.

miðvikudagur, september 15, 2004

Samhverfur

Aðallega af baggalút, skrifaðar eftir minni. Ef þið kunnið einhverjar samhverfur skulið þið láta vaða.

Sá amma ás?

Rut fann illa kallinn aftur

Gíraffar í gíraffaríg

Galsinna gíraffar í gannislag(hvað er málið með gíraffa og samhverfur?)

Síaður trúðaís(næstum því löglegt)

Líbanir aka Toyota Karina bíl

|

föstudagur, september 10, 2004

Hrosshár í strengi og holað innan tré

Skrifaði þessa sögu í einum rykk. Gagnrýni vel þegin!


---

Eitt sinn var bjó lítill e-strengur í gítar sem ungur námsmaður átti. Námsmaðurinn leigði kvistherbergi undir súð og undi vel við sitt, einkum þegar hann æfði sig á gítarinn milli þess sem hann las heilu kaflana af algebrugreiningu.

Þessi e-strengur hafði verið nýsettur í gítarinn og var þess vegna yngsti og jafnframt minnsti meðlimurinn í strengjafjölskyldunni. Hann þjónaði þeim tilgangi að vera hæsti tónninn í gítarnum og fannst það bara ágætt hlutskipti, jafnvel þótt hann öfundaði stundum dýpri strengina þar eð þeir gengdu ívið mikilvægari hlutverkum við að ljá hljóðfærinu þá töfra sem það bjó yfir. Þegar námsmaðurinn skellti stóru stærðfræðibókinni aftur söng lágt í strengjunum vegna tilhlökkunar því nú vissu þeir að stúdentinn ætlaði að spila á gítarinn og þeir að þenja sig til hins ítrasta til að þjóna tilgangi sínum til fulls.

Djúpi E-strengurinn, sem var jafnframt efstur í goggunarröðinni, tók til máls. ,,Hann ætlar án efa að æfa fúguna eftir Bach sem hann byrjaði á í síðustu viku," sagði hann, enda var strengurinn mikill Bach-aðdáandi og vissi fátt betra en þegar stúdentinn sló á sig djúpu bassanóturnar sem fúgurnar eru svo einkennandi fyrir. Þá lét hann vel í sér heyra, þrátt fyrir að yfirgnæfa stundum hina strengina.

,,Æ, ætli hann sé ekki bara að fara út í göngutúr," sagði þá d-strengurinn. Hann var einn af þessum í miðjunni sem þjónaði hvað minnstum tilgangi nema þá helst að fylla upp í hljóma. Fyrir nokkru síðan ætlaði stúdentinn að skipta um d-streng og tók hann því út úr gítarnum, en átti síðan ekki peninga fyrir nýjum streng. Hann hélt þó áfram að spila án strengsins í þó nokkurn tíma þangað til hann lét hann aftur í. D-strengurinn beið nokkurn álitshnekki vegna þessa enda virtist námsmaðurinn varla taka eftir því að hann vantaði. Eftirvæntingin var því ekki eins rík hjá honum og hjá hinum strengjunum vegna þessa atviks.

En námsmaðurinn var ekki á leiðinni út í göngutúr, enda létu skýin ófriðlega og dembdu vatnsflóði yfir kvistinn og höfðu gert allan þennan dag. Þess í stað tók hann hljóðfærið upp úr gítartöskunni þar sem hún lá opin á gólfinu og byrjaði að stilla gítarinn.

,,Nú verður sko fjör!" sögðu allir strengirnir til samans og létu ófriðlega af æsingi. Námsmaðurinn þurfti því að endurstilla gítarinn í annað skipti því strengirnir beygðust til og frá, réttu úr sér og sveigðu til skiptis því tilhlökkunin var það mikil.
Sá eini sem lét þetta sem vind um eyru þjóta var litli e-strengurinn. Það var verið að nota hann í fyrsta skiptið og hann vissi ekki alveg hvernig átti að hegða sér. ,,Skyldi þetta vera nokkuð sársaukafullt, að láta plokka sig og slá til og frá?" spurði hann með sjálfum sér þar sem hann stóð lengst úti í kanti og sneri baki í hina strengina.

