.

sunnudagur, mars 30, 2003

Nú hafa um tvær vikur liðið frá því að músafárið gekk yfir vistarverur og afkima Þjóðarbókhlöðunnar. Magnús, sem hafði orðið hvað mest fyrir barðinu á músunum, var ekki ein af þeim persónum sem vildu hafa eitthvað fyrir stafni, hans rekistefna í lífinu var að smjúga í gegnum það eins mjúklega og kostur var. Þess vegna varð hann dauðfeginn að losna við mýsnar. Nemendur safnsins sem og starfsfólk gat séð hans bogna bak og signu herðar líða áfram eftir göngunum, annað hvort var hann eitthvað að dytta við beyglaða hurðarkarma eða sitja inni á kaffistofu þar sem hann fletti dagblaði þungbúinn á svip. ,,Þessi leiðtogar úti í heimi eru allir kolvitlausir,” heyrist hann segja, ,,það ætti nú bara að dæma þá til skóggangs rétt eins og gert var hér í gamla daga.” Hann tók alltaf nesti með sér í vinnuna í sama græna nestisboxinu sínu sem innihélt samloku með þykku lagi af mysingi og engu öðru. Og þegar starfsfólkið safnaðist saman til þess að njóta samræðna og kaffibolla inni í kaffistofunni gekk Magnús hokinn út úr litla herberginu til þess að fá að vera einn. Honum líkaði einveran.
Dag einn þegar Magnús gekk til vinnu í skammdegismyrkrinu opnaði hann glerdyrnar að húsinu eins og vanalega, kveikti ljósin og sinnti öllum þeim skyldustörfum sem hann þarf að gera. Með sömu eljusemi og natni og þegar geimflaugum er skotið á loft snýr hann lokanum og hleypir vatni á tjörnina sem umlykur húsið, kveikir á viftunni á í lestrarsalnum og hreinsar reglulega til í tilkynningatöflunni sem hangir við innganginn. Þegar hann hyggst sinna því smávæglega verki(sem engu að síður er þó nauðsynlegt) er farið að birta örlítið til. Og hvað sér hann! Einhver hefur sett stóran límmiða á glerhurðina sem hundruð fólks ganga gegnum á degi hverjum! Magnús lætur miðann sem hann heldur á í vinstri hendinni(fyrirsögnin er ,,Ísskáp vantar!”) lönd og leið og sömuleiðis teiknibóluna í hægri hendi. Hann skokkar eins hratt og hann getur niður stigann, framhjá litla gosbrunninum og út. Miðinn er með rauðum bakgrunni og svörtu letri sem hann getur ekki lesið. Magnús rýnir í textann á meðan hann norpir úti í kuldanum en gefst að lokum upp, þrammar upp á kaffistofu og nær í þykkustu gleraugun sín. Með þeim nær hann að stauta sig framúr textanum. ,,We love anarchy!”
Magnús þýtur(eins hratt og gömlu fæturnir hans megna) inn í kompu og nær í litla sköfu. Með sköfunni(og ærinni fyrirhöfn) skefur hann megnið af límmiðanum af glerinu. Það hefur ekkert upp á sig. Það eina sem hann nær að skafa af er nokkuð magn af gleri og ysta lagið af límmiðanum. Eftir situr dágóður slatti af pappír og lími á glerinu sem lítur bara enn sóðalegra út.
Krummi sest á þak hússins. Spókar sig í vetrarlogninu og krunkar. Magnús hættir að skafa, horfir á hann og dæsir við. ,,Æ, blessaður hrafninn. Það vildi ég að ég hefði fjaðrir og vængi eins og hann, þá þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur af neinu. En, hér sit ég, fastur á þessu kalda skeri og kemst hvorki lönd né leið.
Vilt þú skafa?!” öskrar hann til hrafnsins sem flýgur burt með fúlu gargi.
,,Hvað á ég eiginlega að gera?” hugsar Magnús þungur í bragði. Hann veltir málinu fyrir sér en gefst að lokum upp og fer að sinna einhverju öðru. Þessi heimskulegi límmiði má eiga sína daga í friði.

