.

sunnudagur, maí 25, 2003

Nú eru liðnir 5 dagar síðan síðast var skrifuð grein hér á Jazz-slóðum og úr því verður að bæta. Það er lítið mál að buna út úr sér einhverri vitleysu og það hyggst ég gera:

Charlie "Bird" Parker var án efa einn allra áhrifa mesti tónlistarmaður í sögu jassins. Honum hefur oft verið líkt við Louis Armstrong vegna þess að áhrif beggja náðu langt út fyrir eigið hljóðfæri. í kringum 1945 var jassinn eiginlega hættur að þróast. Það var margt gott í honum en hann var hættur að þróast. En þegar Charlie Parker kom fram á sjónarsviðið með sína nýju rytmísku, harmónísku og melódísku hugsun ( ég veit ekkert hvað þetta þýðir ég bara las þetta einhvers staðar) vissu tónlistarmenn að þeir þurftu að hugsa sinn gang. Enginn gat spilað nútíma djass án þess að skoða Parker ofan í kjölinn (og má ég þá til að benda á The Charlie Parker omnibook, sem fæst í tónastöðinni og hefur að geyma öll hans helsu lög og sóló).

Charlie Parker fædist núll ára og án allra tónlistarhæfileika (ég veit, það er ótrúlegt) í Kansas borg, í Kansas fylki þann 29. ágúst, 1920. Faðir hans var fyrir löngu flúinn og mamma hanns sá um heimilið Þrátt fyrir bága efnahagsstöðu tókst þeim að skrapa saman fyrir saxófóni handa Tsjalla litla. Hann byrjaði strax að æfa sig, lagði á minnið sóló af plötum og æfði hljómaskala upp og niður 11-15 tíma á dag, segir hann sjálfur í útvarpsþætti þar sem hann ræðir við Paul Desmond (samdi Take 5) 1953. (Ég hef það fyrir satt að íbúðaverð í nágrenninu hafi lækkað um 10% vegna hávaðamengunar.) Charlie Parker var ekki svo ýkja góður í fyrstu, að því er hlustendum virtist a.m.k. vegna þess að hugmyndirnar streymdu út hraðar en fingurnir orkuðu. Fólkið hló en Parker tvíefldist, fór aftur heim að æfa og árið 1937 byrjaði hann að spila með hljómsveit Jay McShanns og átti þar prýðis sóló.

Munnmæli herma að Parker hafi fengið viðurnefnið sitt(bird(fugl)) í einu af sínum mörgu tónleikaferðalögum um Bandaríkin með hljómsveit Jay McShann. Er þeir tóku að nálgast bóndabýli nokkurt sáu þeir að allt var af hænsnum krökkt á veginum. Eins og gerist og gengur með ferðalög á bíl strauja þeir eina hænu
-"Stöðvaðu bifreiðina!" æpti Parker hástöfum.
-"Hvaða vitleysa, þetta er eitt lítið hænsnatetur...?"
Þá mælti Parker "Þú stöðvar bílinn eða ég treð saxófóninum mínum þangað sem sólin skín ekki."
Bílstjórinn samþykkti og stöðvar bílinn, Parker þýtur út, tekur hænsnið í fang sér, tekur á rás upp að nálægu bóndabýli og hljómsveitin á eftir, og knýja þeir dyra.
Húsfreyja kemur til dyra og mælir: "Hvað er ykkur á höndum félagar?"
-"Við straujuðum eitt stykki hænu og vorum að vonast til að þú gætir haft hana í miðdegisverð."
-"Skellum upp hófi drengir, drekkum, borðum og verum kát!"
-"Þú ert kona okkur að skapi", svara hljómsveitarmeðlimir í einum kór. Var svo kneyft fram á rauða nótt og elstu menn muna ekki meira svalllíf, drykkkæti eða ælusvælu.

