.

föstudagur, apríl 30, 2004

Svarti bókaskápurinn

Ég hef aldrei verið heppinn með val á bókum. Sumt fólk kaupir bækur eingöngu til þess að láta þær safna ryki upp í skáp. Svo þegar það fær gesti í heimsókn geta þeir dást að myndarlegu bókasafni gestgjafans sem teygir sig hátt upp í rjáfur. Þar má finna hverja merkistitlana á fætur öðrum, allar Íslendingasögurnar, Laxness, ljóðasafn Einars Ben og þar fram eftir götunum.
Síðan er til fólk sem virkilega hefur áhuga á bókmenntum og kaupir sér bækur eingöngu til aflestrar. Það er ekki eins gjarnt á að geyma þær uppi í hillu, heldur vilja oft myndast staflar hér og þar um húsið þar sem dyggir lesendur þeirra hafa lagt þær frá sér í flýti til að hræra í pottunum, skipta á barninu nú eða hjóla út á bókasafn til að taka nýja bók.

Ég er aftur á móti sú manngerð sem reyni að líkjast þessum tveimur manngerðum í einu. Eiga stæðilegt safn af bókum um leið og ég þyl upp ljóð eftir Búlgakov í sturtunni og les Grettis sögu fram undir morgun. Því miður er ég hvorugt af þessu. Þær bækur sem til eru á heimilinu er hægt að telja með fingrunum einum saman(og þá er símaskráin talin með). Þeir gestir sem ég fæ dást í staðinn að silfurstellinu sem er ávallt nýpússað og konan geymir glansandi fínt í glerskápnum í stofunni, nú eða leika sér við hundinn(sem gleypir í sig bækur á öðruvísi máta en flestir).

En nú skyldi sko sannarlega vera gerð bragarbót á. Síðastliðinn laugardag strauk ég létt yfir skóna mína og klæddi mig í örlítið betri peysu. Kolaportið er staður sem ég ven komur mínar yfirleitt ekki til, en verð þó að játa að þarna má gera býsna góð kaup. Ég þvældist lengi um á milli sölubásanna, kíkti á stöku bakhliðar á vínylplötuumslögum og keypti lakkrís og hundamat. Síðan tók ég stefnuna á sölubás sem seldi hinar og þessar bækur og þar með talið bókaskápa, smáa sem stóra.
Fyrst varð ég að líta út fyrir að hafa viðamikla þekkingu á heimsbókmenntunum. Ég greip í flýti bækur sem voru eldgamlar og snjáðar og litu út fyrir að vera mjög spennandi og merkilegar. Blaðaði síðan í gulnuðum pappírnum og tautaði eitthvað fyrir munni mér. Sem betur fer náði ég athygli bókasalans því þegar ég leit út undan mér á hann var hann hættur að raða bókum og horfði stundarkorn á mig. Fyrst hélt ég að það væri vegna þess hve bókhneigður maður eins og ég hefði ratað inn í búðina sína sem ætlaði að festa kaup á ótal titlum og þóttist vera að skoða sérstaklega merkilega blaðsíðu í bókinni. Síðan byrjaði ég að lesa nokkrar línur:
“...ef skipt sje á barninu eptir nónbil. Einkum þykir kostlegt að gefa því dúsu vætta í hunangi ellegar tóbaki sje það nærtækt við höndina. Þó er ekki mælt með fínu neftóbaki enda þekkjast dæmi þess að mjólkbrystingar smjatti svo ákaft á því að það festist í þess hálsi og geti valdið köfnun....”

Ég leit í flýti á kápuna. “Um umhirðu og alhliða uppeldi ungabarns” eftir Síra Árna Skaptason, prófast í Dalasýslu. Gefið út 1874. Bókasalinn horfði enn á mig og glotti, hann hefur væntanlega haldið að ég ætlaði að færa út kvíarnar í barneignum og fyrir slysni fengið aðeins úreltar upplýsingar. Tilraun mín til að sýnast vera bókabéus var horfin. Þess í stað vatt ég mér upp að afgreiðslumanninum og kom mér beint að efninu.

,,Hérna, ég var að athuga með svona...”
,,Já?”
,,Já, hvort þú ættir svona bókaskápa. Ég var nefnilega að...erfa mikinn fjölda af titlum hjá föður mínum og þar sem íbúðin mín er hvort eð er orðin öll full af bókum datt mér í hug að fá stærsta bókaskápinn hjá þér?”

Afgreiðslumaðurinn hummaði.

