.

miðvikudagur, desember 25, 2002

Einu sinni fyrir langa löngu var lítið land sem hét Dnalsí land.
Íbúarnir þar voru allir ríkir, glaðir og hamingjusamir(enda trúðu allir á það að ríkidæmi færði þeim hamingju - sem og það gerði).
Reyndar voru ekki allir hamingjusamir - sem kom til vegna þess hvað þeir voru fátækari en hinir - þeir nefndust hraðskáld eða öryrkjar vegna þess hvað þeir ortu ört.

Þetta litla samfélag átti sér trúarstofnun er nefndist LR. Í litlu lagabókinni sem landið átti sér stóð að LR væri þjóðtrúin sem landsmenn tryðu á svo þeir gætu átt sér eitthvert haldreipi ef óþægilegar spurningar vöknuðu upp. Í mörghundruð ár hafði Dnalsí lifað við þessar einföldu reglur, og aldrei hafði komið til kastanna vandamál sem LR gæti ekki leyst.

En skyndilega breyttust tímarnir. Fólk frá öðrum miklu stærri og fjölmennari samfélögum fór að flytja inn í stórum stíl og truflaði Dnalsí fólkið. Því hafði liðið svo vel í sinni einföldu heimsmynd, en núna var komið nýtt fólk með nýjan lífsstíl, nýja matar- og fatarmenningu, nýtt tungumál og síðast en ekki síst: Nýja trú.
Það fór kliður um fólkið er það skrafaði sín á milli um þessa nýju íbúa. Það var stórundarlegt í háttum, vildi bara taka að sér störf sem enginn Dnalsí íbúi liti við nema í neyðarúrræðum. Það var óopinberlega orðið lágstéttarfólk sem talaði enga Dnalsísku, heldur eitthvað hrognamál sem ekki nokkurt kvikindi skildi bofs í.
Stjórnarmennirnir sem stjórnuðu litla landinu fóru 0að hafa áhyggjur. "Hvað ef þeir fara svo að iðka sína trú, sem stríðir á móti litlu lagabókinni okkar?" spurðu þeir. Þeir ákváðu því að stroka út nokkrar línur í bókinni, og skrifa í staðinn með blekpenna(því auðvitað mátti eki móðga nýja fólkið með því að setja lög sem vörðuðu það með blýanti) nýja klausu þar sem stóð að hver sem er mætti iðka sína trú.
Allir stjórnarmennirnir urðu glaðir aftur.

En þeim hafði yfisést lítillega. Þeir gleymdu að breyta annarri klausu þar sem stóð að LR trúin væri sú eina rétta trú, að hún skyldi vera styrkt af litla ríkissjóðnum þeirra, kennd og innrætt í barnaskólum (og reyndar langt fram eftir litla skólakerfinu á Dnalsí eyju) og að helstu hátíðsdagar LR trúnnar yrði sýnt á ríkisstyrkta sjónvarpinu þeirra svo að LR trúin héldi velli. Reyndar fór óskaplega lítið af Dnalsí íbúum í LR kirkju, en klerkarnir og biskupinn héldu LR trúnni í vitund fólks með því að koma sér í mjúkinn hjá sjónvarpsstöðvunum svo þeir gætu náð til fullt af fólki og minnt það á það að LR trúin væri enn sú eina rétta.

Núna byrjaði þetta nýja fólk að iðka trú sína af miklum móð, þar eð það stóð með blekpenna að það væri fullkomlega löglegt á Dnalsí eyju, en LR trúin hélt áfram að vera sú eina rétta samkvæmt litlu lagabók stjórnarmannanna. Þetta fólk sem kom frá stóru, stóru löndunum hélt líka áfram að tala sitt tungumál innanborðs, og krakkar frá þessum stóru, stóru löndum var útaf fyrir sig í sínum vinahópum. Fólkið sem kom frá þessum löndum skipti sér heldur ekkert af stjórnarmönnunum, um hver þeirra ætti að fá að ráða mest og hvort það ætti að fórna verðmætustu hlutum Dnalsí eyju fyrir gróða sem dygði síðan í mesta lagi 100 ár fram í tímann. Því fjölgaði og fjölgaði sífellt í landinu, trúarbrögðin sem það iðkaði urðu sífellt vinsæll og vinsælli, meðan LR trúnni hnignaði stöðugt og varð smám saman að innantómu prjáli.

