.

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Lítið ævintýri - 2. hluti

Hérna kemur svo annar hluti á þessu ævintýri.


2.

Vegurinn hlykkjaðist áfram um sveitina og inn í skóg. Við skógarjaðarinn var lítið tréskilti með ör sem benti inn í skóginn. Rétt þar hjá streymdi lítill lækur með sendnum botni og háum bökkum. Smáfugl vaslaði um í sandinum og leitaði að síli. Konan staldraði við þegar hún sá fuglinn, signdi sig og þvoði fætur sína í læknum. Hún sat svo á bakkanum, saug upp í nefið og sagði Jesúspéturmaría en sá drottinsdýrðardagur.
Vinstra megin við stíginn var gríðarstór eik sem teygði greinar sínar yfir veginn og iðagræn laufblöðin glömpuðu í sólskininu. Fyrir aftan reis gríðar stór og mikill skógur. Einhvers staðar, langt í fjarska hinum megin við þetta græna haf var borgin.
Fuglarnir sungu sem aldrei fyrr þótt það væri komið fram í október. Hún raulaði brot úr Lækjarvísunum sem hún þó mundi ekki vel í því hún kunni ekki við að smáfuglarnir sæju einir um sönginn:

Ég er að horfa hugfangin
í hlýjum sumarblænum
yfir litla lækinn minn
sem líður framhjá bænum.

Ó hve marga æskustund
áður hér ég dvaldi.
Saklaust barn með létta lund
og leggina mína taldi.Eftir að hafa strokið burtu tár með svuntuhorninu stóð hún upp, þurrkaði fætur sínar með klút sem hún geymdi einhvers staðar og hélt af stað eftir veginum sem hlykkjaðist inn í skóginn.Og hinn mikli vígahnöttur himinhvolfsins reis og hneig eins og hann hafði gert frá ómunatíð. Konan hafði nú gengið allan liðlangan daginn eftir stígnum án þess að mæta neinum nema stöku sárfættum ferðalangi. Hún var orðin vot í fæturna og stoppaði reglulega til að passa upp á að pilsið héldist hreint og að skildingarnir undir svuntunni væru allir á sínum stað.Skyndilega fór að rökkva og fuglasöngurinn breyttist úr saklausu smáfuglahjali í skrýtin hljóð sem hún vissi ekki hvaða dýrum þau komu frá. Pilsið hennar var nú orðið blautt og óhreint og hún orðin jafn sárfætt og ferðalangarnir og ölmusumennirnir. ,,Þegar maður er fátækur er vosbúðin oft tryggasti vinurinn," muldrar konan fyrir sjálfri sér um leið og hún steig ofan í poll. ,,Bóndi minn og ég höfum máske ekki mikið milli handa en aldrei höfum við hleypt vosbúðinni í heimsókn. Síðan sýgur hún upp í nefið, reynir að vinda pilsið án þess að missa það ofan í svaðið og heldur síðan áfram. Nú var orðið niðdimmt í skóginum og konan sá ekki handa sinna skil.

Skyndilega sá hún þó ljósglætu á hægri hönd. Langt í burtu bærðist lítil gráleit týra sem flökti óljóst til og frá. Konan vonaði að ljósið kæmi allavega frá góðum vættum. Síðan hélt hún af veginum, klofaði með erfiðisburðum yfir trjástofn sem lá rétt hjá og tók stefnuna á ljósið.
Þegar gráleita flöktið breyttist í skímu og skíman í ljósbirtu varð hún sífellt meira efins um góðu vættirnar. Hún fór með faðirvorið en fannst það ekki eins uppörvandi og venjulega svo hún lét sér nægja að kyngja munnvatni eftir vort daglegt brauð.
Ljósbirtan var nú orðin greinilegri en nokkru áður og brátt kom lágreistur kofi í ljós. Hann virtist vera fjarskalega gamall og leit út fyrir að enginn hefði komið þangað í áraraðir.
Pilsið hennar var orðið grútugt upp á læri þar sem konan öslaði muldrandi í bleytunni. Þegar hún kom að kofanum þar sem hann stóð milli tveggja risastórra trjáa þorði hún varla að banka en eftir að hafa klárað faðirvorið og signt sig gekk hún varfærnislega að dyrunum og bankaði þrjú laus högg á dyrnar. Henni til mikillar skelfingar heyrðist umgangur inni og brátt var dyrunum hrundið upp.

|

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Lítið ævintýri

Mér finnst gömul ævintýri svo falleg að ég ákvað að gera heiðarlega tilraun til að skrifa eitt slíkt.

---
1.