Ef ég vissi hvaða hugsanir bærðust innra með fólki sem krotar upphafsstafi á rafmagnskassa, spreyjar út veggi, límir stóra límmiða á götuskilti og ljósastaura, veltir almenningsbekkjum út í tjörnina nú eða brýtur glerflöskur á ólíklegustu stöðum, þá velktist ég ekki í vafa um hvað skemmdarvargurinn í þessari sögu hugðist gera. Ég hef því miður ekki þá þjóðfélagslegu stöðu til að upplýsa ykkur um það kæru lesendur og það hafði Magnús ekki heldur. Þegar hann mætti í vinnuna næsta dag í stillu skein sólin skært á 200 til 300 nýja límmiða af sömu gerð sem nú prýddu glerhurð og veggi Þjóðarbókhlöðunnar. Magnús stendur agndofa og starir á þessa einstöku vinnu sem þessi, að öllum líkindum, anarkisti hefur lagt á sig. ,,Hvers á ég eiginlega að gjalda??” flýgur í gegnum höfuð hans er hann þrammar upp stigann og á kaffistofuna.
Magnús veit hvað gera skal. Í Byko hringir hann og pantar eitt stykki háþrýstiloftdælu. Gripurinn kemst á staðinn fljótt og vel og með hjálp hans eyðir Magnús restinni af deginum í að ,,spúla” límmiðana af. Í bræði sinni skeytir hann engu um hversu mikið fer af límmiðanum, sem í þessu tilviki eru einungis stafirnir sjálfir og hluti af hvíta pappírnum. Límið fer ekki svo auðveldlega af glerinu en Magnús telur sér trú um að það hverfi á nokkrum dögum. En sú er ekki raunin. Þegar líður á daginn og sólin er um það bil að detta niður fyrir kirkjugarðinn gamla eru rúðurnar orðnar klístraðar af líminu.

