.

sunnudagur, júní 15, 2003

Við erum stödd í New Orleans, vöggu jazzins. Árið er 1887, 31. ágúst, 99 árum áður en Snorlax fæddist. Þá voru ekki komnir farsímar, fartölvur, símaklefar eða lasagne(né bíómyndir) þannig að karlmenn höfðu fátt annað fyrir stafni en að skreppa á svokölluð gleðihús. Til þess að auka glauminn og galsann í portkonuhúsunum voru jazzhljómsveitir látnar leika undir(en á þessum tíma var ekki búið að finna upp jazzinn þannig að jazzhljómsveitirnar hétu bara hljómsveitir).
Einhverju sinni átti skækja nokkur leið sína um tiltekið skækjuhverfi New Orleans er hún rakst á óbóleikara í hljómsveit nokkurri sem hafði gert það gott um borg og bý. Tóku þau tal saman:

"Sæl portkona góð. Hvernig ganga viðskiptin?"
"Sæll verið þér sjálfur, þau mættu ganga betur. Ég hef leitað að leiðum til að auka innstreymi(ekki misskilja) viðskiptavinanna og gera pyngjuna þyngri."
"Slæmt er það. En ég hef ráð við því."
"Ó, seg mér."
"Taktu hár úr hala mínum og legðu það á jörðina."
"En, kæri óbóleikari, þér eruð eigi með hala."
"Slæmt er það. Tak þú þessar ilmurtir sem ég fékk af indverskum fagottleikara sem lék á túbu í barnæsku."
"Ó, en hvað kallið þér það, góði herra?"
"Jaaaasmín!"
Skipti þá engum togum að óbóleikarinn hneig niður og voru dagar hans taldir. En skækjan flúði af vettvangi í einu vetfangi til þess að forðast ákærur (hún var svertingi og þeir höfðu ekki ætíð náðuga daga).
Þar sem skækja þessi var grasakona mikil og hafði græna fingur, hóf hún strax fagmannlega meðhöndlun á ilmurt þessari. Tók hún til Mountain Dew og blandaði því saman við ilmurtirnar svo úr kom hið besta seyði. En er það þornaði var það þó nokkuð klístrað þannig að hún ákvað að nota vatn í staðinn. Þegar seyði þetta var tilbúið hóf hún strax dreifingu á því meðal starfssystra sinna. Jukust viðskiptin þá svo mikið að annað eins hafði varla þekkst síðan fyrir langalöngu. Jafn framt auðguðust Jazz-hljómsveitirnar mjög í takt við vaxandi efnahagslíf.

Jasmín ilmvatnið varð smám saman einkennislykt í þessum bransa. Ungar meyjar sem báru þetta á sig voru oft teknar í misgripum fyrir vændiskonur og skipti þá engum togum að þær misstu ungmeyjarylinn eins og Guðbjartur hefði sagt.
Portkonuhúsin fóru þá jafn framt að gangast undir nafninu Jasmínuhús (þó á það ekkert skylt við Aladdín, enda var hann ekki búið að teikna hann), og hljómsveitirnar Jasmín-hljómsveitir. Vegna latmælgi á þessum tíma var þetta flókna nafn stytt niður í Jass-hljómsveitir (eins og glöggir lesendur hafa vafalaust áttað sig á).

En, þessir sömu lesendur spyrja sig þá væntanlega líka: Af hverju er Jazz skrifaður með zetu á vorum dögum en eigi með s-i?
Atvikaðist það þannig sem hér segir:

Jónatan hét maður. Hann var mikill maður vexti, herðabreiður og með góðan munnsvip, skartaði prúðu hári niður á axlir og átti gott sjónvarp. Hann hafði alla tíð langað til að verða tannlæknir og hafði stundað tannlækninganám verulega lengi.
Loks fann Jónatan viðeigandi húsnæði í miðbæ New Orleans til að stofna tannlæknastofu. Hann hóf strax að innrétta það með viðeigandi búnaði, loftbor og stórum töngum því tannskemmdir voru miklar á þessum tímum. En, hvað vantaði hann þegar hann hafði lokið því? Nú, auðvitað að ná sér í auglýsingaskilti til að hengja upp fyrir ofan stofuna svo fólk tæki hana ekki í misgripum fyrir vopnasölu!
Hann fór strax í leit að skiltabúð sem bjó til áprentuð skilti með því að líma stafina á.
Tóku þeir og skiltagerðamaður nokkur tal saman:

