.

fimmtudagur, apríl 17, 2003

1. kafli

Ég ligg í rúminu mínu, þunn eins og venjulega á laugardags- og sunnudagsmorgum, og horfi út um gluggann. Sé óhreina bletti á körmunum, þunnt ryklag á kistunni og tek eftir því að ég þarf að mála hann. Glugginn minn er eins og sjónvarpsskjár þar sem ég sit og horfi á lífið. Ég er aðeins hjálparvana neytandi sem geri lítið annað en að sinna sínum eigin skyndiþörfum, allt hitt er tóm blekking. Ég reisi mig upp við dogg. Eini gallinn við þetta annars fullkomna sjónvarp, er að það vantar fjarstýringu. En, ég hefði hvort eð er engin not fyrir hana, enda aðeins ein stöð, ríkisstöð herra Guðs. Hann er bæði framleiðandi, þáttagerðarstjórnandi, eigandi gervallrar sjónvarpsstöðvarinnar sem og smiður leikmyndarinnar og tæknimaður.
Ég sný mér frá sjónvarpinu, staulast á fætur og af einhverri eðlisávísun held ég í átt að ísskápnum. Veiðiferðin ber sinn árangur, skyndibiti sem ég á ávallt til taks verður fyrir valinu.

Ég reyni að rifja upp allt það sem ég myndi ekki vilja muna frá kvöldinu áður. Smám saman dúkka upp á yfirborðið myndskeið úr mínu einkabíói frá skemmtistaðnum sem hverfa jafnóðum svipað og loftbóla þegar hún skýst upp á yfirborðið. Ég hringi í Valla í örvæntingarfullri tilraun til að láta hann hneykslast með mér á byttuskapnum í okkur.

,,Uhm...halló þetta er Valli. Þúst, ég tjékka aldrei á þessu...talhólfi þannig að ekkert vera að tala inn á það. --- Lestu inn skilaboðið eftir að hljóðmerkið heyrist.”

Áður en pípið kemur legg ég á. Valli er ein af þeim persónum sem hafa ekki nógu sterkan vilja til þess að laga sig að nútíma lífsþægindum; uppfinningar á borð við farsímann og tannburstann eiga ekki sérlega vel við hans lífsstíl. Ég fer að hugsa um allt fólkið sem býr enn þá út á landi, fólkið sem, öfugt við mig, hefur ekki enn þá fengið nóg af öllum þeim vanköntum sem fylgir því að búa ekki á Suð-Vesturhorni Íslands. Hugsa sér, þarna úti í rassgati nær það að festa rætur með ekkert annað en atvinnuna sína og vídeóleigu til þess að halda andlegri geðheilsu sinni. Þvílík aðlögunarhæfni sem Homo Sapiens hefur!
Valla yrði hvort eð er alveg sama þótt að ég færi að grínast í honum yfir því hversu mikið ég drakk síðasta kvöld.

Þannig heldur líf mitt áfram. Vinnan mín er prýðileg, ég bjóst ekki við því að fá starf sem þýðandi við Andrésblöð. Ætli það hafi ekki komið til vegna þess hversu góð íslenska var töluð á sveitabænum þar sem ég bjó þegar ég var yngri. Það eina sem ég þyrfti að laga hjá mér er stafsetningin og það hvað ég get teygt lopann mikið, á Seljabraut 10 þar sem ég vinn er það kostur að hafa knappan stíl.