Að lokum hafði stúdentinn stillt gítarinn og hóf að spila fúguna sem hann byrjaði á í síðustu viku. Fyrst í stað spilaði hann einungis djúpa tóna í drunalega innganginum á tónverkinu og stóri E-strengurinn lét fara nokkuð fyrir sér svo ekki nokkur vafi léki á hlutverki hans. ,,Ég hef beðið eftir þessu óralengi," sagði hann um leið og hann sveiflaði sér til og frá svo glumdi í.
Litli e-strengurinn horfði ögn smeykur á. Þegar laglínan í fúgunni byrjaði loksins var röðin komin að honum. Nú þjónaði hann veigamesta tilganginum en stóri E-strengurinn var svo frekur að brátt heyrðist nær eingöngu í honum.

Námsmanninum þótti þetta skrýtið. "Ætti ég kannski að láta skipta um E-streng?" hugsaði hann og spilaði þeim mun hærra á hina strengina svo það heyrðist betur í þeim. Það líkaði E-strengnum ekki par við og sveiflaði sér nú með enn meiri krafti en áður. "Ég skal sýna þessum óreyndu heybrókum hvers ég er megnugur," sagði hann og þandi sig nú til hins ýtrasta.

Að lokum var hamagangurinn orðinn svo mikill að gítarhálsinn var farinn að sveigjast til og frá og stúdentinn plokkaði efstu strengina til hins ítrasta í fúgunni, enda skiptu þeir hvað mestu máli svo laglínan heyrðist.
Litli e-strengurinn var nú farinn að þreytast nokkuð enda var þetta í fyrsta skipti sem hann var notaður. Hann engdist til og frá í tónverkinu sem engan enda ætlaði að taka. Hann reyndi að halda út lengur, en með hverjum taktinum sem leið dvínaði þróttur hans. "Ef ég bara næ að þrauka aðeins í viðbót..."


Þegar námsmaðurinn var að ljúka fúgunni slitnaði e-strengurinn skyndilega með svo miklum krafti að hann small í vinstri hönd hans og skarst þar inn.
"Skrýtið, ég var að láta þennan í gítarinn," hugsaði hann um leið og hann horfði á blóðrisa höndina á sér. Síðan lét hann gítarinn í töskuna, lokaði henni og náði sér í þerripappír til að þurrka blóðið. Svo settist hann aftur niður við námsbækurnar.

Í niðadimmu myrkrinu í gítartöskunni lá litli e-strengurinn örendur. Hann hafði ekki þolað álagið út af offorsinu í stóra E-strengnum.

D-strengurinn andaði léttar.

|

mánudagur, september 06, 2004

Hljómsveitarsaga

Hér kemur sönn saga úr hljómsveitarslarkinu með Dixielanddvergunum. Ef ykkur byðist að gerast rótarar í einhverri hljómsveit, hugsið ykkur þá tvisvar um!
---


Um leið og ég stíg inn í sturtuna hringir gemsinn. Ég stend grafkyrr á meðan hann pípir eins og óður væri og læt bununa dynja á hausnum og reyni að ákveða hvort ég ætti að svara eða ekki. Þegar hann hættir ekki stíg ég til baka, rennbleyti óvart buxurnar mínar meðan ég leita í öllum vösum og svara. Þakka fyrir að enn sé ekki búið að finna upp myndsímann.

-Halló?
Góðan dag. Ragnheiður heiti ég og er skipulagsstjóri yfir fjölskylduhátíð í Skerjafirðinum. Þú spilar á píanó í Dixielanddvergunum?
-Það geri ég.
Flott er. Ég vildi athuga hvort þið vilduð spila næstkomandi laugardag?

Skipulagsstjóri! Það var og. Eftir að hafa rætt við konuna nokkra stund tjái ég henni kurteislega að ég sé ,,geim í stöffið".

Á laugardaginn þegar ég skelli útidyrahurðinni kemur dropi á stéttina. 101 í hellidembu. Á leiðinni kem ég við hjá Snorra saxófón og við löbbum báðir niður í Hljómskála. Dáumst að því hvað birtan á hlutunum getur verið falleg í veðri sem þessu.
Loksins eru Hr. Hundblautur og Hr. Rennblautur komnir í Hljómskálann. Á meðan Hr. Rennblautur skreppur á klósettið til að þurrka rentuna af nafni sínu helli ég upp á kaffi.

