.

mánudagur, mars 22, 2004

Framhaldssaga

Ég hef ákveðið að birta hér byrjun að sögu, sem þið getið síðan haldið áfram með í commenta-kerfinu. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir besta hlutann!

---
Klukkan er átta.
Ljósin kvikna eitt af öðru í steinhúsinu sem hýsir Alþingi. Fyrst fara leiftursnöggar rafeindir í ljósaperurnar á veggnum í teppalagða og ríkmannlega anddyrinu, síðan einar af annarri í vinstri hluta byggingarinnar. Síðan, míkrósekúndu síðar, kviknar ljós í fatahenginu, svo salerni þingmanna, þvínæst í ljósakrónu sem var keypt á nauðungaruppboði í Prag fyrir morðfjár í setustofunni þar sem alþingismenn ganga þungbúnir og hafa áhyggjur. Síðan leita rafeindirnar með stjarnfræðilegum hraða upp með veggnum og á efri hæðina. Þar kviknar ljós í herbergi þingfréttaritara, fundarherbergjum flokkanna einum af öðrum(sjálfstæðisflokknum fyrst), kringlunni þar sem sjónvarpsviðtölin eru tekin og síðustu og lötustu rafeindirnar koma sér þægilega fyrir í lítilli ljósaperu fyrir ofan sæti forseta Alþingis.
Þá er það upptalið. Alþingishúsið hefur vaknað til lífsins enn einn daginn í rúmrar aldar langri sögu þess. Það er útlit fyrir atgangsharðan dag, í gær voru harðar deilur og kaldir bardagar háðir með augnaráðum, duldum skilaboðum og skinhelgi. Úti er hins vegar kuldinn sem ræður ríkjum. Það getur haft sína ókosti að vera í steinhúsi þótt ætíð sé hugsað vel um alþingismennina og hvergi sparað til við kyndinguna.
Guðmundur Ásgrímsson er fyrsti alþingismaðurinn á staðinn. Nýbyrjaður sem einn slíkur, er hann örlítið taugaspenntur og þess vegna mætir hann tímanlega, svo enginn geti litið útundan sér á hann og hugsað: “Æ þessi þarna, hann mætti kannski aðeins passa upp á tímasetningarnar hjá sér...þessir nýgræðingar eru svo saklausir, greyin.”
Nei, þannig vill hann ekki láta tala um sig. Þess í stað tekur hann upp greiðu innan úr jakkavasanum sem fylgdi með frá Sævari Karli og greiðir hárið sitt. Örlítið yfir miðjuna á kollinum þar sem það er tekið að þynnast; þótt menn séu nýbyrjaðir á þingi er leiðin þangað alsett hrukkum og gráum hárum.
Guðmundur stendur lengi og horfir á litlu gylltu klukkuna sem stendur fagurlega skreytt í gluggakistunni í setustofunni. Hún er þakin flúruðum mynstrum og skrauti og tímaskífan og vísarnir eru í raun algert aukaatriði. Hann heyrir útundan sér að alþingismenn- og konur eru byrjuð að tínast smám saman inn í salinn sem virðist vera ógnarstór í sjónvarpinu en er í raun agnarsmár þegar í hann er komið. Lágur kliður byrjar að myndast með tímanum þegar þingmenn byrja að ræða saman í hálfum hljóðum um málefni gærdagsins og komandi atburði og einn þingmaður tekur upp hláturrokur hvað eftir annað. Hann er farinn að þekkja suma ágætlega og kann til að mynda afar vel við þann sem hlær þessum hrossahlátri. Digur maður á velli en ber sig þó virðulega, meira að segja yngri en Guðmundur sjálfur. Hann hálf gægist inn í þingsalinn og fylgist með þegar örklíkur byrja að myndast og fólk ræðir saman. Skyndilega lítur einhver í áttina til hans og Guðmundur finnur hvernig hann hörfar ósjálfrátt inn.
Hvers vegna líður honum enn þá svona utangátta?

Nú eru flestir mættir í þingsalinn. Forseti Alþingis er einnig mættur og stígur virðulega upp tröppurnar og sest niður. Hann biður kurteislega um þögn og að alþingismennirnir setjist í sæti sín.
Enginn hlýðir honum. Umræðurnar sem farnar eru að skapast í litlu klíkunum hafa stigmagnast og á stöku stað eru skoðanaskiptin orðin að rifrildum.

|

fimmtudagur, mars 04, 2004

Úff, ég hef lesið of mikið í Góða dátanum Svejk þessa dagana. Maður er farinn að geta skrifað eins og Jaroslav Hasek:

"Ég þekkti eitt sinn píanóleikara frá Chodounsky héraði rétt fyrir utan Prag að nafni Vedlezka. Hann vildi komast í æðstu stöðu ritara á blaðaskrifstofunni sem hann vann hjá með því að slá öll met í hraðritun á nýju ritvélinni sinni. Þá fór ritstjórinn að kenna honum stafrófið svo hann gæti komið píanóhæfileikum sínum til góðs í starfi og hripað niður á blað heilu doktorsritgerðunum í einu augnabliki með sinni fingrafimi á ritvélina. Nú, svo gekk hvorki né rak í að kenna veslins píanistanum stafrófið. Eftir að hafa komist í gegnum e-ið varð hann alveg kolruglaður og fór með tunglskinssónötuna eftir Beethoven í einum rykk: "Fís dúr As í bassa, crescendo í öðrum takti og dum dum dum dum dum dum..."

Það var ekki fyrr en hann var rekinn frá blaðaskrifstofunni og konan hans fór frá honum sem sálartetrið fór að skána. Í dag hefur þetta gjörbreyst. Fyrrverandi píanósnillingurinn getur farið með stafrófið aftur á bak og áfram í svefni, en getur ekki spilað gamla Nóa á píanó þótt líf hans lægi við."

|