Magnús situr heima hjá sér og horfir á veðurfréttirnar. Miklir þurrkar hafa verið á Suð-vesturhorni landsins og ekki komið dropi úr lofti í um það bil mánuð. Veðurstofan spáir moldroki um borgina og hvetur íbúa eindregið til að loka gluggum og, ef hægt er, setja bíla og önnur farartæki í bílskúrana.
Magnús dottar í stólnum. Hann er uppgefinn eftir daginn enda hefur loftdælan tekið á. Slekkur á sjónvarpinu og skríður upp í rúm. Brátt heyrast hrotur úr svefnherberginu.
Það er skýjaður og þungbúinn himinn sem tekur á móti Magnúsi þegar hann opnar útidyrahurðina. Þunnt moldarlag er á götunum, húsunum og alls staðar; Kári hefur afrekað mikið þessa nótt.
Gamla bíldruslan hans silast eftir Hringbrautinni. Þegar Magnús beygir inn á götuna sem liggur að Þjóðarbókhlöðunni mætir honum hryllileg sjón. Moldin hefur límst við allar rúðurnar og inngangurinn er orðinn brúnn, svo ekki sést inn!
Hann hleypur að dyrunum. Hleypur aftur að bílnum og nær í sköfuna. Skefur í ákefð sinni, skefur og skefur. Enginn árangur. Lítur í kringum sig, sér vatnslöngu. ,,Þetta fær Kári borgað!” hugsar hann og setur slönguna á hæsta styrk. Ekkert gerist. Moldin hefur klesst sig svo rækilega við rúðurnar að það er ekki nokkur leið að ná hinu smæsta sandkorni af!
Þegar yfirmaðurinn mætir í vinnuna blöskrar honum ástandið. Hann húðskammar Magnús fyrir að vanda sig ekki betur við að hreinsa límmiðana burtu og fylgjast með veðurfréttum. ,,Hver helduru að þurfi að borga þetta? Þú?! Ónei, ekki halda það. Að sjálfsögðu borga ég brúsann eins og venjulega. Þetta er svívirðing við svona háttvirta menntastofnun eins og Þjóðarbókhlaðan er!”
Skipta þarf um allar rúður við innganginn. Auk þess þarf að panta nýja tölvu þar sem Magnús skildi óvart einn gluggann eftir opinn og mold og drulla fauk inn í tölvuna, ofan á lyklaborðið og skemmdi hana gjörsamlega. Magnús horfir á eftir enn fleiri penngaseðlum fljúga í burtu um leið og glerskurðarmennirnir eru farnir. Líf hans er vonlaust. Af hverju getur hann aldrei gert neitt rétt? Þeir standa þarna tveir fyrir utan Þjóðarbókhlöðuna, hann og yfirmaðurinn og horfa á nýja glerið sem glampar í hádegissólinni.
Magnús ætlar að segja eitthvað við yfirmanninn. Skyndilega fer hann að svima og finnur undarlega tilfinningu í hálsinum sem leiðir upp í höfuðið. Hann dettur kylliflatur á harða gangstéttina.
Sjúkrahúsið er hvítt. Magnús verður að dvelja þar í nokkra mánuði í viðbót. Hann fékk heilablóðfall, sem betur fer var sjúkrabíllinn fljótur á staðinn því þetta var spurning um mínútu til eða frá. Það sem hann hefur meiri áhyggjur af er handleggurinn sem skaddaðist illa þegar hann lenti á gangstéttinni. Tími til kominn fyrir hann að hætta hjá þessari helvítis Þjóðarbókhlöðu og fara að njóta ævikvöldsins.
Magnús útskrifast með helauman handlegg og höfuðverk. Læknirinn ráðlagði honum að reyna mikið á handlegginn t.d. við málningar- eða sköfuvinnu. ,,Hafðu ekki áhyggjur af því karlskröggur,” hugsar Magnús í hljóði.
Heima er allt óbreytt. Magnúsi finnst innréttingin hjá honum vera ljót. Veggfóðrið, stofuteppið, lamparnir og jafnvel gluggakarmarnir. Hann ætlar að breyta þessu öllu. Eftir að hafa lifað einföldu lífi á húsvarðarlaununum skeytti Magnús litlu um ellilífeyrinn og geymdi hann í bankabók. Nú er tími til kominn að taka eitthvað út af henni og endurnýja þessa litlu, ömurlegu íbúð. Ummæli læknisins um ástand handleggsins skipta hann engu máli. Hann má bara éta þetta ofan í sig aftur!
Nú hófst mikið puð. Magnús stritaði og stritaði frá morgni til kvölds við að rífa upp teppin, mála herbergin, skipta um eldhúsinnréttingu og þar fram eftir götunum. Á meðan hann tekur svefnherbergið í gegn sefur hann í stofunni og á meðan eldhúsið fær sína útreið eldar hann á litlum prímus inn í stofu. Eftir margra mánaða puð getur hann litið stoltur yfir íbúðina sína og er feginn. Hún skartar glænýjum teppum, fallegum litum og nýtískulegum húsgögnum. Núna ætlar hann að halda upp á tímamótin. En, hvernig?
Ætli hann kíkji ekki bara í bæinn í kvöld, það hlýtur eitthvað um að vera sem gæti gert gömlum manni til geðs. Hann fer fram á gang og fer í gamla rúskinnsjakkann sem hann fékk í London 1956 og setur á sig sixpensarann sem keyptur var í Guðsteini Eyjólfssyni, guð má vita hvenær. Svo heldur hann út á lífið. Hann kann ekkert á næturlífið í Reykjavík og skreppur inn á næsta bar sem hann sér á Hverfisgötunni. Celtic Cross heitir hann. Mannlífið þýtur áfram þar inni og gutlar til og frá eins og vatn í fötu. Reykjarfýlan kitlar hann í nefið. Borð eru hægra megin, ferningslaga með alls konar dóti, fullt af tómum drykkjarglösum standa á þeim og við þessi borð situr fólkið. Það er mest allt ungt, stöku sinnum slæðist með í hópinn eldri maður á borð við Magnús en þarna eru líka ferðamenn af alls konar þjóðernum. Hann lítur til vinstri á barborðið. Bak við þetta stóra, langa borð úir og grúir af hvers kyns vínflöskum og við borðið situr alls konar fólk. Hann undrast á því hversu mannlífið getur verið fjölbreytt á litlum stað sem þessum. Magnús sest hæverkslega við lítið borð úti í horni og horfir út um gluggann.