Valli bankar á dyrnar. Dyrabjallan mín er enn þá í ólagi, samt er komin heil vika síðan hún datt af í partýinu hjá mér síðustu helgi. En mér er alveg sama. Er nokkur ástæða til þess að pirra sig yfir ómerkilegum smáhlutum? Ef þú miðar það við hversu miklu það á eftir að breyta lífi þínu er í rauninni alger vitleysa að hugsa um dyrabjöllur. Þegar ég ligg á dánarbeðinu og hugsa um allt það sem ég hef áorkað í lífinu á ég ekki eftir að segja ,,Æ, bara ef ég hefði nú eytt meiri tíma á skrifstofunni.”
Vá, þetta var skemmtileg pæling. Ég stoppa aðeins til að velta henni betur fyrir mér. Valli sér mig í gegnum glerið og bankar aftur, aðeins ákveðnara. Ég ranka við mér og geng hægt í átt að dyrunum. Valli þýtur inn í hitann eins og stormsveipur og ég finn hversu ótrúlega kalt það er úti. ,,Shitt hvað það er kalt úti maður!” er það eina sem hann segir. Miðað við klæðaburðinn hans, risastóru úlpuna hans og þykku húfuna dytti mér ekki í hug að nokkrum manni yrði kalt jafnvel úti í svona gaddi.
Ég tjái Valla þessar lífspælingar mínar um nauðsyn þess að sleppa því að laga dyrabjölluna. Það eina sem hann gerir er að hrista höfuðið og svara snubbótt: ,,Þú ert rugluð, ég hef alltaf sagt það.”
Það fer óðum að skyggja úti. Við leggjum af stað niður í bæ. Njótum þeirra forréttinda sem fylgir því að vera í göngufæri við helstu skemmtistaði landsins. Enda er eitthvað við miðbæinn sem sveipar hann einstakri tilfinningu sem ytri bæjarfélögin ná ekki. Gaukur á Stöng er að vísu ekki staður sem við sækjum stíft, en í kvöld langar okkur að prófa eitthvað nýtt.
Okkur er alveg sama þótt fólk haldi að við Valli séum kærustupar, manngerðir okkar beggja eru þeirrar gerðar að vinir okkar verða að sálufélögum. Okkur finnst bara gott að vera svona náin. Að vísu getur það valdið misskilningi þegar ég fer að reyna við einhverja karlmenn á skemmtistöðum, en aldrei hefur það verið neitt stærri vandamál en svo að útkoman verði ekki góð.

Um leið og dyraverðirnir hverfa mér sjónum, fyllast öll skilningarvit mín. Snertiskynið hefur nóg að gera við að rekast á fólk, augun blindast næstum af sterkum ljóskösturum, bragðið af bjórnum sem ég drakk áður en ég fór inn situr enn þá í tungunni, og um leið og nefið fyllist af tóbaksreyk fer tónlistin aftur á fullt. Svipbrigðin sem maður fær við að stíga inn á skemmtistað eru svipuð og skynjanirnar sem fangi verður fyrir þegar honum er hleypt út í frelsið. Ég rekst utan í manneskju sem ég kannast við, það er Unnur. Hún hefur nýlokið háskólanum og er greinilega að fagna próflokunum. Hún hefur fengið sér dálítið mikið og hún ásamt nokkrum vinum sínum byrja að gera grín að vinnunni minni. Ég reyni að halda töffaraveggnum sem ríkir á milli okkar og geri óspart grín að sjálfri mér.
Eftir því sem drykkjunum fjölgar líður mér verr og verr að halda áfram hvítu lygunum.

,,Jæja Halldóra beibí, þú heldur þig enn þá í heimsbókmenntunum!”
,,Jú jú, maður er jú vel lesinn! En hvernig gekk þér í prófunum?”
,,Ha, hvað segiru?”
,,Ég spurði hvernig þér gekk í prófunum!!”
,,Já hahaha það. Afsakaðu ég heyri svo illa!”
,,Ja, það gerir nú aðallega tónlistin hérna inni, þeir mættu lækka hana aðeins! En hvernig urðu einkunnirnar hjá þér?!”
,,Ég féll í læknaáfanganum. Í annað skiptið. Býst bara við því að finna mér einhverja láglaunavinnu, maður nennir þessu ekki lengur!”

