.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

1. kafli
Þetta dýr var gjörsamlega tryllt. Teitur horfði í augun á hestinum sem hafði skyndilega breyst í einhvern forvera sinn með svo ýkt flóttaeðli að það jaðraði við brjálun.

“Svooona já, svooona kallinn...róólegur...”

Hann mjakaðist hægt og hægt í áttina að hestinum sem var farinn að anda svo ört að andardrátturinn hefði ábyggilega heyrst út fyrir gerðið. Á þessu stigi var hesturinn hættur að krafsa í jörðina heldur var frosinn í sporunum og Teitur vissi, af sumarlangri hestareynslu sinni, að skyndilega myndi hann rjúka af stað í tilviljunarkennda átt og þess vegna reyna að stökkva yfir gerðisrimlana ef hann myndi þá ekki fyrr hlaupa eins og brjálæðingur á þá.

Sólinni var núna byrjuð að halla í vesturátt og bráðum myndi hún síga niður fyrir stóra hólinn fyrir aftan bæinn. Það var svo heitt í veðri að fnykurinn frá hrossaskítnum var farinn að magnast all verulega upp. Í sömu andrá og Teitur saug upp í nefið fetaði hesturinn eitt skref aftur á bak og steig í mjúkan hrossaskít sem var alsettur flugum. Afturhófurinn á honum rann örlítið til og hesturinn, í brjálsemi sinni, hélt skyndilega að einhver væri fyrir aftan hann og spyrnti afturfótunum eins fast og hann gat í rimlana bak við sig og stökk yfir einhvern ímyndaðan vegg. Eftir að hafa lent á þremur fótum langt frá girðingunni tók hann á rás og þaut eins og píla í hitt hornið á gerðinu.

Teitur fraus í sömu andrá og hesturinn tók þetta æðiskast. Hann var heppinn þarna að fá ekki þetta dýr yfir sig, því þótt hann vissi ekki af eigin reynslu hvernig það væri þá gat hann rétt ímyndað sér það. Nú kom bóndinn út úr bæjardyrunum og horfði álengdar á Teit þar sem hann nálgaðist hitt hornið með sömu varfærni og fyrr. Bóndinn brosti út í annað. Strákurinn sem hann hafði fengið til sín um vorið hafði verið frekar óöruggur með sig þegar kom að dýrum. En eftir tveggja mánað dvöl á bænum var hann orðinn hinn harðasti nagli, sem betur fer þó ekki um of. Þarna stóð hann í grútskítugri Adidas peysu og með kaðalspotta í hendinni þar sem hann mjakaði sér nær hestinum.

Bóndinn tók sveig í kringum gerðið og smeygði sér gegnum rimlana hinum megin við hornið þar sem hesturinn og Teitur voru. Teitur heyrði í léttu fótatakinu í mölinni bak við hann og færði sig örlítið til vinstri meðan bóndinn fyllti í skarðið hægra megin. Núna hlutu þeir að ná hestinum. Hann var farinn að gefa sig örlítið eins og heyrðist á andardrættinum og hann sveiflaði taglinu ekki eins fýlulega og áður.
Bóndinn var líka þrælvanur hestum, enda hafði hann umgengist þessar skepnur alla sína fimm áratugi. Þegar Teitur leit á bóndann var sólin komin svo langt niður að hann blindaðist eitt augnablik. Hesturinn skynjaði um leið að Teitur var ekki með athyglina nógu mikið að honum svo hann lét reyna á það. Með gífurlegu stökki spyrnti hann sér upp, upp á við eins langt og hann komst. Teitur náði sem betur fer að beygja sig niður þegar þetta tígulega dýr stökk eins og sýningarhestur yfir hann og lendingin var óaðfinnanleg í þetta skiptið.

Bóndinn hló við. ,,Já, þeir geta verið kaldir á því sumir hérna. En þetta hef ég aldrei séð áður.” Hann tók pottlokið af sér og klóraði sér í hnakkanum með sömu hendi. “Þegar við verðum búnir að ná helvítinu skaltu fá að sitja hann. Guðmundur á Gjábakka sagði mér að þetta væri prýðis gæðingur.”