Nújæja, víkjum okkur að tónlistinni; fólk, sem vant var mönnum á borð við Louis Armstrong, Artie Shaw, Benny Goodman, Count Basie, Duke Ellington o.fl., eða saxófónleikurum eins og Lester Young, Henry "Buster" Smith (sem höfðu mikil áhrif á Parker) og Coleman Hawkings varð að sjálfsögðu skelfingu lostið þegar það heyrði lög Parkers og Dizzy Gillespies sem voru á yfirþyrmandi hraða (300 slög á mínútu(5 slög á sekúndu(af miklum myndarbrag))). Lögin byrja öll á því að Charlie og Dizzy Gillespie eða Miles Davis spila saman (og hljóma sem einn) laglínu með torræðu tempói, tónskrattar og lækkaðar níundir leynast í hverju horni. Á eftir fylgir Parker-sóló þar sem hann kynnir sífellt nýjar melódískar hugmyndir og þeytir út úr sér 16-parts frösunum eins og Guffi og félagar. Dizzy Gillespie(eða Miles Davis) fylgir á eftir með dramatískar laglínur á efstu nótum trompetsins sem líffræðilega er hægt að spila(og er snöggur að því).

1945, nóvember, 11 vikum eftir uppgjöf Japana skelltu Miles davis, Dizzy Gillespie, Max Roach og Curly Russels í stúdíó og tóku upp lögin "Billie's Bounce", Thriving from a riff", "Now's the time", og "Koko", sem að komu Parker fram á sjónarsvið djassheimsins, þótt þau seldust ekki vel. Einmitt á þeim árum er tónlist Parkers, bebopið, var að þróast, var verkfall í hljómplötugeiranum svo að bebopið kom fram fullmótað á plötum.

Þegar þeir höfðu spilað á klúbbum í New York um nokkurt skeið eins og Minton's Playhouse, héldu þeir til Los Angeles í leit að nýjum æfintýrum 1945. Dizzy hafði verið boðið að spila á klúbbnum "Billy Burgs" í Hollívúdd. Þar hittu þeir fyrir trompetleikarann Howard McGhee, bassaleikarann Charlie Mingus og saxófónleikarann Dexter Gordon. Sú ferð varð eitt allsherjar stórslys og mættu þeir litum skilningi. Á leiðinni til LA stoppuðu þeir til að fá sér í gogginn. Þegar þeir voru komnir í lestina aftur tóku þeir eftir að enginn var Tjallinn með í för.
Þegar allt í einu trommarinn Stan Levi sáu einhvern lítinn svartan punkt hreyfast langt úti í miðri eyðimörkinni. Hann greindi frá þessu við Gillespie sem brást ókvæða við, vitaskuld þreyttur á óáræðni Parkers og sagði: "Hunskastu út og náðu í hann. "Stan hljóp út, þreif í Parker og sagði: "Hvað er þér á höndum, frændi?" "Bu...bu...ö...ég...þarf eitur..." svaraði Parker örvinglaður. Þeir pökkuðu honum saman í álpappír og héldu áfram för sinni til Englaborgar. Er þangað var komið var sem fyrr segir illa tekið á móti þeim. Þeir undu því ekki vel og keyptu miða með lestinni til baka. Charlie í barnaskap sínum seldi miðann sinn fyrir eiturlyf. Dizzy Gillespie, sem áður hafði kallað Parker hinn helming hjartsláttar síns gafst upp á honum og fór til baka til Nýju Jórvíkur. Charlie plumaði sig vel á nýja staðnum eftir að hann hafði komið á viðskiptasambandi við eyturlyfjasalann "Moose the mooch" en brátt varð sá kumpáni handtekinn og færður í fangavörslur lögreglunnar; þá syrti í álinn hjá Charlie Parker og upp hófust fráhvarfseinkenni hin verstu og drykkjan jókst. Charlie bjó í yfirgefnum bílskúr með jakkann einan að ábreiðu. Týndur í úthverfum Los Angeles mældi hann göturnar og rambaði einstöku sinnum inn í stúdíó. Þegar lagið "Loverman" var tekið upp var hann svo fullur að upptökustjórinn þurfti að halda honum uppréttum. Parker vildi henda plötunni í gólfið og stappa á hana skítugum skónum og síst af öllu gefa hana út. Sú plata seldist að einhverju marki og fékk hann nægan pening til að gista hótel bæjarins einstöku sinnum. Ein saga segir frá því er hann í örvinglun sinni eina nóttina vafraði um nakinn í móttöku hótelsins sofnaði reykjandi og kveikti í rúminu sínu. Er löggan kom á staðinn barði hún hann blóðugan og stakk honum í steininn. Hann fékk taugaáfall og var fluttur á Carmarillo State Hospital og spilaði þar með hljómsveit hússins. Á meðan var Dizzy Gillespie að framkvæma allt aðrar hugmyndir með stórsveit að glíma við áhrif Suður-Amerískrar tónlistar.