Eitt af því sem ég hata við mannleg samskipti, það eru persónur sem maður getur aldrei átt hærri samræður við en svo að það fjalli um einhver innantóm málefni eins og veðrið, klukkuna eða skólann. Ég kysi frekar að tala um heimsbókmenntirnar, siðfræði eða eitthvað annað jafn háfleygt. Þess vegna flý ég að barnum, panta drykk og skelli honum í mig. Ég hef stundum haft áhyggjur af drykkjuhneigð minni en í kvöld hef ég ákveðið að vera svolítið góð við sjálfa mig.
Ég litast um. Reyni að láta líta svo út eins og ég sitji ekki eins míns liðs við barborðið. Brátt kem ég auga á Siggu sem er í hrókasamræðum við einhvern náunga. Ætti ég að rölta til þeirra og taka þátt í samræðunum? Mig dauðlangar en það er eitthvað sem togar í mig að vera kyrr. Sigga hefur átt í erfiðleikum síðan slitnaði upp úr með henni og Valla. Þess vegna mætti segja að Valli hafi flúið yfir til mín, en Sigga átt svolítið bágt á meðan hún átti í sem mestri ástarsorg. Ætli hún sé búin að jafna sig og sé tilbúin til að finna sér annan? Mér finnst þó eins og hennar örlög séu að búa ein, ég hef einhvern veginn alltaf verið á móti því að Sigga finni sér maka. En jæja, látum hana bara hafa það eins og hún vill. Ég panta mér annan stærri drykk, og finn hvernig ég hitna öll að innan.

Nokkrum drykkjum seinna er ég orðin nokkuð glöð, ég mæti ljúfum augnaráðum frá nokkrum drengjum sem sjá mig sitjandi í nokkuð opinni stellingu við borðið. Ég lít yfir til Siggu enn á ný, og sé að þau tvö eru orðin nokkuð náin hvort við annað. ,,Andskotinn, ég má ekki láta þetta gerast!” hrópa ég upp, og stend galsalega á fætur og storma yfir til þeirra. “Sæll vertu vinur, Halldóra heiti ég og er vinkona hennar Siggu. Gleður mig að kynnast þér!”
Ég þríf í hrjúfa hendina á honum og kreisti eins og um líf mitt væri að tefla. Siggu bregður nokkuð við að sjá þessa innrás mína yfir til þeirra, og reynir að draga athyglina frá honum. “Elskan mín stilltu þig, endilega tylltu þér vinan, sjáðu þetta er Gunnar. Hann er lögfræðingur og þýðandi.”
,,Þýðandi?!” hrópa ég samstundis upp yfir mig. Fólk í allt að þriggja metra radíus snýr sér samstudis við, og ég finn þrátt fyrir ástand mitt fyrir að kannski ætti ég að láta fara aðeins minna fyrir mér. ,,Þýðandi segiru? Já, svo skemmtilega vill til að það er ég líka,” segi ég aðeins lægra. ,,Þjónn, tvöfaldan martini dry fyrir mig, og annan eins handa þessum herramanni og þýðanda!” segi ég við barþjóninn. Nú er ég orðin nokkuð drukkin og mér gengur erfiðlega að finna sæti nálægt Gunnari. Eftir að hafa gert sáttasamning við fyllibyttu sem situr við hliðina á Gunnari og gefið honum martininn minn, á ég í hrókasamræðum við Gunnar um breytingarnar í þýðendaheiminum og siðfræði hjá útgefendum. Allt í einu kemur Valli að mér.
,,Halldóra vinan, ættum við ekki að fara að renna heim á leið?” segir hann með áhyggjutóni, og gýtur augunum varfærnislega til Gunnars. Greinilega finnst honum hann aðeins of myndarlegur svo ég geti farið að tala við hann í þessu ástandi. Eftir langar og mis-innihaldsríkar viðræður við mig tekst Valla að koma mér nöldrandi heim.

Á röltinu upp að Óðinsgötu syng ég hástöfum ,,Er það minn eða þinn sjóhattur?”
Áður en mér tekst að klára viðlagið með hinum glæsilega söng mínum dreg ég að mér athygli tveggja lögregluþjóna sem hafa nýlokið við að dreifa partýi á Sjafnargötunni. ,,Jæja ungfrú mín góð, hvað höfum við hér? Er það hefðardaman af leið frá dansleiknum?” Þessi lögregluþjónn hefur greinilega smekk fyrir kaldhæðni og ég ákveð að svara í sömu mynt: ,,Nei! Herra barón, eruð þér komnir aftur? Er það kannski glerskórinn sem ég skildi eftir þegar klukkan sló tólf?!”

