.

miðvikudagur, september 24, 2003

Íslenskuverkefni

---



Já, það haustaði.

Og Halldór vissi það, þar sem hann barðist móti rokinu á leið sinni í skólann. Stöku sinnum fékk hann laufblað í andlitið þar sem vindurinn þyrlaði því í algjöru leyfisleysi framan í hann. Rétt eins og hann væri að hjálpa Halldóri að skýla andlitinu um leið og hann nísti hann með sínum köldu klóm.

Austurvöllur var ekki sjón að sjá. Það var eins og árshátíð árstíðanna hefði farið þar fram kvöldið áður. Allt var útbíað í laufblöðum, smágreinum, krömdum fuglaberjum og lauslegu rusli sem fauk þarna til og frá. Hreinsunardeildin var greinilega ekki að skipta sér af svona hlutum.

Þegar Halldór gekk áfram varð honum litið á gaflinn á Dómkirkjunni. Þar hafði einhver krotað fyrripart. Greinilegt að þetta lið hafði líka áhuga á skáldskap:

Þrýstilínur þekja veðurkort.
það er stórviðri á stöku stað.

Reyndar var þetta ekki alveg fullkomlega gert, en sniðug hugmynd engu að síður. Halldór var að hugsa um að ganga þarna fram hjá eftir skóla og botna vísuna. Ekki það að hann hafði nóg að gera í skólanum, þvert á móti. Hann var yfirleitt vanur að sofa fyrstu tvo tímana, sérstaklega þegar það var jarðfræðitími með myndglærusýningum þar sem þurfti að slökkva ljósin.

Skólinn leið. Halldór horfði út um gluggann, horfði á haustið silast framhjá eins og risastórt óveðursský.

Þegar hringt var úr síðasta tíma fór Halldór ekki strax heim til sín. Ekki strax. Þess í stað gekk hann í rólegheitum að Eymundsson og keypti sér tússpenna. Svo rölti hann að Dómkirkjunni þar sem skáldið mikla hafði párað á fyrripartinn.

Hann leit vandlega í kringum sig til að vera viss um að enginn væri á ferli. “Engar áhyggjur Halldór minn,” hugsaði hann, “veðrið sér til þess að enginn treystir sér út.”
Svo skrifaði hann botninn á sjálfa Dómkirkjuna í flýti. Brátt mátti sjá á gaflinum:

Þrýstilínur þekja veðurkort.
það er stórviðri á stöku stað.
Þenja öldur hafsins hafnarport
hendist þari upp á bæjarhlað.

Hann var meira að segja nokkuð stoltur af sjálfum sér. Þarna, fyrir allra augum á einni virtustu byggingu landsins var eitthvað eftir hann sjálfan. Rétt við hliðina á alþingishúsinu og Austurvelli, rétt eins og hann væri að gefa ríkisstjórninni og Jóni Sigurðssyni langt nef.
Svo gekk Halldór heim. Núna var strekkingsvindurinn í bakinu á honum sem létti óneitanlega sporin. Honum var sama um laufblöðin sem þyrluðustust í kringum hann og höfðu angrað hann fyrr um morgunninn.

Í veðurfréttunum um kvöldið brosti Halldór í kampinn þegar hann sá mynd af Íslandi eins og sebrahesti, umvafið óveðurskýjum og bláum tölum.

Hann brosti þó ekki næsta dag þegar sama fasta venjan endurtók sig; baráttan við morgunþreytuna, glýjuna í augunum og bölvaðan vindinn sem ætlaði sér ábyggilega að blása hann lengst út á haf.

En þegar hann gekk fram hjá þessum blessaða gafli á Dómkirkjunni sá hann nýjan fyrripart. Greinilega eftir sama höfund því skriftin var sú sama:

Köld er brá og kalin tá
kann ég frá að segja

Þetta var óborganlegt. Allt í einu var hann farinn að kveðast á við einhvern sem hann þekkti ekki baun. Um vont veður. Og þessar línur voru meira að segja með innrími! Hvernig í ósköpunum átti hann að botna þetta?

Hann átti enn þá tússpennann síðan í gær. Klukkan var enn þá ekki orðin átta þannig að Halldór hafði svo sem nægan tíma.

Seilist í töskuna og tekur pennann upp. Hugsar nokkra stund, og skrifar síðan:

vetrar þjá nú völdin flá
visna strá og deyja.