,,Hmm hjámm...þetta er nú sá stærsti sem við eigum,” og benti á flennistórt biksvert ferlíki á bak við sig sem var uppfullt af bókum, ,,ég veit nú samt ekki hvort hann sé til sölu...enda hef ég ekki kíkt í veskið þitt.”
Mér var sama. Þessi skápur fangaði augu mín um leið. Þarna fyrir framan mig stóð lausnin á þessari togstreitu sem hafði bærst innan í mér um að verða alvöru lestrarhestur og getað farið að tjáð mig um bækur á mannsæmandi hátt. Meira að segja ryðgaða falsið á skápnum leit út eins og nýútsprungið vorblóm og gamli lykillinn í skránni var fögur býfluga að ná sér í hunang. Peningamál hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar ég gekk bak við afgreiðsluborðið og strauk létt yfir hillurnar.

,,Ég kaupi hann.”

,,Ekki gleyma hundamatnum!” kallaði afgreiðslumaðurinn (sem stóð nú á kafi í bókum sem höfðu verið í skápnum) þegar ég hugðist keyra heim á leið með tóma bókaskápinn á pallbílnum. Eins gott að ég gleymdi honum ekki, enda hefði hundurinn sjálfsagt soltið úr hungri þegar enginn hundamatur er til og engar bækur eru til á heimilinu fyrir hann að éta.

Skömmu síðar hafði ég með góðri hjálp nágrannanna dröslað skápnum inn í stofu og fundið honum góðan stað á móti silfurstellinu. Nú gnæfði bókaskápurinn hátt yfir silfurskeiðarnar og kertastjakana rétt eins og hann vildi segja: ,,Hvað segiði núna pjáturglingur...heldurðu að nokkur gestur líti við ykkur?”
Einn hængur var þó á. Það var hvernig bókaskápurinn myndi þjóna hlutverki sínu á viðunandi hátt. Ég átti nefnilega engar bækur til að láta hann í, ekki svo það taki því. Fyrst prófaði ég að koma þeim fáu titlum sem ég átti í hann, en þótt ég læti eina bók í hverja hilluröð voru samt nokkrar eftir neðst og efst í skápnum. Hann stóð hnarreistur í stofunni eins og svart skrímsli með marga galopna kjafta sem biðu eftir því að fá bitastæðar bækur í svanginn og skrímslið virtist geta étið endalaust án þess að það sæist högg á vatni. Þetta var ljóta klípan sem ég hafði komið mér í.
,,Hvað með að fá lánaðar nokkrar bækur elskan?” stakk konan upp á á meðan hún þurrkaði vandlega af matardisknum og setti upp í hillu. Nóg var til af leirtauinu og skáparnir virtust vera að springa af bollum, bökkum og hvers kyns borðáhöldum. Jú jú, ég gæti sosum fengið lánaðar einhverjar skemmtilegar bækur, kannski gluggað í eina til tvær og síðan sett þær inn í skáp en hvað myndi það segja? Ég var strax farinn að sjá eftir þessum skápakaupum sem virtust vera þau sanngjörnustu í Kolaportinu.
,,Við finnum eitthvað ráð ljúfan við þessu,” sagði konan mín um leið og hún setti viskastykkið á ofninn og tók utan um mig til að reyna að bræða angistarsvipinn á andliti mínu þegar ég gægðist inn í stofu.

Þegar löngum vinnudegi var lokið næsta dag kom ég við í bókabúð og keypti tvær bækur í bókaskápinn. Gerplu eftir Halldór Laxness og matreiðslubók með einhverjum nöktum kokki. Ég setti þær síðan á vel valinn stað í bókaskápnum sem hafði nú fengið eitthvað til að kjamsa á. Hann virtist ánægður, þótt konunni fundust uppskriftirnar í matreiðslubókinni ansi lélegar.
Ég var líka duglegur að fá lánaðar bækur þegar efni stóðu til. Fólk rak upp undrunarsvip þegar ég fékk kannski lánaðar bækur aftur hjá þeim þrátt fyrir að ég væri með eina í láni. ,,Ertu svona snöggur að lesa?” spurði það. Ég svaraði yfirleitt með orðunum ,,Ja, ég glugga gjarnan í bækur og les vandlega þær sem mér finnast sérstaklega góðar.”
Skyndilega var ég orðinn mesti lestrarhesturinn í bænum. Mér þótti ég skyndilega vera unglegri þegar ég stóð fyrir framan spegilinn á morgnana að raka mig. Inn með bumbuna, inn með bumbuna. Svona já. Síðan líturðu fram hjá þessum háu kollvikum og einbeitir þér að vangasvipnum. Spegilmyndin gerði hvað sem ég skipaði henni.,, ...sem afi hafði jú gert.. Ef ég vissi hve mörgum klukkutímum ég hafði eytt í stofunni hans, við lágstemmda tifið í veggklukkunni, dúnmjúku snertinguna við gamla gólfteppið þegar ég gekk um stofuna og virti fyrir mér allar bækurnar sem gnæfðu yfir mig eins og fjall sem ég þyrfti að klífa. Kvöldsólin skein inn um gluggann og rykkornin svifu um í einhvers konar tilviljunarkenndri hringrás. Afi sat beinn í baki í tréstólnum sínum, í teinóttu jakkafötunum með hneppt frá jakkanum svo það sást í gullkeðjuna sem hékk úr vestisvasanum. Þið hefðuð sjálfsagt brosað út í annað hefðuð þið séð þetta.
Hann var löngu hættur að lesa og fannst það bara skemmtilegt að fá svona ungt blóð eins og mig í bæinn sinn. Það var eitthvað sem frískaði upp á andrúmsloftið við að fá svona unga sál sem var í þann mund að uppgötva þennan bókaheim sem í leyndist í stofunni hans.
Einn góðan veðurdag tókst mér að klífa fjallið hans afa. Það var stuttu eftir að hann dó, ef þið munið þá eftir því. Andlát hans hafði mikil áhrif á okkur öll systkinin, og ég man vel klausuna í erfðaskránni hans þar sem hann ánafnaði mér öllum þessum bókum. Hann sagðist vilja að þær lentu í hendurnar á einhverjum sem myndi handfjatla þær af alúð og umhyggju. Einhvern sem myndi lesa þessar bækur af jafnmiklum áhuga og raun bar vitni. Í raun gafst hann upp á þessu öllu saman, sagði að hann væri engin bókasál en hefði bara sankað þessu að sér í gegnum árin. Og í dag, í dag er þessi fjársjóður loksins kominn í stofuna til mín. Í dag get ég loksins farið að meta þennan fjársjóð aftur eins og ég gerði sem barn í stofunni hjá afa. Í dag vil ég engu öðru hampa en fjársjóði sem fellur ekki á meðan íslensk tunga lifir.”
Gestirnir hrópuðu húrra fyrir ræðunni minni. Rýmið í stofunni fylltist skálaglamri, vindlareyk og þægilegum samræðum. Framtíð mín sem valinkunnur andans maður var björt og bein.


