.

sunnudagur, febrúar 16, 2003

Mamman: Kemur með poppkorn í skál og gos inn í stofuna: Jæja, mikið er hún Birgitta nú sæt. Doddi, finnst þér það ekki?
Pabbinn(Doddi): Ham, jú, er það ekki sú sem er í þarna, Fárviðri, nei, Íra-eitthvað?
Mamman: Írafár! Doddi minn, þú átt nú að vera inn hjá unga fólkinu í dag og vita hvað er svona það nýjasta.
Pabbinn:Já það er satt elskan. En, heyrðu, opnaðu nú sjónvarpið fyrir mig.
Mamman:Stendur upp og "opnar" sjónvarpið.
Gísli Marteinn: Veifar HA HA HA spjaldinu í sjöunda skiptið og segir enn einn gullmolann: Og næstir á dagskrá eru Botnleðja!
Pabbinn: Botnleðja, eru það ekki þessi pönkhljómsveit?
Mamman: Jú blessaðir vertu, ég held að þeir séu ekkert skemmtilegir. Ég var einmitt að heyra það að pönkið sé ekkert inn lengur í dag, það er nú bara rappið og blessaða poppið sem blívur á þessa ungu kynslóð í dag...
Pabbinn:Já, það var nú annað þegar maður var ungur. Þá dugðu nú bara sjómannavalsarnir til að maður færi og dansaði eins og vitlaus maður við allar stelpurnar fram eftir nóttu. Æj, gömlu góu dagarnir!
Mamman: Doddi minn, heyriru þessi ósköp í sjónvarpinu. Viltu lækka í þessari Botnleðju!
Pabbinn:teygir sig í fjarstýringuna, lækkar í sjónvarpinu og fær sér kókglas:Já það er merkilegt hvað þessi pönk-bóla lifir lengi. Ég var einmitt að heyra það að allir þessir náungar væri löngu komnir í dóp og vitleysu.
Mamman: Sko! Þarna kemur Írafár! Hækkaðu nú aftur Doddi minn!
Pabbinn: Hvað er þetta kona, ég var að lækka. Eigum við ekki bara að sleppa því og kjósa Birgittu fjórum sinnum, bara til þess að unga fólkið verði ánægt. Það verður ábyggilega vonsvikið yfir því að einhver pönkhljómsveit komist inn í þessa keppni, ætli það eyðileggi ekki öll þessi Eurovision-partý hjá þeim?
Mamman: Jú Doddi minn. Og meðan ég man, hringdu í hana Bíbí vinkonu og segðu henni að kjósa þessa Haukdal þarna. Ætli hún sé ekki ættuð að vestan?

|