Hann finnur það koma. Snöggur þrýstingur á höfuðið og einhver vökvi seytlar meðfram hauskúpunni og niður í háls. Allt í kringum hann snýst til og hristist og hann fellur niður í sætið og finnur ekkert meir. Fólkið byrjar að undrast á gamla manninum sem liggur þarna í stólnum. Varla getur hann verið áfengisdauður því engar vínflöskur eða bjórglös eru fyrir framan hann. Læknir sem þarna er viðstaddur hleypur til og athugar púlsinn. Daufur sláttur leynist í hálsinum. Magnúsi sortnar fyrir augum og síðasta hugsun hans er ,,jæja, þá er ég dauður...”

Skömmu síðar hleypur skuggi hans út af barnum, yfir götuna og stígur til himins.

|

þriðjudagur, mars 04, 2003

Magnús er húsvörður Þjóðarbókhlöðunnar. Hann fer í vinnuna klukkan hálfátta og er fyrsti maðurinn sem mætir í Þjóðarbókhlöðuna hvern dag, en hún opnar klukkan níu. Það sem hann þarf að gera áður en fróðleiksfús ungmenni mega ganga þar um, er m.a. að hleypa vatni á litlu tjörnina sem umlykur húsið, kveikja ljósin sem lýsa það upp, hita kaffi o.s.frv. Yfirleitt er vel gengið um húsið og allt hreint og snyrtilegt, en núna hefur einhver tætt upp agnarsmáa bita úr gólfteppinu einmitt á innganginum þar sem hvað mestur umgangur er. Þórður lýtur niður til að skoða verksummerkin betur. Það er rétt eins og einhver skemmdarvargur hafi komið með hníf og skafið duglega af teppinu. ,,Þetta þarf að laga eins og skot,” hugsar hann.
Þegar hann kemur inn í fornbókadeildina bregður honum við. Þarna er u.þ.b. fjórum sinnum stærra svæði sem hefur flagnað af á teppinu! En, þótt undarlegt megi virðast, er steypan sem var undir því fullkomlega óskemmd, sem þýðir það að skemmdarvargurinn hefur vandað sig við verkið, sama hver tilgangurinn með því er. ,,Æ, þessi bölvuðu ungmenni sem geta ekki látið neitt í friði. Hvar endar þetta?” dæsir Magnús við. Hann sér annan bút úr teppinu sem búið er að skafa af. Nákvæmlega eins og gert var á hinum stöðunum.
Hann drattast inn á kaffistofu til að vakna betur með hjálp kaffibolla og rannsaka þetta mál nánar. Á leið sinni um húsið sér hann æ fleiri steypubletti, og er hætt að lítast á blikuna þegar hann sér hvað búið er að skafa langa rönd meðfram veggnum. ,,Þetta þarf nákvæmni til að gera,” hugsar Magnús um leið og hann hlammar sér niður á litla stólinn í kaffistofunni. Hann sér nokkra bletti hér og þar í kaffistofunni og þegar hann stendur upp og opnar skápinn til að fá sér sykur út í kaffið sér hann að það er búið að naga gat á sykurpokann og... litlir svartir kögglar út um allt!
Magnús hrekkur frá skápnum. Hann hefur aldrei verið hræddur við mýs, en í þessu tilfelli er eins og þær sitji um fyrir honum, liggi í leyni við hvert fótmál til þess eins að hrekkja hann. Veiðieðlið kemur upp í honum og hann ákveður strax að hann skal útrýma þessum músum sama hvað tautar og raular. En, hvað á hann að gera fyrst?