Valli reynir að þagga niður í mér en ég er komin í stuð og þarf að hella mér frekar yfir þá “Já já, handtakið mig bara! Að leyfa sér að ráðast svona á minnimáttar úti á götu þegar allt er orðið dimmt, það lýsir best ykkar hugarfari! Svei!” Ég hræki á skó hins lögregluþjónsins; þeir líta forviða á hvorn annan. ,,Heyrðu vinan, hafðu þig hæga,” segir annar þeirra með ströngum tóni,”eða þú-veist-hvað.”
“Nei það veit ég sko ekkert um! Látið mig bara vera!” segi ég og dangla í öxlina á öðrum þeirra. “Jæja góða, þú ættir kannski að kíkja með okkur niður á stöð,” segir sá sem fékk hrákann á skóinn sinn. Þeir blikka til Valla og annar þeirra segir í hálfum hljóðum við hann ,,Okkur þykir leitt þetta með kærustuna, svona gerist. Við skulum bara sleppa þér í skýrslunni.”

2. kafli

Fyrir framan mig: Hvítur veggur með ljósi í miðjunni.
Fyrir ofan mig: Annar hvítur veggur sem nuddast óþægilega við höfuðið á mér.
Fyrir aftan mig: Látlaust rúm með einfaldri dýnu sem mætti vera þykkari.
Fyrir neðan mig: Tærnar, eins og alltaf, auk annars hvíts veggs með ljósrofa á.
Vinstra megin: Veggur, ekkert annað en hvítur nýmálaður veggur.
Hægra megin: Ég sný höfðinu aðeins til hægri, og það sem blasir við mér eru rammlæstar dyr, vaskur, klósett, lítill kollur sem er skrúfaður við gólfið auk skrifborðs, einnig skrúfað fast við gólfið. Það eina sem gleður augað í þessum fangaklefa er marglit motta sem sómir sér skringilega á hvítu gólfinu eins og regnbogi fyrir neðan ský. Ég er stödd í einangrunarklefa Lögreglu Reykjavíkur. Furðulegt, að ég, saklausa sveitastúlkan ætti eftir að eyða nótt hér í þessu ræsi kerfisins. Hvað ætli mamma og pabbi segðu ef þau sæu mig hérna? Mamma byrjaði að kvarta yfir því hversu skítugt teppið er sem liggur ofan á mér, en pabbi færi að spekúlera í innréttingunni og hvernig þetta litla rými er nýtt. Foreldrar mínir eru alltaf eins, svo upptekin af gagnslausum hlutum.

Ég móki áfram með slökkt ljósið og höfuðverk og ranka fyrst við mér þegar hurðin er opnuð og inn stíga tveir lögregluþjónar. Án þess að segja neitt stend ég upp og þeir taka mig út úr klefanum. Síðan er tekin af mér skýrsla og svo er mér hleypt út í dagsljósið. Einfalt, snöggt og kalt.
Kaldari er þó dagurinn sem faðmar mig með sínum grámuggulega blæ. Snjórinn er farinn eftir þíðuna sem gerir veruleikann enn þá hversdagslegri. Núna veit ég loksins fyrir víst hvernig fanga líður þegar honum er hleypt út, og það er tilfinning sem ég vil vonandi ekki fá aftur.
En öfugt við langflesta hina sem ganga niður þessar tröppur eftir að hafa gist í einhverjum af þessum fangaklefum þá hef ég eitthvert heimili til að stefna á. Lykillinn rennur inn í skrána, ég lít enn einu sinni á farið eftir dyrabjölluna þar sem hún stóð. Ég heyri símann hringja um leið og ég opna dyrnar, og hleyp inn í stofu til að svara. Það er Valli.