Eftir langan eltingarleik náðu þeir hrossinu loksins. Aldrei hafði Teitur verið svona lengi með einn hest. Hann var svo þrjóskur að undir lokin voru þeir báðir við að gefast upp. Þessa tvo mánuði sem hann hafði dvalið í sveitinni hafði hann oft margfurðað sig á því hvers vegna sum dýr væru svo mannfælin þrátt fyrir að hafa umgengist menn nær allt sitt líf.

Þarna stóð hann í kvöldsólinni, tygjaður og tilbúinn til reiðferðar. Það glampaði á móbrúna faxið og stangamélin(sem flestir nema bóndinn voru hættir að nota), en hnakkurinn hefði mátt muna fífil sinn fegurri. Þegar Teitur var að herða gjörðina undir kviðnum á hestinum slitnaði önnur ólin af tveimur, sem gerði hnakkinn örlítið lausari að framan.

“Hvert á ég svo að ríða?” spurði Teitur eins og asni.
“Ha humm..ætli þú farir ekki bara gjábakkann eins og venjulega...?”

Það var og. Að sjálfsögðu átti hann að fara gjábakkann. Hann hefði getað sagt sér það sjálfur. Langt því frá að gjábakkinn væri leiðinlegt útreiðarsvæði, heldur var hann smeykur við hestinn.

Smeykur við hestinn?! “Teitur þó, hristu þessa flugu úr hausnum á þér!” flaug í gegnum huga hans um leið og hann sveiflaði sér á bak. Honum til nokkurrar furðu hreyfðist hesturinn ekki úr sporunum og gerði engar athugasemdir við þessa harkalegu uppáferð, heldur stóð hann grafkyrr eins og steinn. Eða gjábakki.
Skömmu síðar lokaði hann ræfilslega hliðinu sem skildi að túnið og gjábakkasvæðið. Gjábakki var svæði sem var nokkurs konar millistig milli bóndabæjarins og heiðinnar þar sem afréttin var. Þarna var gjá sem Gjábakkaá hafði mótað í þúsundir ára. Þetta var nokkuð þekkt svæði fyrir víkingabardaga sem átti að hafa gerst á landnámsöldinni. Teitur leit yfir svæðið og velti því fyrir sér hvar þessi bardagi kynni að hafa átt sér stað.

Brátt var hann kominn á fljúgandi ferð á hestinum. Það var rétt sem bóndinn hafði sagt, þetta var töluverður gæðingur þegar maður hafði komist á góða ferð. Hann tölti mjúklega eftir litla moldarstígnum sem lá í hlykkjum meðfram gilbakkanum. Þegar stígurinn lá í óvenjulega stórum sveig að brúninni stóðst Teitur ekki mátið og hallaði sér til vinstri til að kíkja ofan í gilið. Það kom honum á óvart hvað gilið var strax orðið djúpt og bratt þrátt fyrir að hann væri enn þá svona nærri bænum.
Núna var hann búinn að reyna töltið á hestinum og þá var kominn tími fyrir aðeins meiri hasar. Teitur kitlaði kviðinn á hestinum létt með skónum og hann brást við samstundis með því að geysast áfram á stökki. Teitur bjóst ekki við þessu. Að sjálfsögðu hélt hann sér þó á baki og missti enga sæmd þótt hann væri farinn að þjóta áfram eftir stígnum eins og fjandinn sjálfur hengi í taglinu. Núna ætlaði Teitur að hægja aðeins á ferðinni og tók ákveðið í taumana.
Hesturinn hreyfði engum mótmælum.
Teitur togaði fastar og fastar en hesturinn var samur við sig og neitaði að hægja ferðina. Þess í stað herti hann á sér og var kominn á blússandi ferð suður eftir bökkunum. Teitur horfði niður á jörðina og fannst hún vera farin að svima undan sér. Hæðirnar hægra megin við hann fjarlægðust hann smám saman og aumingja strákurinn sá sér engra kosta völ en að halda sér á baki og vona að þessi þeysireið tæki enda.