Skyndilega var bankað ákveðið í öxlina á honum. Hann lítur snöggt við, og er næstum því búinn að krota á nefið á lögregluþjóni.
Lögregluþjónninn lítur hvasst í augun á Halldóri og hreytir út úr sér: “Fyrirgefðu góði, en þetta er alvarlegt brot.”

“Jæja, það skiptir ekki miklu máli þótt ég fari ekki í skólann í dag,” hugsar Halldór og sýgur upp í nefið þegar hann situr í lögreglubílnum og horfir á laufblöðin þyrlast um Austurvöll.

|

föstudagur, september 12, 2003

Ég var að finna nýja tegund af aulabröndurum:

Af hverju er sett barnalæsing á bíla ??


-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
Svo að litlir krakkar opni ekki hurðina á ferð og skaði þau sjálf eða bílinn!
HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA!



Af hverju eru stundum settar gular línur á vegkanta?
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
Til að sýna hvar ekki má leggja!
HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAH!!

|

þriðjudagur, september 09, 2003

Fróðarímur

Aragorn er ansi lúinn
eftir ótal hlátrasköll
nú er Fróði næstum búinn
nú er sagan öll?

Heyrðu snöggvast Sauron minn
snjallur vin minn kæri
heldurðu ekki að hringinn þinn
ég hermannlega bæri?

|

fimmtudagur, september 04, 2003

Jónatan og gamli maðurinn

Smásaga eftir Kristján Hrannar Pálsson og Halldór Berg Harðarson

---

Það eru margir þræðir sem stjórna lífi manns. Þitt líf ákvarðast af hárfínu
neti at afburðum, dauðsföllum, morðum og notkun á getnaðarvörnum. Oft hefuru
verið hársbreidd frá dauðanum og það má kalla það hreina hundaheppni að þú
skulir vera hér á jörðinni í dag. Eins og heimspekingur nokkur sagði: “Lífið
er eitt stórt happdrætti þar sem aðeins vinningarnir eru sýnilegir.”

Þetta hugsaði gamli maðurinn sem gekk fram hjá hálfkláraða húsi unga
mannsins. Hann hafði verið í sínum daglega göngutúr sér til heilsubótar og
settist við bekk á göngustígnum og horfði á unga manninn strita við að
byggja húsið sitt. Kvöldgolan bærði varla á sér þar sem hún andaði létt á
litlu hríslurnar sem bærðust sín hvorum megin hússins og teygðu rætur sínar
ofan í ungu moldina. Gamli maðurinn tók af sér hattinn og lagði hann við
hlið sér. Það var ekki enn þá kominn skalli á höfuð hans þrátt fyrir
fjöldamörg ár sem háraliturinn gaf til kynna. Ungi maðurinn var önnum kafinn

að bera spýtur til og frá, nagla og skrúfur. Hann var rjóður í andlitinu með

sitt rauða hár sem virtist speglast í sólskininu. Stöku mávur virtist
slæðast inn til þeirra tvemenninganna eins og hann hefði villst af sjónum og

brugðið sér inn í borgina. Gamli maðurinn sat og horfði. Hann horfði lengi,
og þegar fólk labbaði fram hjá virtist hann vera óánægður með það, því hann
reigði og beygði höfuðið til og frá til að láta fólki vera sem minnst fyrir
sér. Þegar strætið fylltist skyndilega af fólki sem kom úr strætisvagni stóð

hann upp og gekk rólega en ákveðið yfir stíginn í gegnum mannþröngina og að
unga manninum. Þá hafði hann tekið sér stutt hlé og hafði sest á lítinn koll

sem stóð inn í, að því er virtist, ókláruðu eldhúsi. Við hliðina á honum lá
vaskur sem átti eftir að setja í eldhúsinnréttinguna.

,,Gróðursettir þú þessar hríslur?”