Í óðagoti sínu hringir hann í yfirmenn sína og tjáir þeim vandamálið. Að því loknu þrammar hann þungbúinn á svip að dyrunum og læsir þeim aftur. ,,Þjóðarbókhlaðan verður lokuð í dag vegna óviðráðanlegra aðstæðna,” má lesa á stórum miða við innganginn.
Magnús veit þrátt fyrir að hafa horft á margar teiknimyndir að mýs eru eftir allt saman ekki svo sólgnar í ost, þær halda sig heldur ekki í holum þar sem opið liggur í fullkomnum egglaga hálfhring svo músin eigi greiða leið inn. Veggirnir í Þjóðarbókhlöðunni eru úr steypu svo teiknimyndakenningin kemur ekki til greina, en bókaskáparnir eru aftur á móti úr viði. Eftir því sem Magnús man best er stallurinn sem þeir standa á með holrými. Hann fer strax að leita. Í kring um hvern einasta bókaskáp í öllu húsinu tiplar hann á tánum, tilbúinn til að stökkva á holuna þegar hann sér hana með Tarsan-öskri og þurrka þessar viðbjóðslegu mýs út af yfirborði jarðar áður en þær vita af. Leitin ber engan árangur. Magnús gerir eins og sannur veiðiköttur myndi gera, fer aftur inn á kaffistofuna og hugsar sig um. Hugsar um alla þá staði sem þessar litlu lífverur gætu haldið sig á. Efsta hæðin? Nei, það passar einhvern veginn ekki. Miðhæðin(sem kaffistofan liggur á)? Alls ekki, búinn að leita og það er enginn staður þar sem mýs gætu haldið sig. En, kjallarinn? Já, það hlýtur að vera kjallarinn!
Þórður grípur vasaljós sem hangir á ryðguðum nagla inni í kompu og rýkur niður í kjallarann. Hann er minni en hinar hæðirnar, og er notaður fyrir alls konar dót sem enginn veit hvað á að gera við. Allt er á rúi og stúi en innan um draslið kemur Magnús auga á músaskítinn aftur. Hann rennur á lyktina og loks finnur hann sérstaklega mikið af músaskít fyrir framan gamla harmoniku(sem inniheldur litla holu) sem einhver hefur skilið eftir og vonast til að einhver fengi not fyrir hana í framtíðinni. Ef hann vissi hverjir fundu tilgang fyrir hana!
Magnús er efins. Ætti hann að taka harmonikuna í burtu eða láta hana vera og finna önnur ráð til að útrýma músunum? Enginn meindýraeyðir skyldi koma nálægt þessu, hann ætlar sko að sjá um þetta sjálfur!
Magnús stekkur út í næstu búð og kaupir músaeitur. Hann stráir duglegum skammti fyrir framan harmonikuna, hleypur síðan aftur upp í kaffistofu og nær í matskeið. Með henni matar hann litlu holuna á harmonikunni. ,,Þær skulu sko fá fyrir ferðina!” flýgur í gegnum hausinn á Magnúsi um leið og hann mokar duglegum skammti inn. Á pakkanum stendur að eftir að músaeitri hefur verið notað skuli staðurinn láta óhreyfur í u.þ.b. viku svo að eitrið geti haft sín áhrif.