En sjónvarpsstöðvarnar héldu samt áfram að sýna frá helstu atburðum og helgidögum LR trúnnar. Bara, svona, til þess að fólkið myndi ekki alveg gleyma því að LR var hin eina rétta trú;

og síðast en ekki síst af því það stóð einu sinni í litlu lagabókinni.

|

fimmtudagur, desember 12, 2002

Fyrirmyndir

Mönnum hefur verið tíðrætt um hversu skaðlegar nútíma poppfyrirmyndir séu fyrir unglinga og ungt fólk á síðustu áratugum. Vísindamenn hafa komið með þær tilgátur að öll þessi síbylja sem dynur á ungu fólki nú til dags eigi eftir að hafa miklar afleiðingar, hvort sem þær verða af hinu illa eða ekki.

Ég hef hins vegar engar áhyggjur af þessu, læt öll tónlistarmyndbönd, poppútvarpsstöðvar og auglýsingar á götum úti sem vind um eyru þjóta. Allir hafa sín sársaukamörk, hvort sem það er fyrir símasölumönnum, poppmyndböndum, auglýsingum eða hverju öðru. Um leið og farið er yfir þessi sársaukamörk byrjar áróðurinn sem teygði þolrifar þess að snúast gegn sjálfum sér og hefur algerlega andstæð áhrif. Fari t.d. símasölumaður yfir þessi sársaukamörk hjá "viðskiptavinum" sínum, hættir fólk að þola þá, og gerir sér það að leik að kaupa aldrei neitt af þeim þegar þeir hringja í mann kl. 7 að kvöldi á meðan maður nælir sér í kartöflurnar og afganginn af fiskinum í ísskápnum.

En svo við víkjum aftur að fyrirmyndunum, þá hafa þau einnig þessi svokölluðu sársaukamörk. Að vísu eru þau frekar einstaklingsbundin, og fara oftast nær eftir aldri, kyni, áhugamálum o.s.fr.

Í tónlistarmyndböndum sem við sjáum svo til daglega, gefur að líta íturvaxnar dilla-rassi-og-brjóstum-dansmeyjar, og (þótt sjaldgæfara sé) hraustlega vaxna Fabio-a 21. aldarinnar, sem ærslast og djöflast engu líkara en þau væru stödd í alls herjar vikivaka; allt í takt við steingelda popptónlist sem á ekki tilvist sína skilið. Ungir og ómótaðir unglingar taka þessar ímyndir beint inn í heilarótina, og með síendurteknu áhorfi(það er engin tilviljun að þessi tiltekni aldurshópur slær öll met í popptívíglápi) greypist þessi vöxtur, framkoma og útlit inn í aldurshóp sem veit varla í hvorn fótinn hann á að stíga þegar kemur að aukningu sjálfsmyndar sinnar. Hann grípur sitt traustasta haldreipi, nefnilega tónlistarmyndböndin, fataauglýsingar með tággrönnum fyrirsætum, fegurðarsamkeppnir o.s.frv.

(Ég ætla ekki að fara nánar út í hvernig þróun hins almenna tónlistar- og myndbandamarkaðs hefur átt sér stað og af hvaða orsökum, hugarar góðir vita vonandi meira en nóg um þau mál.)

Gott og vel.

Það er hins vegar önnur hlið á teningnum sem, að mínu mati gleymst hefur að skoða, sem er einmitt þessi merkilegu haldreipi. Varla urðu þau til þegar tónlistarmarkaðurinn fann sína nýjustu féþúfu?

Held ekki.

Öld eftir öld, árþúsund eftir árþúsund hafa unglingar á fermingaraldri grandskoðað málefni er tengjast því hvernig þau eigi að líta út, hvernig best sé að ganga í augun á hinu kyninu, hvernig þau vekja virðingu meðal vina og kunningja sinna og þar fram eftir götunum. Þau hafa, rétt eins og óharðnaðir unglingar í "rótlausum nútímaheimi græðgi og spillingu" fengið sín haldreipi, bara annars staðar frá.
Mæður hafa allt frá upphafi mannkyns beðið dætur sínar að hjálpa sér við húsverkin, allir feður sem gengið hafa á þessari jörð hafa sýnt syni sínum hvernig veiða á fisk, eða dádýr, að ég tali nú ekki um hvernig bera skuli sig að við skeggrakstur.
(Að sjálfsögðu er ég að einfalda málin með því að taka steriótýpur sem allir þekkja.)

---

Eftir þennan samanburð leyfi ég mér að efast um óhollustu fyrirmynda nútímans. Þar að auki, þá er þetta ekki eina gnægtahornið sem unglingar geta sótt í þegar þau eru ráðvillt á kynþroskaskeiðinu, síbyljan er aðeins brot af þeim fróðleiksbrunni.