Einu sinni, fyrir langa langa löngu í landi þar sem náttúran er svo falleg að fuglarnir dásama hana með söng sínum löngu eftir að sólin er sest, áttu heima fátækur bóndi og kona hans í litlu koti fyrir utan höfuðborgina. Þau þurftu oft að strita allan daginn fyrir sínu lifibrauði og oft var ekki mikið milli hnífaparanna þegar þau hjónin settust hæglát við litla matarborðið, fóru með bæn og dásömuðu Guð fyrir gæsku hans. Bóndinn hélt sauði og eina kú og ræktaði korn sem hann fór síðan með í litlum vagni til borgarinnar þegar kornið var orðið fullþroska.
"Lífið er gjöf," sagði bóndinn oft, "gjöf sem margir dásama einungis fyrir fegurð umbúðanna og hversu vel og snyrtilega henni er pakkað inn. Færri þora að opna hana og berja augum það sem leynist fyrir innan. Guð hefur ætlað hverjum og einum mismunandi gjafir og oft vill ógæfan dynja yfir menn, en að takast á við það er vel gjafarinnar virði." Síðan kyssti hann konuna sína á nefið og brosti áður en þau settust niður og fengu sér að borða.

Beykitrén í garðinum höfðu nú fellt blöð ófá skipti fyrir framan kotið og gamli hestasteinninn var orðinn aðeins mosavaxnari en áður. Þau hjónin höfðu keypt sér nýja kú þegar sú gamla hætti að mjólka og þau fjárútlát höfðu kostað sitt, svo þau þurftu nú að vinna baki brotnu daglangt. Í októbermánuði, þegar vindurinn var orðinn aðeins kaldari en áður og útsýnið yfir hæðina lítið eitt grárra, veiktist karlinn og lá nú rúmfastur og gat ekki mjólkað kýrnar eða slegið kornið sem stóð nú fullþroska úti á akri. Hann kallaði á konu sína sem kemur með áhyggjusvip á andlitinu sem einungis góðar eiginkonur hafa, og segir við hana:
"Ég finn hversu vanmáttugur ég er og hve þungt sóttin herjar á mig. Ef ég fæ ekki lyf við þessari sótt mun ég deyja og þá munt þú líklega ekki hafa það af. Þú verður að fara í borgina með þá litlu fjármuni sem við eigum eftir og með Guðs hjálp að fá réttu lyfin við sjúkleika mínum. Ég skal gera hvað ég get við að halda búinu. En farðu strax á morgun um leið og sólin rís."

Konan faðmaði karlinn og sagði tárvotum augum: "Ég geri hvað sem í valdi mínu stendur svo við getum búið saman áfram. Þótt ég þurfi að fara á heimsenda skal ég og verð að útvega þér þau efni sem geta læknað þessa hræðilegu sótt sem hið illa hefur sent þér."
Karlinn hóstaði og sagði síðan: "Þessi sótt var ekki send til mín af þeim í neðra né nokkru af hans hyski. Guð hefur ætlað mér þessi örlög og sömuleiðis þér þín. Það var hann sem kom okkur saman og sá til þess að við höfum lifað jafn góðu og kristilegu lífi og raunin er þótt efnuð höfum við ekki verið. En búðu þig nú undir þessa ströngu för svo þú getir lagt sem fyrst af stað."

Konan þurrkaði nú tárin úr augunum með svuntunni sinni um leið og hún hagræddi teppinu ofan á karlinum og lagðist við hliðina á honum. Hún strauk skeggið á honum blíðlega og vonaði að það yrði ekki í síðasta sinn.
Síðan hættu fuglarnir að syngja og þau lágu brátt í fastasvefni þétt hvort upp við annað.


Hæðin austan við kotið fór hjá sér og roðnaði þegar geislar sólarinnar kitluðu hana í morgunsárið. Konan stóð við eldavélina og gerði graut fyrir mann sinn sem lá enn þá í viðjum svefnsins. Hún tók saman þá fáu koparskildinga sem þau geymdu í krús uppi á skáp og vafði þá inn í klút sem hún setti síðan undir svuntuna. Síðan kyssti hún karlinn á ennið og kvaddi kúna og sauðina áður en hún hélt af stað upp stíginn sem lá upp á hæðina og til borgarinnar.

---

Þetta var fyrsti hluti. Annar hluti kemur seinna í þessari viku.

|

laugardagur, ágúst 28, 2004

Síðan

Ég endurbætti útlitið á síðunni, enda var hún orðin svolítið rykfallin. Þetta er miklu betra þótt merkið efst á síðunni minni svolítið á kassalaga Mikka Mús. Lofa skemmtilegum færslum á næstunni.

|

föstudagur, ágúst 27, 2004

Skóli

Kakóland.
Svarti flygillinn.
42 tommu plasmasjónvarp.
Yddaður blýantur sem búið er að naga.
Rauðmáluð fótspot milli Cösu Christi og Cösu Nova.
11.05-11.35.
Hann höggr til hans, ok verðr þat mikit sár.
Rugga sér á stólnum.
Quintus, ubi de morte Ciceronis audivit, valde commotus est.
Hakkísakk.Það er ágætt að byrja aftur í skólanum. Nefnið fleiri af þessum litlu hlutum sem krydda skólalífið.

|