Magnús stekkur aftur út í Byko til að kaupa nýtt teppi. Það var hvort eð er orðið gamalt og slitið og notar vikuna sem eitrið á að virka til þess að skipta um teppi. Brátt skartar gólfið bláu glæsilegu teppi, og Magnús liggur ekki í vafa um að þetta eigi eftir að gera staðinn heimilislegri. Reyndar er nokkur fýla í húsinu þessa viku sem teppalagningin fór fram, en Magnús hefur ekki áhyggjur. ,,Þetta er ábyggilega bara límið undir teppinu, lyktin fer um leið og það nær að þorna til fulls” hugsar hann er hann situr á litla stólnum inni í kaffistofunni og flettir dagblaði.
Lyktin magnast eftir að safnið var opnað aftur. Fólk virðist vera almennt ánægt með breytinguna, en þó hafa sumir á orði hvað það sé hálfgerð ólykt í húsinu. Magnús lætur það sem vind um eyru þjóta og hugsar helst um hvenær hann getur farið að skoða harmonikuna og mýsnar sem ættu að vera dauðar næsta dag.
Næsta morgun mætir Magnús klukkan kortér yfir sjö. Hann rétt gefur sér tíma til þess að kveikja á rofunum sem hleypa vatni í tjörnina, og fer svo í austurálmuna þar sem stiginn liggur niður í kjallarann. Fýlan hefur stigmagnast síðan í gær, og er sérstaklega sterk því neðar sem dregur í stiganum. Þegar hann stígur í neðsta þrepið, lenda fætur hans ekki á mjúka teppinu heldur á hörðum fleti. Magnúsi bregður við um leið og hann lítur niður fyrir tærnar á sér og sér hvar steypublettirnir eru komnir aftur!
Fýlan er orðin ógeðsleg því innar sem Magnús leitar í kjallarann og hann fer að velta því fyrir sér hvort efnin í lyktinni leiti niður á við. Hann klofar yfir gamla hurð sem liggur í ráðaleysi á gólfinu, tiplar meðfram listaverkum sem guð má vita hver málaði, og að lokum kemst hann að harmonikkunni. Hann heldur fyrir nefið, fýlan er orðin það sterk, og beygir sig niður til að gæta að hvort mýsnar séu þarna enn þá. Ekkert gerist. Hann potar í harmonikuna af einhverri eðlisávísun, og finnur að það er eitthvað inni í belginum. ,,Þetta þýðir ekki, ég þarf að gera eitthvað róttækt við hana,” hugsar Magnús og slengir harmonikunni upp á myglaðan sófa sem liggur á hvolfi.
Um leið sér hann blá-gráleitan vökva sullast út úr harmonikunni, yfir handlegginn á honum, inn á fötin hans og rennbleytir skóna. Hann rennur til á vökvanum og steypist aftur fyrir sig og harmonikan fylgir á eftir. Hann finnur hvernig þessi ógeðslegi vöki rennur niður eftir maganum, ofan í buxurnar og...

,,Það voru engar mýs í harmonikunni. Það hefði hvort eð er ekki verið neitt pláss fyrir þær. Þegar ég setti eitrið inn í harmonikuna hefur það lent í einhverjum ógeðslegum, eldgömlum vökva sem hefur ábyggilega safnast saman í stórrigningum. Ha, hef ég ekki sagt þér frá því að kjallarinn lekur stundum þegar það gerir úrhelli? Jæja, þú veist það þá núna. En, semsagt, þegar eitrið hefur lent í vatninu þá hefur það bólgnað út og valdið svo miklum þrýstingi á belginn að hann hefur sprungið þegar ég lyfti honum.”
Mýsnar höfðu notað harmonikuna fyrir vatnsból. Auðvitað þurfa þær líka að drekka eins og allar lífverur. Magnús þurfti að setja öll fötin sín í hreinsun, en það náðist ekkert úr þeim. Eitrið síaðist inn í þau og ónýttu hvern einasta þráð.
Magnús tekur um sárabindið á enninu um leið og hann klemmir tólið við öxlina á sér. Ennið var enn þá aumt. Hann situr á litla stólnum í kaffistofunni og horfir á myndirnar á veggnum um leið og hann ræðir við yfirmanninn í símann.
,,En, hvaðan komu mýsnar? Vatnsmýrinni? Já, það getur alveg verið, ég meina, hver veit hvaða ógeð felur sig þarna á þessum skítastað.”
,,Já, er þetta meindýraþjónustan? Ég þarf að fá ykkur hingað. Þjóðarbókhlaðan. Það eru mýs út um allt hjá mér, þær skíta í kjallarann, naga upp teppin, ég er að verða brjálaður á yfirgangseminni í þeim! Komið strax, þetta er alvarlegt tilfelli.”
Mýsnar hverfa með hjálp fagmannanna. Um leið og hann sér meindýraeyðana einnig hverfa út um dyrnar, sér hann peningapokana fljúga sitt oddaflug um leið og dyrnar lokast.
Magnús snýr við, heldur af stað upp á kaffistofuna og sest á stólinn. Úti er sólskin og logn.

|