Árið 1947 var, sem fyrr segir, Charlie fluttur á Carmarillo geðsjúkrahúsið vegna taugaáfalls. Í apríl sama ár fór hann aftur til New York, laus við heróínfíknina í bili og stofnaði kvintett með trommaranum Max Roach og Miles Davis. Er Charlie Parker var kominn aftur á ról í New York og byrjaður að spila á klúbbum sem endranær fór hann smám saman að taka eftir því að á meðan hann hafði verið í burtu hafði fólk byrjað að líta á hann sem goðsögn í lifanda lífi og voru margir farnir að herma eftir stíl hans. Saxófónleikarinn Jackie McLean sagðist mundu una glaður við sitt ef aðeins hann gæti fengið að spila nákvæmlega eins og Charlie Parker.

Fólk hafði byrjað að nefna tónlist hans bebop (og reynt að vísa þannig einhvern veginn í rytma laga Parkers) en Charlie sjálfur þoldi ekki orðið og taldi það eitt af vélarbrögðum djöfulsins(eins og hann segir ekki í neinum útvarpsþætti). Sjálfur sagðist Parker bara vera að reyna að spila "hreint" og leita að fallegu nótunum, engin tónlist var honum framandi. Í eitt skipti fór hann með hljómsveit sinni á bar til að slaka á og ef til vill til að klóra sér í lifrinni. Nema hvað, á bar þessum var glymskratti nokkur; Charlie reis upp úr sæti sínu, gekk sallarólegur og yfirvegaður að vanda að glymskrattanum, lyfti vísifingri og studdi við hnapp sem stóð við hliðina á nafni lags sem sungið var af Hank Williams. Tónlistarmennirnir, furðu lostnir yfir lagavali Parkers þorðu ekki fyrir sitt litla líf að spyrja hvers vegna þessu djassstjarna valdi lag sungið af þjóðlagasöngvara, þangað til einn þeirra gerðist svo djarfur: "Af hverju?" spurði hann. Charlie Parker leit við og sagði: "Sögurnar, vinur, hlustaðu á sögurnar." Öðru sinni var hann á ferðalagi í bifreið sinni upp í sveit þegar hann ók framhjá búfénaði sem var á beit. Þar var geit sem skeit og var í hafursleit. En nóg um það, Parker hafði heyrt að búfénaður hefði yndi af tónlist. Svo hann dreif sig upp úr sætinu, út á akur og blés yfir nokkra kórusa af sinni alkunnu snilld.

Honum hefði aldrei verið tekið sem stjörnu í Ameríku, enda var hann aðeins þekktur af tónlistarmönnum, hann hafði aldrei birst á forsíðu neins blaðs, aldrei komið fram í sjónvarpinu, og plötur hans höfðu aldrei selst í miklu upplagi.
Í maí 1949 fór hann á fyrstu alþjóðlegu djasshátíðina í heimi sem haldin var í Evrópu. Þar hitti hann fyrir þá kumpána Sidney Bechet og Louis Armstrong. Var honum þar loksins tekið fagnandi hendi af vinsemd og virðingu og var skipað í flokk með fyrrnefndum kempum og var jafnvel tekið vel af sauðsvörtum puplinum. Í kjölfarið tók hann upp plötu sem nefndist "Charlie Parker with strings" og seldist hún mest af öllum hans plötum. Mörgum fannst hann vera að svíkja tónlistina sem hann hafði skapað, en það var misskilningur. Hann spilaði frábærlega vel, hugmyndirnar streymdu úr kollinum og út í gegnum lúðurinn sem aldrei fyrr; besta lagið að okkar mati er "Just friends".