,,Já, þetta fer á sakaskrá. Að sjálfsögðu. Ég meina, helduru að ég viti það ekki? Já...já...nei var klukkan ekki orðin þrjú? Ha...já...?”
--
“Já ókei ég geri það. Jábless.”
Íbúðin mín er í hræðilegu ástandi. Andskotinn, ég þarf að fá mér uppþvottavél, þetta gengur ekki. Að eyða hálftíma á dag í að vaska upp er bara eintóm vitleysa. Samt...þá er það á hinn bóginn vitleysa að vera að eyða miklum pening í svoleiðis tæki, sérstaklega þegar maður er fátækur djammari sem á erfitt uppdráttar. Ég hringi í vinnuveitandann og bið um frí næsta dag. Það er meira en nóg af áhyggjum sem hvíla á herðum mínum þessa stundina til þess að ég geti farið að draga enn einn djöful í viðbót.
Mig langar að hringja í fjölskylduna. En ég geri það ekki. Eitthvað togar mig frá því. Aftur á móti sest ég með glöðu geði í sófann og hugsa. Hugsa um fjölskyldu mína. Hún hefur ekki verið ofarlega á vinalistanum eftir að ég flutti að heiman án samþykkis þeirra. Reyndar var pabbi mildari við mig þegar ég tók þá ákvörðun heldur en mamma. Mér þykir svo vænt um pabba, ég erfði svo margt frá honum sem ég get ekki þakkað nógsamlega fyrir. Hann var svo frjór og tjáningarglaður í öllu sem hann gerði, hvort sem það var að vökva blómin eða mála mynd. En eftir að hann giftist mömmu breyttust hlutirnir. Hún reyndi alltaf að toga hann niður, lægja öldurnar sem einkenndu persónuleika hans og fá hann bara til að lifa “eðlilegu” lífi á hennar mælikvarða. Raka sig. Á sunnudögum var steik, á mánudögum fiskur. Þegar ég var lítil þótti mér fiskur alltaf vondur, kannski aðallega vegna þess að oftast var það mamma sem stakk upp á að hafa fisk í matinn.

Ég man eftir því þegar ég og litli bróðir minn lékum okkur út um allan bæinn, inn á milli gömlu fallegu húsanna sem höfðu sínar lágreistu hvítu trégirðingar og rauðu tréþökin sem bróður mínum fannst alltaf svo ljót. Ég man eftir fjallinu sem litlu húsin kúrðu upp að eins og hræddar mýs, eftir steinunum sem lágu í brekkunni og upp við veginn líkt og þeir væru að bíða eftir áætlunarbílnum sem aldrei stoppaði fyrir þeim. Ég man eftir stóru fallegu pollunum sem mynduðust á haustin, en aldrei man ég þau skipti sem ég kom rennandi blaut heim eftir að hafa verið allan daginn í bátaleik í þeim. Eftir öllum glæsilegu höllunum sem við byggðum úr þéttvöxnum rifsberjarunnum á sumrin og snjóhúsum á veturna. Minningarnar úr sveitinni skera hjarta mitt eins og hnífur, og í fyrsta skipti óska ég þess að vera komin þangað aftur.
Herbergið hringsnýst. Mig langar að flýja frá veruleikanum, þessum smáa heimi sem ég hringsnýst í. Allt í einu finnst mér líf mitt svo tilgangslaust, allt sem ég hef gert finnst mér vera svo lítið og mig langar að byrja upp á nýtt. Flýja, það er orðið! Flýja eins og dýr frá blóðþyrstu spendýri. Eðlisávísunum vaknar upp, sömuleiðis ég. Eins og elding þýt ég inn í herbergi og pakka niður öllum fötunum mínum. Hringi í mömmu og pabba og segi þeim að ég sé að fara. Auðvitað verða þau enn þá ruglaðri en áður, og spyrja aftur og aftur af hverju. Ég þarf ekki að svara, mér er alveg sama. Hringi í Valla og segi honum eins hratt og ég get að ég sé að fara til útlanda. Mér finnst ég megi engan tíma missa. Hvaða vitleysa er þetta sem er komin yfir mig? Af hverju langar mig til að fara svona snöggt? Væri ekki nær að kveðja borgina mína, mömmu og pabba á bænum, Valla og alla vinina? Halda lokakveðju-partý þar sem ég býð öllum sem ég þekki og þekki ekki? Njóta Íslands eins og það myndi hverfa á morgun?
Nei, það tæki of langan tíma. Opna textavarpið og sé hvenær næsta flug fer til…Svíþjóðar?