Moldarstígurinn hélt áfram að hlykkjast lengra og lengra upp með gilbarminum. Nú fóru að birtast steinar rétt utan í götunni sem fóru sífellt stækkandi eftir því sem lengra dró, enda fór gróðurinn minnkandi eftir því sem Teitur flaug ofar á heiðina. Hann var núna farinn að hugsa heim til Reykjavíkur, heim í herbergið sitt og tölvuna sína, strætisvagnana sem keyrðu um götur borgarinnar og lyktina á bensínstöðinni þar sem hann vann. Hann langaði svo heim á þessu augnabliki að þegar hann var rétt nýkominn inn í þessa fáránlegu dagdrauma sína tók hesturinn of krappa beygju, skrikaði fótur á hálum steini og hestur og knapi þeyttust með ógnarhraða niður í gilið.2. kafliÍ fyrstu sá hann svart, bara svart hvert sem hann reyndi að sjá. Hann mundi heldur ekki neitt og var algerlega út úr heiminum.

Smám saman fóru hin og þessi myndbrot að fljóta upp á yfirborðið. Hann fékk gæsahúð þegar hann sá jörðina koma æðandi á móti sér í annað skiptið, reyndi að öskra en hann gat það ekki.

Alvöru gæsahúðin kom þegar hann gerði sér grein fyrir hvernig á var statt með honum. Hann hafði hrapað niður í ógnardjúpa gilið. Núna fór hann líka að heyra. Það var eins og skrúfað hefði verið fyrir risa stóran krana því þungur árniður tróð sér inn í eyru hans og fyllti allar hugsanirnar. Hann var að drukkna andlega.

Teitur hafði lesið sér til um þetta í símaskránni. Ef hann vissi ekki hvernig hann væri á sig líkamlega kominn átti maður fyrst að anda djúpt og reyna að fá ekki lost. Honum var ekkert kalt, sem betur fer, heldur var einhver varmahjúpur utan um hann. Hann reyndi þá að kreppa tærnar.
Það gekk ekki. Hvernig sem hann reyndi þá gat hann ekki kreppt eina einustu tá. Hugareldingu laust niður í heila hans, gæti hann verið lamaður? Af einhverri eðlisávísun kreppti hann fótinn þegar hann fann sting í fætinum. Hann gat alveg kreppt fæturna sundur og saman að vild...?
Hendurnar líka, ekkert mál. Vandinn var að fingurnir voru gjörsamlega lamaðir, hvernig sem á því stóð. Hafði hann einhvern veginn slegist í jörðina þannig að ystu útlimirnir höfðu lamast?
Loksins þorði hann að opna augun. Það var gjörsamlega dimmt og sú staðreynd magnaði enn frekar árniðinn í eyrum hans. Hann hafði greinilega legið einhverja klukkutíma í algeru roti.
Nú fór hann að fá tilfinningar í kroppinn hægt og hægt. Hann fann fyrir óþægilegum aðskotahlut stingast inn í hliðina á honum, og hann ætlaði að velta sér á hina hliðina til að losna undan henni. Það gekk frekar illa. Líkaminn var einhvern veginn svo þungur og klunnalegur að hann átti gífurlega erfitt með það. Eftir að hafa hreyft alla þá útlimi sem hann gat mögulega hreyft fram og til baka gerði hann lokatilraun og náði þá loksins að velta sér með erfiðismunum. En það var eitthvað sem stakk hann líka á sama stað hinum megin!
Og þvílíkur hálsrígur! Var virkilega í lagi með alla útlimi ef hann gat ekki hreyft hálsinn?
Nokkrar mínútur liðu og kolsvarta myrkrið fór að blána hægt og hægt fyrir augunum á Teiti. Það er að segja, öðrum megin. Sjónin á mér hefur skaddast verulega illa, hugsaði hann með sér, að minnsta kosti á öðru auganu.

Eftir að hafa athugað flesta hluti líkamans ákvað hann að standa upp, þrátt fyrir að sumir útlimir væru gjörsamlega út úr heiminum. Hann rembdist og rembdist eins og hann gat með lokuð augun og fyrir einhverja eðlisávísun hélt hann fullkomlegu jafnvægi þannig að hann gat staðið upp eftir að hafa liðkað útlimina enn frekar.