Paparnir komu til Íslands á 8. öld, þegar land var skógi vaxið milli fjalls og fjöru og alls ómengað af öllum ruslaralýð. Fyrsti papinn sem steig fæti hér á land hét Mingus McFlurry og hafði sérstakan áhuga á endurreisnartímabilinu(sem enn þá átti eftir að ganga í garð) og frímerkjum.
Eitt skipti ákvað hann að bregða sér af bæ til að kaupa stóðhest nokkurn. Hann leggur leið sína niður Skólavörðustíginn (sem öll var þá í mýri). Þar hitti hann fyrir félaga sinn frá fornu fari, Sir Iwant McIntosh og þrælinn hans, Patsy.
"Ágætis veður í dag, venjulega er alltaf rok hérna í vesturbænum(sem ekki er enn þá til)" segir McFlurry.
"Satt er það. Við ættum þó að þakka fyrir að hafa eitthvað veður." svarar McIntosh um hæl og heldur áfram: "Á ferðum míunum um freðmýrar Þingholtanna hitti ég fyrir mann sem sagði mér að ekkert væri veðrið lengur sunnan borgarinnar helgu."
-"Já, passar það við hina kómísku þögn súrrealismans?"
-"Vissulega, en aðeins ef það væri búið að finna upp afstæðiskenninguna."
-"Hver er þetta sem þú hefur í eftirdragi?"
-"Þetta er ræfilstuskan og þrællinn minn, Patsy. Patsy, hvar eru kókoshneturnar?"
-"Herra, það er því miður engar svölur á Íslandi þannig að kókoshnetur geta fræðilega séð ekki borist hingað til lands." svarar Patsy.

Við höldum nú áfram með svalllífið og dregggleðina, hasssalana, drykkkætina og spítttökuna í lífi sukkkóngsins Charlie Parkers. Í desember 1949 var skemmtistaðurinn "Birdland" opnaður, sem var skírður í höfuðið á Parker.
Þá var hann í sukkinu sem aldrei fyrr og frægð hans jókst svo gífurlega að annað eins þekktist varla norðan Alpafjalla. Hann blés í rör og fékk fúlgur fjár fyrir, en eyddi því samstundis í víf, vín og vitleysu(að ég tali nú ekki um veislur). Þegar lifrin í honum var orðin steingerð kynntist hann konunni sinni, Chan(sem var þó ekki frá Asíu) og ættleiddi dóttur hennar. Áttu þau börn og buru og fylgdi ekki með sögunni hvor þeirra varð fyrir valinu. Charlie Parker var alla tíð margbreytilegur persónuleiki. Ásamt því að vera tónlistarmaður í fullu starfi var hann heróínfíkill á nóttunni og fjölskyldumaður á daginn. Eins og gefur að skilja hafði hann engan tíma fyrir neitt af þessu og dó. En það er ekki fyrr en seinna.
Charlie Parker bjó með fjölskyldu sinni í Austur-Manhattan og var hann þekktur fyrir sérlega mikla prúðmennsku og háttvísi í alla staði meðal nágranna sinna. Þó vildi hann alltaf meiri konur, meiri eiturlyf, stærra sjónvarp og meiri mat. Spilaði alla nóttina fram á rauðamorgunn og svaf lítið sem ekkert nema þá helst að sofa hjá (hann muldi pillur út í kaffið sitt). Eins og vel er þekkt í næturlífi New-York borgar var hann ekki eini sukkarinn meðal þekktra djasstónlistarmanna. Rétt eins og klarinettuleikarinn Artie Shaw orðaði það, þá fæddist djassinn í viskítunnu, ólst upp við mariúana og er við það að drepast úr heróíni. Louis Armstrong reykti mariúana alla daga(nema þá helst þegar æfði sig á trompetinn) en sagði að heróín væri vondur skítur.