Það er einfaldlega ekkert nýtt undir sólinni, þeir eldri hafa alltaf "hneykslast"(dálítið sterkt til orða tekið) á yngri kynslóðinni og orðið bangnir við tilhugsunina um hvernig unga fólkið muni taka við þjóðfélaginu. "Heimur versnandi fer" taka þessir gamlingar sér orð í munn. Enda eru menn alltaf hræddir við það sem þeir ekki þekkja.

|

mánudagur, desember 09, 2002

Áfengi í matvörubúðir?

Um þetta mál hafa margir skiptar skoðanir. Mönnum stendur yfirleitt ekki á sama, annað hvort vilja þeir óðir og uppvægir lögleiða áfengissölu í matvörubúðum, á meðan aðrir naga á sér neglurnar yfir því hvort þetta verði leyft eða ekki, svo umhugað er þeim um þetta.
Ég er hinsvegar einn af þeim sem er nokkurn veginn sama, enda er ég ekki orðinn nógu gamall til þess að þetta hafi einhver áhrif á mitt líf.
Fréttamenn og pistlahöfundar eru duglegir við að bera okkur saman við hinar og þessar Norðurlandaþjóðir, og þá kemur oft margt skemmtilegt í ljós.

Danir eru duglegir við að teyga sopann, og þar er áfengi með því ódýrasta í Evrópu og aðgengið að því hvað auðveldast. Noregur aftur á móti er með dýasta áfengisverð í heiminum þótt við nálgumst þá óðfluga, skemmst er þess að minnast þegar ríkið hækkaði sterkt áfengi um 10-15%.
Hins vegar er áfengisneysla samkvæmt könnunum sú sama hjá öllum Norðurlöndunum, og ber Danmörk þar ekki höfuð og herðar yfir hinar þjóðirnar. Hvað sýnir það okkur? Sýnir það okkur að
a)Danir kunna að drekka
b)Danir eru ekki jafn spenntir fyrir áfengi eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar því aldurstakmarkið á áfengi er lágt og verðið ódýrt
c)Við hin látum okkur hafa það þrátt fyrir rokna hátt verð og þrömmum stolt út í ríki til að svala alkóhólistaþörfum okkar

?

Eins og kerfið er í dag á Íslandi, þá er það ekkert mál að komast fram hjá því. Neytendur fara eftir sinni sannfæringu, og langi þá í vín þá kaupa þeir sér það. Aðferðin skiptir ekki máli. Þú getur fengið hvern sem er yfir 20 ára aldri til að kaupa hvað sem er fyrir þig, nú eða þá að ef buddan þín er óvenjulétt þá geturu bara slæst í einum landasala sem reddar málinu fyrir þig á "nótæm". Bann á hinu og þessu virkar ekki. Þessi forræðishyggja sem geisar yfir hér á landi er einfaldlega ekki að virka. Við lifum ekki í kommúnistaríki þar sem lifnaðarháttum fólks er matað ofan í það og því skipað að gera hitt og þetta.

|

föstudagur, desember 06, 2002

Jafnrétti kynjanna

Stundum finnst mér eins og við lifum í barnalegum heimi. Einn þátturinn sem veldur því er umræðan um jafnrétti kynjanna.
Ef við lítum á kynin tvö sem byggja þessa jörð líkt og mengi sem liggja að einhverjum hluta inn í hvoru öðru, þá sjáum við að sá partur sem bæði mengin eiga sameiginlegt táknar þá hluti sem kynin eiga sameiginlegt, hvort sem það er líkamsbygging, hegðun, atferli eða skyldur.
Þær konur og/eða karlar sem skrifa pistla inn á femin.is, tikin.is og aðrar feministasíður, hafa aðeins eitt takmark: Að enginn munur sé gerður á körlum og konum(þ.e.a.s. að mengin 2 liggja fullkomlega inn í hvoru öðru), og að þeir sem vilji eitthvað annað séu karlrembur á hættulegu útþenslustigi.
Ef við lítum á fyrra takmarkið, sést það um leið að konur og karlar verða aldrei fullkomlega jöfn, jafnvel ekki í þeirri Útópíu sem feministar vilja skapa. Seinna takmarkið megið þið hugsa um sjálf.
Þessi jafnréttisumræða vill oft litast af því að konur séu hið undirokaða kyn, að það þurfi að gera skítverkin á heimilinu, fá lægri laun en karlmaður í sambærilegu starfi og þar fram eftir götunum. Það gleymist hins vegar að minna á það að karlarnir geti kannski líka verið ósáttir með eitthvað.
Almennt held ég þó að við séum ekkert svo óánægðir með hlutskipti okkar. Við verðum jú að sætta okkur við það að geta bara gert einn hlut í einu (til dæmis getur það orðið karlmönnum þung byrði að geta ekki migið og burstað tennurnar í einu), að geta ekki lært á þvottavél, og síðast en ekki síst að hafa aðeins 4-5000 orð í orðakvótanum okkar á dag. Það þýðir, að við klárum allt það sem við þurfum að segja og getum sagt í vinnunni á daginn, og svo komum við "orðlausir" heim til konunnar, þegar hún er aðeins rétt hálfnuð með sinn 10.000 orða kvóta. Þá þurfum við gjarnan að þola nöldrið í konunni "Æ, þú hlustar aldrei á mig!" og "Afhverju geturu aldrei svarað mér?!"