_______________________________________________________ __________

,,Gróðisetti ég...?" hváði ungi maðurinn, dálítið undraandi.
Brýrnar á þeim gamla síga og honum virðist renna í skap. Augnráðið skýtur
þeim hinum yngra skelk í bringu.
,,Afsakið... ég get verið dálítið viðutan en... varstu að tala við mig?"
afsakar hann sig fimlega og vonar að hann hafi ekki móðgað neinn. Það er svo
auðvelt að móðga fólk óviljandi.
Enn þegir öldungurinn og situr þrjósklega við sinn keip, hvaða keipur sem
það nú var.
Pilturinn gefst upp og ákveður að svara spurningu þeirri sem honum heyrðist
manninn spyrja sig.
,,Nei," segir hann stuttaralega.
,,Nei?" tautar gamli maðurinn loksins, lítur sér í barm og spyr svo til
nafns.
Stráksi stendur upp af kollinu og hallar sér uppað trönu. Áhugi hans var
kviknaður; hver væri eiginlega þessi maður. ,,Jónatan" svarar Jónatan
snaggaralega.
,,Jónatan" þylur sá gamli upp eftir honum, ,, þú hefur þá ekki gróðursett
þessi tré sjálfur, Jónatan?"
,,Nei, þau voru hérna á lóðinni áður en ég byrjaði að byggja. Mjög falleg
reyndar. Ég hafði ákveðið að láta þau eiga sig, þau eiga eftir að sóma sér vel
við húsvegginn minn seinna meir," segir strákur drýldin.
,,Voru þau hérna áður? Núnú, jájá." segir maðurinn gamli hugsi, ,,það þykir
mér nú samt skrýtið, finnst þér það ekki skrýtið?"
,,Nú? Af hverju er það skrýtið?" spyr Jónatan undrandi.
,,Nei, kannski er það ekkert skrýtið," dæsir sá gamli, ,,Bara, að þetta
skuli að hafa verið svona hérna áður en þú byrjaðir að byggja, mér þykir það
undarlegt. Það verð ég að viðurkenna. Altso að þetta hafi verið svona frá
náttúrunar hendi. hmmm."
,,Allt frá náttúrunnar hendi," segir Jónatan og brosir, ,,ekkert feik hér."
,,Er það?" spyr þá gamli maðurinn og lítur í fyrsta skiptið í augun á
honum. ,,Er það virkilega?"
Efir örlitla þögn tekur hann upp þráðin aftur: ,,Þessi auði flötur hefur þá
bara alltaf verið hérna í heiðinni, rétt útfyrir bæjarjaðrinum, með trjáhríslum
og allt," segir sá gamli, ,,allt frá náttúrunar hendi." Hann brosir á
óviðfelldin hátt svo skín í ónýtar tennurnar.
,,Jább, það skilst mér," segir Jónatan.
,,Allt frá náttúrunnar hendi," tuldrar sá gamli íbygginn og virðist vera að
hugsa um eitthvað annað. ,,Fyrirtaks byggingarland vænti ég þá, þú hefur ekki
einu sinni þurft að skipta um jarðveg."
,,Aldeilis ekki,jarðvegurinn var fullkominn fyrir mig til þess að byrja bara
að byggja, þá og þegar! Þú getur rétt ímyndað þér hvað það hefur sparar mikið,"
segir Jónatan ánægður og brosir sínu breiðasta.
,,Frá náttúrunnar hendi meiraðsegja? Þú hlýtur að hafa sparað talsvert."
segir sá gamli, ,,það er aldeilis ágætt!, Gaman þegar náttúran léttir svona
undir með manni. hehe. ÉG sé hana alveg í anda. Stritandi í mörg ár. Skiptandi
um jarðveg. Sléttandi út hóla og hæðir. Allt fyrir þig. Allt til þess að þú
getir sparað! já, aldeilis ódýrt allt saman. haha."
Jónatani líkaði ekki við róminn í röddu þess gamla. Hann skildi allt e inu
að líkast til hafði hann hér rambað á einhvern sjúkling sem átti heima á hæli.
Óþægileg tilfinning greip um hann og hann var langt frá vþía ð vera tilbúinn
til þess að takst á við einhvern ólukkumann, ónei, það var til fólk á fullum
launum við að gera það.
,,Heyrðu manni... Nú þarf ég aftur að bretta upp ermar og fara að vinna, ef
mér ætlar einhverntíman að takast að klára þetta, hehe." færist hinn ungi
Jónatan undan vandræðilega. Hann vissi ekki einu sinni hvað hann hét.
Sá gamli glotti en sagði ekki neitt. Varfærnislega sneri Jóntan sér við og
gekk til vinnu þegar hann sá að hann fengi ekkert svar.
,,Ég var hvort sem er að fara annars, hvortsemer." kallar þá maðurinn á
eftir honum. Jóntan lítur við og sér að hann er farinn að staulast í burtu og
virðist æpa úr einsmanns hljóði, ,,Eitt máttu vita, ungi vinur... Jónatan,
þessar fallegu hríslur þínar... þær eru allar dauðar."
Maðurinn gamli var kominn úr kallfæri svo Jóntan átti bágt með að spyrja
hann hvað hann ætti við með þessari undarlegu athugasemd. En þegar Jóntani
verður litið upp að mótunum að húsveggnum þar sem hríslurnar hann lágu varð
honum bylt við.
Ekki það að gamli maðurinn hafði haft rétt fyrir sér. Þær voru alls ekki
allar dauðar, ekki nema fimm af þessum sex sem höfðu fáeinum andartökum fyrr
verið fullfrískar lágu þarna úr sér gengnar.
Þetta kom illilega við Jónatan. Hann lítur á gamla manninn og sér hann
handan götunar klifrandi upp í strætisvagn. ,,Bíddu!" kallar hann á eftir honum
en þegar það er greinilega vonlaust þá tekur hann á sprett í átt að vagninum.