Mikið var hann lítill! Jörðin var svo nálægt honum...hef ég minnkað?

Hann leit niður fyrir sig og sá engar tær. Horfði aftur fyrir sig og þá gerðist það.

Hann sá afturbúk á hesti. Teitur sneri sér eldsnöggt við svo hesturinn færi ekki aftan á hann og træði hann niður, en þá hvarf búkurinn snögglega. Hann pírði augun og horfði í norðurátt á ána sem streymdi niður af þungum krafti, en hann sá aðeins örstutt frá sér.
Teitur leit aftur fyrir sig þegar hann heyrði brak í mölinni um það bil metra fyrir aftan sig. Hann sá aftur þennan búk.

Núna kom þriðja gæsahúðin. Teitur ætlaði ekki að trúa þessu þrátt fyrir allt það skrýtna sem hafði hent hann frá því hann vaknaði úr rotinu. Hann hafði breyst í hest.

Þetta var of fáránlegt til að trúa því. Hann hlaut að vera að dreyma. Verst að hann gat ekki klipið í “hendina” á sér með þessum asnalegu hófum. Og hvað hann klæjaði! Reyndi að hrista sig eins og hestar gera stundum. Það tókst eftir nokkrar tilraunir, og um leið og hann naut þess að láta kláðann hverfa klingdi í einhverju við hliðar hans. Það voru ístöðin sem héngu samviskusamlega við reiðtygin sem enn þá voru föst við búkinn á honum.
Eftir að hafa tekið svolítinn tíma til að jafna sig, velta af sér reiðtygin og koma fyrir sér áttum tók eðlisávísunin við. Hann byrjaði að skokka niður með ánni, heim á leið, í rólegheitunum. Það var ótrúlega skrýtið að hlaupa og feta, þetta var eins og að læra að ganga á ný. Brátt var hann þó kominn með flestar gangtegundir fyrir utan skeið(sem hann treysti sér ekki til að reyna þarna í grjótinu).

Áin skipti sér og rann saman á víxl og Teitur óskaði þess með hálfum huga að það væri orðið bjart svo hann gæti séð allar stórfenglegu bergmyndanirnar sem höfðu myndast í klettahömrunum beggja megin við ána. Hálsrígurinn var farinn að batna auk þess sem hann var farinn að venjast því að geta stigið ofan í polla og farið yfir litlar lænur þar sem áin kvíslaðist út úr sjálfri sér hér og þar án þess að vera hræddur við að blotna og verða kalt. Það var í sjálfu sér þægilegt að hafa hár utan um sig allan sem verndaði mann án þess að maður þurfti að hafa einhverjar áhyggjur af því hvort maður væri nógu vel klæddur eða ekki.
Samt var þetta fáránlegt! Fyrst að hann hafði breyst í hest, hafði þá hesturinn breyst í hann? Hvernig gat þetta átt sér stað?
Hann hoppaði létt yfir litla lækjarlænu sem streymdi frá einum álnum og yfir í annan. Þegar hann hafði lent og hafði skokkað nokkra metra áfram, sá hann hann.

Hann lá á grúfu ofan í mölinni. Neðri helminurinn var ofan í ánni og annar handleggurinn hafði lemstrast svo mikið að höndin sneri öfug miðað við hvernig olnboginn var beygður.
Fötin höfðu tæst í sundur og rifnað og hann hafði greinilega rekið niður ána þessa nokkur hundruð metra og líkið staðnæmst þarna. Teitur horfði á sjálfan sig í eigin persónu, dáinn. Dauður eins og steinn, eins og risastór snigill sem hafði gefist upp við að skríða yfir hraðbrautina og velt sér á bakið og beðið eftir því að keyrt yrði yfir hann svo æfi hans lyki.
Teitur dró í sig kjark til að fara alveg upp að líkinu og hnusa af því með snoppunni. Líkið var orðið ískalt og Teitur lokaði augunum, sneri sér burt og hélt áfram. Hvernig sem hann reyndi náði hann ekki að koma þessari hryllilegu mynd úr huga sínum.