Þær geta ekki skilið fötlun okkar.

Konur vilja líka gera athugasemdir við ótrúlegustu hluti. Þær eru óánægðar með að þær fái ekki að eiga mótorhjól, horfa á enska boltann á sunnudögum öðruvísi en að vera að ryksuga um leið, nú eða að fá ekki að reka hraustlega við í góðra vina hópi. Varla erum við að svekkja okkur yfir að fá ekki að skipta á krakkanum eða að hengja upp jólaskrautið? Við þurfum bara að þola það að konan verður alltaf á undan okkur með það, um leið og sumarfríið er búið verður vart þverfótað fyrir jólaseríunum í gluggunum og englum og svoleiðis dóti víðsvegar um húsið vegna atorkusemi konunnar. Heimurinn(eða konurnar) verður einfaldlega að skilja að kynin 2 eiga sín verksvið, sín áhugamál og sínar skyldur. Það verður bara að vera á þeim lista yfir hluti sem hið barnalega mannkynið þarf að sætta sig við.

|

fimmtudagur, desember 05, 2002

Íslenskt mál

Margir virðast vera á móti orðum sem þröngva sér inn í vort ástkæra ylhýra mál. Ef þið hafið einhverntímann lesið hinn vikulega pistil “Íslenskt mál” í mogganum skiljið þið hvert ég er að fara. Sá eða sú sem sér um þann þátt nöldrar út í hin ótrúlegustu “útlensku” smáatriði sem engum hefði dottið í hug að væru á einhvern hátt af erlendu bergi brotnar. Enda skiptir engu máli þótt þeim verði útrýmt, fólk á ekki eftir að taka eftir því þegar það hefur einu sinni komist á bragðið með að nota það.

En, fyrst að margar af þessum slettum hafa fest rætur í íslenskunni, afhverju gætum við ekki boðið þær velkomnar í hópinn og komið þeim þannig fyrir að þær geti lifað áfram? Af hverju alla þessa baráttu?
Svo að við tökum nokkur dæmi sem hafa tekið sér bólfestu í íslensku beint frá hamborgaraenskunni, er til sögn nokkur sem nefnist að meika. Táningar á vorum dögum veigra sér ekki við að taka sér þetta orðskrípi í munn, vanalega með setningum á borð við: “Þéttur melur mar, hann meikaði feitan sens”, sem vilja gjarnan heyrast ef grannt er lagt við hlustir. (Sérstaklega má heyra málnauðgun á borð við þessa í ákveðinni menntastofnun sem ekki verður nefnd hér.)
Sagnir á borð við þessar taka sér þann eiginleika að vera veikar (Í kennimyndum beygt: Meika – meikaði – meikað).
Til þess að þetta orð verði þannig úr garði gert að það passi fullkomlega að dyntum, pallíettum og dinglumdangli málsins væri tilvalinn kostur að gera sögnina sterka. Þannig tryggjum við að hún lifi meðal vor um ókomna tíð og að kynslóðin sem vex núna úr grasi gruni ekkert annað en að hún hafi verið brúkuð af mönnum á borð við Gretti sterka og sjálfum Ingólfi Arnarsyni, og hafi lifað með þjóðinni í þúsund ár.

Þannig yrðu sagnirnar að meika og að feika, beygðar á sama hátt og rammíslenska sögnin að leika, og þannig gæti hún sést á prenti einhverntíman í framtíðinni: Meika – mék – mékum – meikið, og feika – fék – fékum – feikið. Þá gætum við heyrt hjá ákveðnum aldurshópum: “Þéttur melur mar, hann mék feitan sense.”, og “Hva’dda gera, þú fékst* hann illilega.” Einnig getum við baukað með sögnina að fíla, sem auðvelt er að breyta úr argasta táningasproki yfir í gullaldaríslensku.

