þín.

Simbi (hleypur til baka.)

Endir


Titanic

Leonardo di Caprio: Samfélagsleg staða þín er leiðinleg. Förum og dönsum á 17. farrými með skipsrottunum.

Cate Winslet: Þú hefur fangað hjarta mitt. Við skulum dansa um allt skipið og flissa eins og vitleysingar.

(Skipið sekkur)

Leonardo di Caprio: Mundu, aldrei að sleppa.

Cate Winslet: Ókei (
sleppir.)


Endir
The Matrix

Keanu Reeves:
Hey sjáið mig! Ég er loksins að leika í kvikmynd sem er ekki ömurleg!

Áhorfendur: Gasp!

Keanu Reeves: Já, það er dagsatt! Og jafnvel þrátt fyrir algjöran skort minn á leikrænum hæfileikum, þá sökkaði ég næstum því ekki í þessari mynd!

Áhorfendur: (líður yfir þá.)


Endir.

|

laugardagur, janúar 22, 2005

Önnur hljómsveitarsaga

Kristján spilaði eitt sinn á píanó í kletzmer hljómsveitinni Sababa. Fór hún út um víðan völl hverja helgi og lék sína tónlist, kletzmer aðdáendum(sem og öðrum aðdáendum) til skemmtunar.
Eitt sinn var sveitin pöntuð á knæpuna Stóra-Ben(á ensku Big-Ben) til að leika fyrir léttum dansi tindilfættra breiðhyltinga. Er þar yfirleitt glaumur og gleði hverja helgi og mannfögnuður mikill fram á rauða nótt. Meðlimir sveitarinnar gerðu sér gott til glóðarinnar og litu til helgarinnar með bjarma í augum enda hefur orðstír staðarins borist víða og meira að segja alla leið í litla 101.

Klukkan hálfátta á föstudagskvöldi sat píanóleikarinn í hnipri í aftursætinu á litlum Opel Astra, krókloppinn á fingrunum og hafði meira að segja ekki haft tíma til að greiða sér eftir að hafa skellt sér í vestið og hnýtt bindishnútinn. Kontrabassaleikarinn keyrði. Það kom gufa þegar þeir önduðu og báðum var skítkalt. Kontrabassinn sat við hliðina á í aftursætinu, breiddi úr sér og lét fara vel um sig. Efri hluti hljóðfærisins teygði sig alla leið upp undir hélaða afturrúðuna og gerði það að verkum að píanóleikarinn hafði lítið sem ekkert pláss til umráða og heldur ekkert næði, því í hvert skipti sem beygt var til vinstri þurfti hann að beita öllum sínum kröftum við að ýta bassanum til hægri svo hann tæki ekki slagsíðu og truflaði ökumanninn.
Ferðinni var heitið á Stóra-Ben og var löng leið fyrir höndum. Báðir þögðu alla leið nema kontrabassinn því það söng í honum þegar vélin náði ákveðnum snúningi sem var á sama tíðnisviði og strengirnir í bassanum blöðruðu alla leiðina og virtust ekkert ætla að þegja.

Þegar á staðinn var komið virtist allt í himnalagi. Húsnæði staðarins var til fyrirmyndar í alla staði og á móti hljóðfæraleikurunum tók vingjarnlegur eigandi í notalegu umhverfi. Á knæpunni var veglegt barborð með ágætis úrvali áfengra drykkja og spegli á bak við sem tvöfaldaði innihaldið. Síðan voru þarna nokkur ballskákarborð og látlaust svið.

Þá var að fá líf í kalna fingur og útlimi eftir heimskautaferðina upp í Breiðholtið og bíða þangað til hinir hljóðfæraleikararnir komu. Þeir höfðu haft það náðugt í vel upphitaðri glæsikerru með rafknúnum hauspúðum og DVD-spilara.
Eftir um klukkutíma var ágætlegur fjöldi gesta saman kominn á staðnum, ýmist fastagestirnir að drekkja sorgum sínum eða einhverjar villuráfandi flökkukindur sem vissu ekki almennilega hvað þeir voru að gera þarna inni. Fullkomið tækifæri, hugsuðu Sababa-meðlimir og töldu í fyrsta lagið. Einhverjum virtist líka það ágætlega og þeir settust í hóflegri fjarlægð frá sviðinu og hlustuðu á.