Margir vildu öðlast bita af hinni stóru köku guðdómleika Parkers í sólósmíðum og næsta kynslóð eftir hann var syndandi í heróíni. Ber þar hæst að nefna Stan Levy (sem spilaði oft með Parker á trommur og bjó með honum um stund), Gerry Mulligan(sem lék á baritónsaxófón á plötunni Birth of the Cool), Art Blakey(trommari og leiðtogi djasssendiboðanna), saxófónleikararnir John Coltrane, Dexter Gordon, Sonny Rollins(sem blés í rör), Stan Getz, söngkonan Anita Oday, Tadd Dameron, Red Rodney, Fats Navarro(sem var í ítölsku mafíunni og borðaði spagettí), Chet Baker og átta af sextán meðlimum í Woody Herman hljómsveitinni. Stan Getz fjármagnaði sína neyslu með því að selja heróín, var handtekinn og tók aftur upp sína iðju daginn sem honum var hleypt úr fangelsinu.
En hvað sem því líður var Charlie Parker allur að rétta úr kútnum, var orðinn leiður á því að spila sömu lögin nótt eftir nóttu og vildi fara að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt. Þegar hið glæsta ráðabrugg hans var við það að verða að veruleika dó dóttir hans, Pre(árið 1954). Hann var að spila á Oasis klúbbnum(þar sem rokkhljómsveitin Oasis hitaði einmitt upp fyrir hann) þegar reiðaslagið dundi yfir. Hann fékk símskeyti frá Chan(sem var þó ekki frá Asíu) um að dóttir hans hefði látist, tveggja ára að aldri(sem hann átti þó ekki börn og buru með eins og Woody Allen gerði). Hann komst í jarðarförina en hélt sér varla saman(þó ekki af kæti).
Tónlistarmenn báru honum ekki vel söguna eftir þetta, sögðu hann nokkuð þurran á mannin(þó ekki af áfengisleysi). Er hann var að spila á sviði nokkru á Birdland reyndi hann skyndilega að reka hljómsveitina sem var að spila undir með honum, en hljómsveitarstjórinn rak hann í staðinn. Tóku þeir tal saman sem er hér haft orðrétt eftir:

“Sæll Parker minn. Ekki vera feiminn, komdu upp á sviðið hérna.”
“Þökk fyrir hljómsveitarstjóri góður.”
Parker stígur upp á sviðið við mikla kátínu viðstaddra sem hjaðnaði þó fljótlega er hann byrjaði á vitlausu lagi.

“Hvað er að þér, Parker? Ertu með eitthvað bögg?” sagði hljómsveitarstjórinn.
“Ertu að tala við mig?” spurði Parker, smellti af sér saxófóninum og gaf honum einn á snúðinn. Hljómsveitarstjórinn brást ókvæða við og gaf honum einn á lúðurinn(þó ekki saxófóninn).
Óbóleikaranum, sem var stór og mikill vexti, leist hvorki á blikuna né um sel og blandaði sér inn í deiluna.
“Herramenn, stillið ykkur,” sagði óbóleikarinn.
“Þú getur trútt um talað, herra óbóleikari. Hljómsveitarstjórinn gaf mér einn á lúðurinn(þó ekki saxófóninn)”, sagði Parker.
“Já en hann byrjaði,” sagði hljómsveitarstjórinn örvæntingarfullur.
“Ekkert kjaftæði við mig,” sagði óbóleikarinn, “nú er aðeins eitt í stöðunni. Hljómsveitarstjóri góður, tak þú við óbóinu og sýndu hvað í þér býr.”
Hljómsveitarstjórinn fór að vola.
“Hah!” sagði Parker. “Þú hefur ekkert í mig að segja! Ég er heimsins besti saxófónleikari og ég rek úr þér garnirnar í hljóðfærakeppni.”
Öttu þeir síðan kappi saman og er skemmst frá því að segja að leikar fóru þannig að Parker hafði yfirburðarsigur yfir vesæla hljómborðaleikaranum sem í barnæsku spilaði á túbu og hafði aldrei snert á óbói. Eins og áður sagði rak Parker þá hljómsveitina en þeir gerðu sér lítið fyrir og ráku hann í staðinn.


