.

þriðjudagur, júní 29, 2004

Á sumrin

Sumarið er mýksti tími ársins. Öll náttúran og allt umhverfið blaktir hljóðlega án þess að gefa frá sér nokkurt brak sem truflar mann á sinni værðargöngu í fallega veðrinu. Það er svo heitt úti að það liggur við að fuglasöngurinn renni saman við suðið í býflugunum.

Á haustin, aftur á móti, brakar óþægilega í dauðum sprekum sem liggja á jörðinni og fölnuðum laufum þar sem þau feykjast til og frá á gangstéttinni þótt nágranninn hafi eytt drjúgum tíma í að raka þau saman. Á sumrin sitja laufin enn á trjánum og skarta sínu fríðasta. Nágranninn situr og horfir á trén út um eldhúsgluggann með kaffibollann í hendinni og dæsir ofan í kökudiskinn hvað það sé nú fallegt úti.

Á vorin brakar í nýútsprungnum fíflum þegar maður stígur á þá þar sem þeir vaxa í gangstéttarkantinum. Ég sá einu sinni nágrannann renna næstum því til þegar hann drap niður fæti í stórt bunt af fíflum sem teygðu gulu blómin sín á móti sólinni. Fíflarnir geta verið sleipir þegar stilkurinn brotnar og rennur til á fíflamjólkinni.


Á veturna brakar og marrar í snjónum. Alla leiðina heim úr skólanum stígur maður niður þar sem mestur snjórinn er til þess að láta marra sem mest. Ef maður er heppinn hefur enginn gengið leiðina áður og þá hefur maður nægt pláss til að teygja úr sporunum, ganga í hringi og jafnvel ganga aftur á bak í sömu sporin og hoppa síðan bak við kyrrstæðan bíl þannig að næsti vegfarandi velti því fyrir sér hvort sá sem ætti þessi för hefði skyndilega svifið upp í loftið og flogið restina heim.

Á sumrin brakar ekki í neinu.
Jú, kannski kassabílnum sem maður dregur fram úr geymslunni yfir sumartímann og stýrir áhyggjulaus um göturnar meðan vinir manns ýta manni áfram.

|