Um leið og dyrnar lokast klessist Jónatan upp við hurðina. Hann öskrar á strætóbílstjórann að opna en hann virðist hann ekki viðlits og keyrir burt.
Jónatan stendur eftir, gjörsamlega gáttaður. Af hverju hlýddi strætóbílstjórinn ekki? Af hverju dóu þessar hríslur, og hver í ósköpunum var þessi gamli maður? Jónatan klípur fast í handlegginn á sér. Hann hlýtur að vera að dreyma! Svona lagað gerist aðeins í bíómyndum og lélegum smásögum.

Hann snýr við og lötrar hægt í átt að húsinu sínu tilvonandi. Stendur með opinn munninn, gónir á dauðu hríslurnar, steypuhrærivélina, skóflur og moldarhrúgur rétt eins og þær hafi verið galdraðar á svæðið. Snýr sér síðan við og horfir á bekkinn þar sem gamli maðurinn sat, götuna þar sem strætisvagninn keyrði næstum því á hann eins og hann væri ósýnilegur og síðan á endalaust hafið. Sólin hafði nær lokið ferð sinni um himinfestinguna og var óðum að síga í sæ.
Hvað átti hann að gera? Ekki gat hann farið til lögreglunnar og sagst hafa fengið ókunnugan mann í garðinn til sín sem hafi drepið plönturnar hans með augnaráðinu einu saman? Ekki gat hann sagt konunni sinni heldur þessa lygasögu. Hann varð að taka þessar hríslur upp og gróðursetja nýjar í staðinn.
Með hjólbörur og skóflu að vopni var hann búinn að taka upp tvær af þessum dauðu trjáhríslum eftir um það bil kortér. Ræturnar í þeim voru mjúkar eins og þær hefðu verið dauðar í marga daga. Moldin í kringum plöntuna var laflaus og þess vegna létt verk og löðurmannlegt að taka þær upp. Honum brá nokkuð í brún þegar konan hans kom skyndilega að honum er hann var að setja þriðju plöntuna í kerru aftan í bílnum sínum.
,,Hvað ertu eiginlega að gera? Af hverju eru þessar plöntur dauðar? Hvert ætlarðu að fara með þær? Hvað er með þessa einu plöntu sem er enn þá lifandi?”
Spurningaflóðið dundi á honum eins og það vatn sem féll á Faraó og menn hans eftir að Móses hafði komist heilu og höldnu á land. Hann hafði engin svör. Skáldaði einhverja lélega fléttu á staðnum.
,,Sko, bara núna í morgun þegar ég kom hingað voru þær allar svona. Nema þessi lifandi,” sagði hann vandræðalega, gróf fingurna í þykka, rauða hárlubbann og klóraði sér. Vafði hárinu einn til tvo hringi um fingurna eins og hann væri að spinna konuna sína í einhvern lygavef. Hún tók að sjálfsögðu eftir því.
,,Jónatan minn…þetta þýðir ekkert. Hvað gerðist?! Af hverju varstu þá ekki búinn að fjarlægja þessar plöntur strax í morgun?”
Jónatan sér skyndilega næsta strætisvagn beygja fyrir hornið og aka inn götuna. ,,Ég verð að fara, núna,” segir hann og hleypur frá húsinu sínu hálfkláruðu, hríslunum í kerrunni, skóflunni og að sjálfsögðu konunni sinni, alveg gáttaðri. Hún verður stórundarleg á svipinn og kallar síðan ,,Jónatan!!!” eins hátt og hún gat á eftir honum. Jónatan heyrir aðeins fyrsta hlutann af nafninu sínu því hann hljóp í strætisvagninn eins og spretthlaupararnir gera í sjónvarpinu. Eftir að hafa tæmt vasana ofan í baukinn sest hann í fyrsta sætið sem hann sér.