Hægt en bítandi klifraði hann upp malarbrekkuna sem leiddi síðan upp á gilbarminn. Hann var kominn að enda gilsins. Hérna hafði áin breitt verulega úr sér og gilveggirnir höfðu breyst í nokkurs konar bratta sem voru alsettir lausri mold og möl. Nú hafði birtan skipt um lit og orðin ljósrauð og það glampaði einkennilega á árflötinn. Grasið var líka miklu grænna en áður og mun mýkra og ljósara en Teitur hafði séð áður..
Teitur fetaði rólega hlykkjótta moldarstíginn sem líkaminn sem hann var fastur í hafði áður borið hann kvöldið áður. Hann þóttist sjá hófför eftir hans “eigin” hófa hér og þar í moldinni þar sem hún var blautust eftir næturdöggina. Sneri sér við og mátaði. Jú jú, þetta var nákvæmlega sama stærð og gerð og hófarnir hans voru.

Brátt var hann kominn að bænum. Hann þyrfti að flýta sér að bóndanum eða einhverju fólki til að láta það vita hvað hafði gerst.
Bóndinn stóð í dyragættinni og gáði til veðurs. Teitur kom á harðastökki inn á bæjarplanið, rann örlítið til á mölinni og var næstum því búinn að rekast á bílinn hans. Hann frýsaði hátt og opnaði munninn til að segja bóndanum þessa merkilegu atburði, en ekkert einasta hljóð kom upp úr honum nema ýlfur sem líktist helst veikburða folaldajarmi. Bóndinn horfði hastarlega á Teit sem hélt áfram að jarma eins og lítið lamb og vissi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið, sem hann virtist jú vera að gá að. Og ekki bætti úr skák að sömuleiðis byrjaði að rigna eins og hellt væri úr öllum flóðgáttum himinsins.

Þarna stóðu þeir, bóndinn og Teitur á bæjarplaninu, báðir rennblautir. Teitur var farinn að gera sér betur grein fyrir því hvers konar hljóð kæmu upp úr honum og þagði núna skömmustulegur.

Bóndinn virtist skyndilega gera sér grein fyrir hvað væri um að vera. Hann gekk rólega niður tröppurnar án þess að taka augun af Teiti og virtist ekki taka eftir pollinum sem hann steig í á leið sinni út að gerðinu. Með yfirvegun opnaði hann hliðið að gerðinu og fór inn í hesthúsið að ná í brauðpoka.
Teitur vissi hins vegar ekkert hvað bóndinn ætlaði sér. Hann hljóp inn í gerðið, reyndi að hneggja aftur(með tilheyrandi jarmi) og þegar hann ætlaði inn í hesthúsið kom bóndinn stormandi á móti honum, skaust til hliðar við Teit og lokaði gerðinu.
,,Svooona kallinn minn...svona já. Rólegur bara, rólegur...jæja svo þú ert svona fákur já. Hendir knapanum af þér, rífur af þér reiðtygin og hendist svo til baka að fá brauð...þú færð sko ekki snifsi af því núna...þú endar í sláturhúsinu góði...svona já...”
Teitur byrjaði að anda ört. Bóndinn sá að hann var frosinn í sporunum og líklegur til að rjúka á hann hvenær sem var. Teitur horfði með einbeitingu á gerðisrimlana fyrir aftan bóndann. Ef hann gæti bara fengið aðeins lengra tilhlaup...
Bóndinn sætti lagi og með leiftursnöggri hreyfingu skellti hann stallmúl á Teit sem var í þann mund að stökkva. Hann braust um á hæl og hnakka en gerði sér um leið grein fyrir hvað máttur hestsins var lítill í hálsinum. Bóndinn hafði fullkomna stjórn á Teiti um leið og hann dró hann í drullunni inn í hesthús, skutlaði honum inn í rammgerðan bás og skellti í lás.
,,Þú færð sko heimsókn frá slátraranum á morgun, helvítið þitt,” sagði hann hastarlega við Teit um leið og hann slökkti ljósin og gekk út í ausandi rigninguna.

Inni í myrkrinu stóð agndofa lítill foli, nötrandi af skelfingu. Hann hafði ekki gert neitt.

|