Þess má einnig geta að hægt er að búa til afleiddar kennimyndir af þessum sögnum. Dæmi:

Meika – mék – mékum – meikið
| |
meikur méki

Og fyrst við erum komin út í þessa sálma, þá getum við einnig gert orsakasögn, sem væri þá veik sögn sem er þegar til í málinu:

Meika – mék – mékum – meikið
|
mauka – maukaði – maukað

Og sömuleiðis:
Fíla – feil – filum – filið
|
Feila – feilaði - feilað


Ég vona fyrir ykkar hönd að þið hafið einhvern tímann opnað bók í íslenskutíma í staðinn fyrir að sofa úr sér eftir svall helgarinnar. Ef til vill gæti ég næst farið nánar út í aðrar slettur sem hafa hreiðrað þægilega um sig og brjóta í bága við hvers kyns reglur og fallstýringu, en ég læt þetta nægja að sinni.

Góðar stundir.

*Athugasemd fyrir imba: Þessi setning þýðir ekki að einhver fékk einhvern, heldur að einhver fék einhvern. Með öðrum orðum, plataði hann upp úr skónum.

|

miðvikudagur, desember 04, 2002

Þegar ég opnaði annað augað fyrir ca. hálftíma, fann ég ekki aðeins kaldan raunveruleikann nísta í gegn, heldur einnig ógeðslegt lag.
Yfirvaldið á heimilinu hefur þann ósið að vilja stilla á bylgjuna, svona rétt í morgunsárið, og á þeirri stöð einmitt á þeim tíma þegar ég þarf nauðsynlega að koma mér í gang, má heyra "skemmtilegt og hressandi lag", eins og móðir mín komst svo skemmtilega að orði núna um daginn.

"Við bjóðum þér góðan daginn
og gangi þér allt í haginn!
Allt verður gott og gaman, í dag!"

Þessi texti einn og sér fær meira að segja hinn harðasta handrukkara til að líta undan. Bíðið bara þangað til þið heyrið lagið með þessu.

En ég er s.s. ekki sú týpa sem vill líta heiminn ójarðneskri bjartsýni kl. 7.30, og rifja upp fyrir mér hvern einasta dag hvað heimurinn sé jú yndislegur. Ég fæ minn dagskammt strax í morgunsárið með því að kippa útvarpinu úr sambandi.

---

Anar hlutur sem mig langar að benda á. Í morgunmat borðaði ég glæsilega máltíð, sem samanstóð af Cheeriosi með hunangsleðju á. Framleiðendurnir vilja víst kalla þetta Honey Nut Cheerios, en ég veit ekki hvort almenningur gleypi það hrátt.
Ég fór einmitt að velta mér þegar ég horfði á glaðværu fluguna á pakkanum (var búinn að fá nóg af "glaðværð" rétt áður) nafngiftinni á vörunni. Hvaðan í ósköpunum kemur orðið "Nut"? Eftir því sem ég best veit er þetta, eins og ég sagði áðan, Cheerios með leðju af sykri/hunangi á. Engar "hnetur", fyrir utan nokkra vel harða og svarta hringi neðst í pakkanum.
Ég komst að lokum að þeirri niðurstöðu að "Nut" í þessu samhengi væri á einhvern hátt í tengslum við sölubrellu, til þess að hala inn meiri pening. Hvað myndir þú gera ef þú stæðir með innkaupakerruna í annarri og "Honey Cheerios" í hinni? Kaupa Cocoa Puffs eða "Honey Cheerios"? Nafnið eitt fær mig til að gubba hunangsleðjunni strax aftur þaðan sem hún kom.
"Nut", á samkvæmt mínum skilningi, að tákna hlut karlmannsins í vörunni. Konurnar heillast af "honey" í nafninu, og kaupa vöruna þar af leiðandi frekar heldur en Cocoa Puffs, sem minnir þær á lambaspörðin í sveitinni þegar þær voru litlar. Karlarnir sjá "nut" í nafninu, og kippa pakkanum fimlega ofan í körfuna rétt áður en þeir þramma í barnahornið að ná í gríslinginn.
Eða hafið þið kannski ekki séð augýsinguna "Við erum karlmenn - við tippum"? Hvaða orð er þarna sem fær okkur karlana til að horfa með öðru auga upp úr mogganum á karl pissa í ruslafötu?

|

Þetta er allt að koma. Svona imbi eins og ég getur sætt sig ágætlega við þetta imbakerfi sem er á þessu :Þ

|

Halló, þetta er smá prufa?

|