3. kafli
Leigubíllinn út á flugvöll kostar 3500kr. Allt of dýrt, en auðvitað er mér sama.
Leigubílstjórinn hefur þykkar augnabrýr og passaði betur í bóndahlutverkið en að eyða öllum sínum vinnudögum á malbiki. Hann er ábyggilega nýskriðinn yfir sextugsaldurinn, krangalegir handleggirnir halda þétt um stýrið eins og sautján ára unglingur í ökuprófinu. Þakkar mér hæversklega fyrir og keyrir hægt af stað.
Morgunsólin geislast á veginum og lítið ský sést trítla uppi á himninum sem er ábyggilega jafn nývaknaður og ég. Inn um rennihurðina á Leifsstöð fer ég og sömu leið rúllar ferðataskan mín stór og þung. Ég ákvað að koma reglu á hið nýja líf mitt og hafa allt mitt dót í einni tösku svo ég færi nú ekki að týna einhverju. Þess vegna varð ég að skammta hafurtaskið sem er öllum hollt, en í mínu tilviki neyðist ég til að segja að forgangsröðunin hafi ekki tekist alveg nógu vel. Mér er sama. Ég hef ákveðið að pirra mig ekki yfir einskisverðum hlutum eins og hvort ég ætti að kreista tannkremstúpuna neðst eða loka klósettsetunni.

Ég hef lesið um svona sögur, þar sem sögupersónan flýr undan kærastanum sínum, fjölskyldu sinni, löggunni eða hverju sem er og ferðast til útlanda. Í þessum bókum er sagt frá með tilþrifum hvernig persónan missir næstum af flugvélinni vegna áhrifamikla símtala við elskhugana, foreldrana eða jafnvel lögguna, eða misbókun á flugmiðann og vélin þarf að bíða. Þar kynnast persónurnar skrýtnum félögum í flugvélinni sem hjálpa þeim að hefja nýtt líf, oftast eru þessir félagar með einhverjar framtíðaráætlanir, stóra loftkastala sem þeir geta oftast ekki ráðið við, og þess vegna verður sögupersónan að fylla skarðið. Svo upphefjast ævintýri, ástir og átök...
Ég vona að lífssaga mín verði ekki þannig. Blákaldur veruleikinn leyfir mér það ekki.
,,Klukk!” heyrist þegar ég spenni beltin. Bráðum er ég stödd í 17.000 feta hæð ef ég leyfi mér að treysta flugstjóranum sem hefur sömu vélrænu röddina og allir starfsbræður hans. Þegar líða tekur á flugið róast ég niður og ég finn hvernig ég get matið stöðuna betur. Ég, í einhverju æðiskasti ákvað að flýja land, hætti í vinnunni, kvaddi ekki einu sinni foreldra mína né Valla né nokkra aðra vini mína, og flýði veruleikann! Hversu aumingjaleg get ég orðið?! Til hamingju Halldóra mín, þú mátt skjóta þig núna. Þú ert búin að klúðra öllu. Vonleysið hellist yfir mig, mig langar helst til að stökkva út úr vélinni og lenda mjúklega í fallhlíf á Egilsstöðum hjá mömmu og pabba. Þau yrðu ábyggilega glöð að sjá mig aftur. En, það er ekki um annað að ræða en að treysta þessum flugstjóra áfram fyrir lífi mínu og halda áfram til Stokkhólms.