Nú hafði píanóleikarinn notað hljómborðs-statífið sem sést á myndinni í rúm þrjú ár án vandkvæða. Það var hins vegar í sérstaklega vondu skapi þetta kvöld og ákvað að bila.
Skyndilega súnkaði heljarþunga hljómborðið niður beint á tærnar hans(nei þetta eru ekki ýkjur) þegar helvítis skrúfan gaf sig. Kristján kæfði þó niður sársaukaveinið, kraup niður á gólf þar sem hljómborðið lá dasað eftir fallið og hélt áfram að spila með myndarbrag þar til lagið var búið. Þá var farið og náð í tvo auða stóla(sem nóg var af) og haldið áfram. Eftir tónleikana henti hann statífinu í ruslagám og hefur það áreiðanlega endað sína lífdaga þar.
Sababa kláraði sem betur fer tónleikana án fleiri stóráfalla þrátt fyrir að einn fastagesturinn hafi ekki verið alveg nógu sáttur með tónlistina og tjáð reiði sína með því að henda tómu bjórglasi að sviðinu.

Eftir tónlistaratriðið kom í ljós að önnur skemmtiatriði voru einnig í boði þetta kvöld. Þegar síðasta laginu hafði verið rennt í gegn var nú orðið troðið á staðnum og þegar Sababa grennslaðist fyrir um ástæðuna sagði eigandinn þetta vera magadansaðdáendur, en magadansmeyjar höfðu verið leigðar þetta kvöld gestunum til yndisauka. Hvað um það, hugsuðu hljóðfæraleikararnir, gerðu upp við eigandann og pökkuðu sínu dóti baksviðs og ætluðu síðan að halda út um bakdyrnar. Þar mættu þau þremur magadansstúlkum frekar léttklæddum og með ýmiss konar glimmer og húllumhæ á þeim litlu pjötlum sem náðu að hanga utan á þeim.
Þegar allt dótið virðist vera komið uppgötvar hinn seinheppni píanóleikari að magnarinn hans verðmæti varð eftir á sviðinu. Ákveður hann þegar í stað að strunsa til baka og ná í gripinn. Hann skeytir engu um hvað kynnirinn á sviðinu er að segja þessa stundina en hefði einhver annar verið viðstaddur(auk hinna erlendu magadansara sem kunnu ekki bofs í íslensku) gæti hann sagt honum að magadansarar væru næstir á sviðið. Um leið og píanóleikarinn strunsar inn fyrir allra augliti, bölvandi yfir mörðu tánöglunum sem hann uppskar í kjölfar bæklaða statífsins, beinist kastljós sviðsins samstundis að honum og kynnirinn kallar "Gjörið svo vel dömur mínar og herrar".

Það var dauðaþögn í salnum. Kristján, þrátt fyrir íturvaxnar mjaðmir og óaðfinnanlegan bindishnút vakti ekki mikla lukku meðal miðaldra karlkyns gestanna sem vildu aðeins bert hold en engan bólugrafinn fjörulalla sem nú dandalaðist á sviðinu fussandi og sveiandi yfir því hvar magnarinn hans gæti verið. Vegna þessa sterka kastljóss og dauðaþagnarinnar sem ríkti í salnum áttaði hann sig ekki strax á hvað var um að vera og æddi fram og aftur tínandi upp rafmagnssnúrur, fótstig fyrir hljómborðið og ýmiss konar dinglumdangl sem hafði orðið eftir á sviðinu.

Eitt þétt spark í rassinn frá eigandanum og bólugrafni píanóleikarinn endasentist niður hinar mörgu tröppur Stóra-Ben og endaði fyrir framan fætur hinna meðlimanna. Að lokum fékk hann píanófótstigið í hausinn og vissi ekki af sér fyrr en hann var kominn heim.
Endir

|