Þá byrjar hann að hugsa.

Mikið dómadags fífl gat hann verið. Hvað var í gangi? Var þetta kannski gamli maðurinn að stjórna honum? ,,Þetta er alger vitleysa,” hugsaði hann með sér. ,,Ekki á ég eftir að finna þennan gamla vitleysing í strætisvagninum á eftir þeim sem hann er í. Hann hlýtur að vera langt á undan mér, nú eða löngu kominn úr vagninum og hefur farið í einhverja aðra garða til að hrella eigendurna.
Hann klípur aftur í handlegginn til þess að vera örugglega viss um að hann sé að dreyma.
Hann finnur enga tilfinningu. Jónatan glennir upp augun í undrun sinni. Hann klípur aftur. Í handlegginn, fótinn, eyrun…hvar sem er! Hann prófar að lemja hendinni í rúðuna á strætisvagninum. Hann finnur enga tilfinningu. Var hann að dreyma?!
,,Getur ekki verið!” hugsar hann, beygir sig aftur ofan í sætið og lætur sem hann hafi verið að vinka einhverjum úti á götu þegar hann bankaði í rúðuna.
Samt bærist einhver undarleg tilfinning með honum.

Stendur upp. Skimar í kringum sig, það eru frekar fáir í vagninum. Gengur fremst og spyr strætóbílstjórann hvað klukkan sé.

,,Klukkan er tíu mínútur yfir fjögur.” Ansar hann stuttaralega. Þegar Jónatan lítur síðan framan í hann til að þakka fyrir sig bregður honum í brún. Í staðinn fyrir venjulegan strætóbílstjóra í bláu jakkafötunum og með húfuna sem flestir muna svo vel úr æsku er kominn feit górilla. Hversu fáránlegt sem það virðist, þá er hún að keyra strætisvagninn. Jónatan klípur sig í handlegginn og síðan górilluna.
,,Finnurðu nokkuð til þegar ég klíp þig? Ef svo er ekki þá gæti þig verið að dreyma mig. En ég veit það ekki….þetta er búið að vera frekar erfiður dagur hjá mér…” segir Jónatan við górilluna.
Hún verður jafnundrandi á svipinn og górillu frekast er unnt. ,,Tíu mínútur yfir fjögur. Takk fyrir. Ætlar þú út hér?” spyr górillan, stöðvar vagninn og opnar dyrnar. ,,Gjörðu svo vel, farðu nú hérna út. Vertu sæll,” bætir hún svo við að skilnaði.
Jónatan flýtir sér út. Það er ekki skynsamlegt að gera górillu reiða, sérstaklega ekki þegar hún er aðeins að reyna að sinna skyldum sínum.
Nú verður hann alveg kolruglaður. Hann hlýtur að vera að dreyma! Jónatan gerir nokkrar tilraunir til að fljúga. Eftir fáein skipti tekst honum það. Hann svífur hátt upp í loftið, sér gula strætisvagninn keyra í burtu með górilluna innanborðs sem stýrir henni af festu og færni og horfir yfir litlu húsin í Þingholtunum. Gluggarnir senda frá sér birtu af sólinni sem er að setjast bak við hann svo hann svíður í augun. Hann er að dreyma…hann er að dreyma! Og þó. Hver veit nema hann gæti verið tilbúningur…?
Hann lítur niður á gangstéttina. Þar er enginn annar en gamli maðurinn sem fyrr um daginn hafði eyðilagt framtíð hans ganga eftir götunni. Það hlýtur að vera hann og engin annar. Hatturinn á höfði hans…stafurinn…

Jónatan þýtur niður á jörðina eins fljótt og hann gat. Fær sviðaverk í tærnar þegar fæturnir skellast með nokkrum þunga á gangstéttina fáeinum metrum fyrir framan gamla manninn. Hann lítur upp, hafði greinilega verið í þungum þönkum og segir: ,,Jónatan minn…konan þín er dáin.”
Jónatan brosir og hefur sig aftur á loft. Það eru margir þræðir sem stjórna lífi manns, hugsar hann með sér um leið og hann heldur af stað í áttina að Perlunni.

|