Ég halla mér aftur í sætinu og byrja að hugsa. Púkinn og engillinn birtast á öxlunum á mér, reiðubúnir til að hefja málfund. Umræðuefnið er hvort það sé rétt að gefa fátækum. Púkinn verður hér með nefndur með P-i, og engillinn verður merktur vandvíslega með E-i.
E: ,,Að sjálfsögðu er rétt að gefa fátækum mat, pening og alls kyns nauðsynjar Halldóra mín. Af hverju ætti það að vera rangt að hjálpa þeim sem minna mega sín?”
P: ,,Hey Dóra mín! Það hefur margsannað sig að þessar matargjafir hjá Rauða Krossinum, Hjálparstofnun Kirkjunnar að ég minnist nú ekki á mæðrastyrksnefnd hafa engin áhrif önnur en þau að lengja hengingarsnöruna!”
E: ,,Þegiðu nú, púki. Hefuru kannski ekki séð myndir af öllu fátæka fólkinu í þriðjuheims-löndunum sem á ekkert nema hvort annað? Af hverju ættum við ekki að gefa því með okkur fyrst við hérna á Íslandi eigum meira en nóg?”
Fólkið í kring um mig fer að gefa mér og litlu verunum sem sitja á öxlum mínum frekar dularfullt og tortryggið auga. Ég blóðroðna upp í hársrætur, og læt sem ég sé sofandi. Vildi helst að þessar litlu tvær verur hyrfu eins og skot af öxlunum á mér, en það er að vísu gaman að hlusta á rökstuðning þeirra.
P: Það er vitleysa að gefa svo mikið sem eina krónu til þessa fólks! Dugar það hvort eð er nokkuð til neins nema í mesta lagi að æsa upp í þeim hungrið? Sættu þig bara við það fiðurhyski, að heimurinn var, er og mun verða óréttlátur. Hvernig helduru að heimurinn yrði ef allir fengu að selja sínar afurðir á skikkanlegu verði, ef fólk byrjaði að vinna sjálft fyrir sínun nauðsynjum í staðinn fyrir að fá pening og mat fyrir að gera ekki neitt? Helduru að það sé ekki mannskemmandi? Það er löngu orðið sannað að ef öllum viðskiptabönnum í heiminum yrði aflétt tæki heimurinn efnahagskipp upp á við.
E: Jæja púki minn. Þú hefur kannski tekið eftir því að fólkið hér í kringum okkur er undrandi á tilvist okkar. En, hvað ætli mörg prósent af því sé kristið? Við eigum að vera til, samkvæmt trú þeirra! Þarna sérðu hvað heimurinn er skrítinn. Hérna sitjum við á öxlum einhverrar manneskju, og rífumst um tilgangslaus málefni. Greyið hana Halldóru dreymir og hún veit ekkert hvað er í gangi. Kannski ættum við að hætta þessu.

Púkarnir hoppa af öxlunum og niður á litla gráa borðið sem fest er við sætið fyrir framan. Flugfreyjan hefur komið með glas af vatni og púkinn stekkur samstundis upp á glasbarminn og skvettir vægðarlaust á engilinn.
E: Hvað ertu að gera? Þú eyðileggur fjaðrirnar!
P: Hæ og hí, trallala! Nú skal engill finna fyrir því!
Púkinn heldur áfram að syngja og skvetta vatni, og hleypur yfir á næsta borð. Um leið og hann snertir borðið hverfur hann og engillinn sömuleiðis líka.

Ég hrekk upp með andfælum. Skima eftir púkanum og englinum, en sem betur fer láta þeir ekki sjá sig. Þetta var þá bara draumur. Frekar skrýtinn draumur, venjulega dreymir mig algera vitleysu en ekki svona hluti!
Brátt lækkar vélin flugið. Ég fær fiðring í magann en veit ekki hvort það er af spenningi fyrir því að vera komin til Svíþjóðar eða flugvélin.
Það er eitthvað yfir því að heimsækja annað land. Þú ert meðlimur í sérstöku og óvenjulegu þjóðfélagi sem heimsækir annað sérstakt og óvenjulegt þjóðfélag. Eins og tvö mengi sem skarast á. Margir sem flytja til annarra landa, sérstaklega utan Evrópu, fljóta eins og matarolía ofan á vatni og ná engan veginn að laga sig að þeim siðum og venjum sem þar tíðkast. Aðrir hverfa ofan í vatnið og sjást ekki meir. Ég ætla ekki að hverfa svona ofan í Svíþjóð. Ég er Íslendingur sem kem í heimsókn til Svíþjóðar, flóttamaður frá mínum eigin smækkaða heimi. Þar sem ég áður bjó mátti ég sæta andlegum pyntingum í matarboðum, ofsóknum yfir því hvenær ég kæmi heim og ömurlegum laugardags- og sunnudagsmorgnum. Núna veit þetta fólk ekki hvar ég er né hvort ég komi aftur.
Svíþjóð nálgast. Brátt lendir vélin, ég sit í hægðum mínum þrátt fyrir að allir hinir standi upp og nái í töskurnar sínar eins og þeir ætli að flýta sér út. Ég er ekki að flýta mér. Mín dvöl í Svíþjóð skal einkennast af litlu hlutunum. Ég lifi fyrir núið.
Hurðin á vélinni opnast og ég geng út, næstum því síðust. Við mér taka tré, hæðir og fleiri tré. Vonandi verður dvölin mín hér öðruvísi en heima.

|