Hann fór heim til sín, gleypti nokkur pilluglös í bræði, sem var ef til vill heldur mikil fljótfærni því hann hefði dáið ef konan hans hefði ekki hringt í sjúkrabíl. Eftir þetta atvik var hann algerlega kominn út úr heiminum, fór hring eftir hring í neðanjarðarlestum, var uppstökkur og tortrygginn.
Á leið sinni til Boston einhverju sinni stoppaði hann hjá vinkonu sinni, Pannonica de Köningswater sem var barónessa mikil. Tóku þau tal saman:

“Sæl barónessa góð. Hvernig líður hænunum?”
“Ha, hvaða hænum? Hvað ertu að tala um?”
“Nú, ég er að tala um hænurnar sem vappa þarna um og eru að borða korn.”
“Jaaaá, þú meinar það! En mætti bjóða þér inn í kaffi og með því?”
“Takk fyrir barónessa góð. Ég þigg það með þökkum enda hef ég neytt lítillar fæðu undanfarna daga fyrir utan nokkurra pilluglasa sem ég gleypti um daginn.”
“Guð minn góður Parker minn. Hvað er að heyra? Ég vona að þér hafi ekki orðið illt af þessu.”
“Nei frú mín góð, þökk sé minni ástkæru konu, Chan(sem þó er ekki frá Asíu) skiluðu pilluglösin sér aftur út. Hún hringdi á sjúkrabíl, sjáðu til.”
“Gott er að heyra. Þetta blessast allt að lokum.”
“Haltu kjafti kelling. Þú ert ógeðslega ljót.”
“Parker þó!”
“Afsakaðu, ég get verið dálítið uppstökkur, sjáðu til.”
“Allt í lagi ljúflingurinn minn. Komdu nú inn á sveitasetrið mitt, öðlingurinn Thelonious Monk er einmitt í heimsókn hjá mér. Við hugðust spila rússa.”
“Já en rússi er bara fyrir tvo…? Hvað með að við spilum Ólsen Ólsen?”
“Jahá, það líst mér vel á. Þá getum við spilað öll þrjú saman. Komdu inn í stofu þar situr Thelonious að snæðingi.”

Fóru þau síðan inn í stofu. Á leiðinni eyðilagði Parker fjóra vasa og móðgaði einn þjón sem hugðist færa honum te. Þjónninn fékk allt teið framan í sig og meira að segja smá upp í nefið. Vakti það mikla kátínu viðstaddra en þjóninum var miður skemmt.

“Sæll Thelonious minn, gamli vinur og félagi. Ég sé að þú hefur nýjan hatt á höfði. Er þetta nýja línan frá Adidas eða bjóstu hann til sjálfur?”
“Komdu heill Parker. Nei, satt best að segja keypti ég hann Guðsteini Eyjólfssyni í janúarútsölunum á Laugaveginum.”

Spiluðu þau síðan langt fram á nótt Ólsen Ólsen þangað til Thelonious Monk þurfti að fara heim að sofa.


Eftir þetta spilakvöld var Charlie Parker gjörsamlega að fara á límingunni. Barónessan hringdi á spítala og lækni og sjúkrabíl. Læknirinn sagði að hann ætti að hvíla sig heima hjá henni þar til honum liði betur. Svo var það eitt kvöldið þegar Charlie var einn heima hjá barónessunni að horfa á Spaugstofuna að Parker hló, kafnaði og dó. Hann var dáinn þegar læknarnir komu að honum og í læknaskýrslunni stóð að hann væri líklega 55-60 ára þó hann væri aðeins 34 vetra gamall. Hann var grafinn í Kansas og móðir hans bannaði allan Djass í sálumessunni sem og blóm og kransa.

Köttur út í mýri
Settist undir stýri(þó ekki ölvaður)
Úti er ævintýri.

|