,,...en þú veist elskan að afi þinn hafði engan áhuga á bókum. Eins og ég man eftir honum vildi hann ekkert með bækur hafa, átti í mesta lagi þrjár til fjórar.”
,,Elskan mín, þú verður að skilja að stundum þarf maður aðeins að hagræða staðreyndunum til að greiða götuna fyrir hlutum. Þú verður að taka tillit til þess.”
,,Jah...ég sé að minnsta kosti ekki fram á að það að kaupa gommu af útsölubókum í Kolaportinu og segja að þær séu frá afa þínum eigi eftir að greiða úr neinum hlutum, þvert á móti.”
Slökkt á lampanum. Finn fyrir mjúka sængurhljóðinu í myrkrinu þegar hún snýr sér við. Skilur mig einn eftir í rúminu með ónotatilfinningu í hárinu, ógreiddum.
Ég get með engu móti sofnað. Ég er eins vakandi og hægt er að verða. Hver taug í líkama mínum er ekki spennt, en heldur ekki slök. Ég rís á fætur og geng inn í eldhús. Opna ísskápinn. Á maður nú að fara að reyna að gleyma áhyggjum sínum með því að hugga sig við mat?
Skelli hurðinni aftur. Geng síðan inn í stofu þar sem svartur bókaskápurinn gín við mér. Ófreskjan lítur jafnvel hræðilegri út þegar eina ljósið sem sést er dauf skíma frá ljósastaurnum úti á götunni. Skápurinn á eftir að gleypa mig einn daginn. Einar Ben, Nakti kokkurinn auk allra hinna ljóðabókanna eru hárhvassar tennur í skolti hans sem eru tilbúnar að tæta mig í sig frumu eftir frumu. Hvers vegna eru blaðsíður svona beittar? Hvers vegna er tungan svona tvíeggjað sverð?

Andvaka rölti ég eins og svefngengill að glugganum og horfi út. Það þýðir ekki að reyna að vera tvenns konar manngerðir. Sumt fólk les einfaldlega ekki bækur.

|

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Vísnasamkeppni

Hérna kemur önnur lítil keppni - í þetta skiptið á að botna vísu. Spreytið ykkur:

Sólargeislinn sætur er
sést þó ekki alltafMúhaha...reynið að finna rímorð við alltaf!

Í þetta skiptið eru fyrstu verðlaun fyrir besta botninn DV frá því í gær og stakur sokkur. Gangi ykkur vel.

|

föstudagur, apríl 02, 2004

Komið úr tísku?

Ungling kallar Kringla
kæti hans mun bæta:
Klæði vildi kaupa.
Aldrei hæpinn halda
hermir gæti ferming
síðan svalur fríðu
sorgar klæðin borgar.Skýring: Unglingurinn fer spenntur í Kringluna(sem kallar á hann) til að kaupa fermingarföt á sig. Hann vill þó ekki líkjast öllum öðrum(=hermir aldrei eftir hinum fermingunum) og gerist þess vegna svalur með því að kaupa á sig falleg svört för(sorgarklæði). Reyndar er þetta dróttkvæði bara sjö línur, en það verður að hafa það.

|