“Góðan daginn. Ég heiti Jónatan, ég á gott sjónvarp og mig langar í some jive-ass skilti. Áttu ekki eitthvað smækó?”
Tekur þá skiltagerðamaðurinn til máls:
“Vittu til ungi maður, af skiltum á ég nóg. Rétt eins og þú sérð hér í hillunni til hægri á ég nóg af hvers kyns stöfum.”
“Uhm, já. Eins og ég sagði ábyggilega áðan heiti ég Jónatan og ætla að stofna Tannlæknastofu Jónatans. Ég vil að viðskiptavinirnir sjái að hér er á ferðinni maður sem á fúlgur fjár, ég vil hafa stafina nógu stóra.”
“Ja, nú vandast málið. Ég á alla heimsins stafi, bæði kýrilíska stafrófið sem og fönískt línuletur B. En Joð á ég því miður ekki. Hingað kom maður að nafni Jabujadajisji -jihsjaj-njubjaddajishj sem kláraði þau öll á einu bretti. Geturu ekki breytt stofunni þinni í Tannlækningastofa O’Natan’s?”
“Ó, kæri skiltagerðamaður, það væri óskandi. En því miður ber ég ekki slíkt nafn. Ég hyggst nú fara og drekkja sorgum mínum.”

Er hann reikaði um miðbæinn í örvæntingu sinni ráfaði hann inn á pöbbinn “Græna villta gæsin” og pantaði þrefaldan martini, hristan ekki hrærðan.
Á þessum sama klúbb var Jasshljómsveit að leika fyrir dansi. Jónatan rak brátt augun í stærðarinnar “J” á trommusettinu, en bassatromman prýddi stafina “Jass”.
Jónatan lagði saman tvo og tvo. Þegar hljómsveitin var búin að spila og fór að drekkja sínum eigin sorgum á barnum gerði hann sér lítið fyrir og skrapaði varfærnislega J-ið af; rúllaði því í rassvasann og hvarf á braut. Næsta dag gátu árvökulir íbúar New Orleans séð “Tannlækningastofa Jónatans” stórum stöfum.

Jasshljómsveitin var í vanda stödd því nú stóð stórum stöfum “Ass” á trommusettinu.

“Ó, vei ó svei og voði stór,” hafði óbóleikarinn að orði. “Hvað gerum við nú?”
“Við förum samstundis til einhvern jive-ass skiltagerðamanns og fáum þetta bætt.” mælti hljómsveitarstjórinn sem í barnæsku lék á túbu. “Upp með veskið, strákar.”
Nú kom það í ljós að kvöldið áður höfðu þeir drekkt öllum sorgum sínum og buddunni líka. Enginn átti túskilding með gati, hvað þá einskilding. Tóku þeir þá til bragðs að brjótast inn til skiltagerðamannsins næsta kvöld. Er þeir voru staddir fyrir utan verslunina og höfðu brotið upp hurðina vildi svo skemmtilega til að skiltagerðamaðurinn var enn þá inni. Tóku þeir þá tal saman:

“Hvað eruð þið að gera, herramenn?”
“Þegiðu. Við erum sko alls engir herramenn heldur innbrotsþjófar og haltu nú kjafti. Áttu ekki eitthvert jive-ass Joð sem við þurfum?”
Þeir gáfu skiltagerðamanninum ekki tíma til að svara heldur einn á lúðurinn og stálu glænýju Joð-i sem var nýkomið frá Nýju-Jórvík þar sem skiltagerð stóð í miklum blóma. Eftir það flýðu þeir sem fætur toguðu.

Næsta morgun þegar hljómsveitin ætlaði að líma nýju stafina á tók óbóleikarinn úr fórum sínum tvær zetur sem hann hafði óvart rænt þegar hann hugðist stela veski skiltagerðamannsins.
“Ég veit, strákar,” sagði hann. “Til þess að þetta hneyksli endurtaki sig ekki skulum við breyta nafninu á hinni nýju tónlistarstefnu í Jazz. Það ætti að koma sér vel.”

Síðan þá fóru Jazzhljómsveitir að ganga undir þessu nafni og hafa gert það æ síðan. En Jónatan vinur okkar fór beint á hausinn, drekkti sorgum sínum og fraus í hel undir brú.

Þess má geta í lokin á þessari leiðinlegu grein að ef ætti að bjóða öllum Íslendingum í pizzuveislu og hver pizza væri keypt í tveimur áleggstegundum kostaði það aðeins 200.000.000 eða tvöhundruð milljónir. Við mælum eindregið með því að þessi tilraun verði framkvæmd enda langar okkur Snorlax í pizzu.Um niðurskrif og skemmtileg innskot annaðist: Hvurslags.
Um efnistök, leiðinlegar staðreyndir og stafsetningarvillur annaðist: Snorlax.

|