Hvar sagði hún að þetta væri nákvæmlega? spyr Snorri um leið og hann lokar klósetthurðinni.
-Hún sagði að þetta gæti ekki farið framhjá okkur, risastórt tjald og hoppukastali og dót, svara ég.
Þegar kaffið er tilbúið koma Danni, Hrafnkell og Örvar. Þeir bölva rigningunni sem dynur úti eins og hellt væri út fötu. Svo sitjum við með kaffibolla og bölvum rigningunni aðeins meira. Síðan flytjum við allt dótið út í hina agnarsmáu Mözdu sem Örvar á.

Þá tekur við vandasamt verk. Það er að bakka út úr litla "rjóðrinu" sem liggur frá Hljómskálanum og út á Fríkirkjuveginn. Þetta litla sæta rjóður er umkringt enn þá minni og sætari blómum sem mega sín lítils undan stórum og hryssingslegum hjólbörðum mözdunnar. Að sögn lögreglu létust þrír túlípanar og fjórar saklausar hreðkur í átökunum.
Örvar tekur einhvern skrýtinn pól í hæðina og brátt brunum við eftir Fríkirkjuveginum í gír "R". Sem betur fer var þessi leiðinlegi misskilningur leiðréttur áður en stóra Toyotan hefði brunað yfir okkur og breytt djassbandinu í sáraband.

Eftir Sóleyjargötunni förum við, og svo eftir Hringbraut áður en við tökum stefnuna beint á Skerjafjörðinn. Síðan tekur við dól um allt hverfið þar sem Þorragatan var ekin þrisvar og Hörpugatan skoðuð sex sinnum.

Að lokum sjáum við, í skugga flugturns Reykjavíkurflugvallar, glitta í tjald og grænan hoppukastala. Sett var í gír "4" og stuttu seinna vorum við umkringdir litlum krökkum í pollagöllum sem voru útataðir í ís og kandífloss og áhyggjufullum og hundblautum foreldrum sem toguðu litla krílið sitt upp úr drullupolli. Það fólk sem hafði ekki orðið barna auðið leitaði sér skjóls inni í tjaldinu, úðaði í sig pylsum og rauðvíni og ræddi um veðrið.

Okkur er ekkert að vanbúnaði og eyðum hálftíma í að stilla okkur upp og tíu mínútum í að leita að innstungu sem virkaði. Minnstu munaði að hljómborðið félli á hliðina þegar lítill polli slangraði utan í snúru sem lá úr hljómborðinu í magnarann en hann bjargaði sér fimlega með því að grípa í borðdúk og hreinsa af borðinu allt það meðlæti sem veislugestir áttu að fá með pylsunum sínum.

Um leið og við teljum í lagið kemur kona askvaðandi. Hún tjáir okkur svo ekki verði um villst að hún pantaði enga hljómsveit og við hljótum því að vera staddir á vitlausri hátíð. Svo bendir hún út í grenjandi rigninguna og segir að það sé einhver önnur hátíð í hinu hverfi Skerjafjarðarins. Að því loknu skolar hún pylsunni sinni niður með gúlsopa af rauðvíni og segir Jawoll!

Það er því ekki um annað að ræða en að eyða öðrum hálftíma í að pakka dótinu saman, vefja saman snúrur og fjöltengi, hagræða dótinu til í bílnum svo það komist nú allt fyrir og kveðja hundblauta veislugesti með kurt og pí. Hrafnkell bendir mér reyndar á, þegar öll hljóðfærin eru loksins komin inn í litlu Mözduna, að gítarmagnarinn standi aðeins of langt út úr skottinu og erfitt gæti verið að loka því þar sem rúðan á afturhurðinni væri í vegi en Örvar afsannar það rækilega með því að skella henni svo harkalega að þessi rúða mölvast í spað.

Þar sem við stöndum nú holdvotir í rigningunni og horfum á glerbrotin sáldrast yfir hljóðfærin velti ég því fyrir mér hvort við hefðum ekki átt að fá okkur hljómsveitarrútu.

Síðan ríf ég mig upp úr dagdraumunum og hlaupum um allt til að ná í kúst, límband og plastdúk. Þegar kústurinn er loksins fundinn eru hljóðfærin orðin rennandi blaut af rigningunni. Svo sópum við glerbrotunum út eftir fremsta megni og meðan Snorri og Danni moka þeim upp í fægiskóflu reynum við Hrafnkell að líma plastdúk yfir afturrúðuna til að bjarga lífi og limum hljóðfæranna.


Þegar rúmur klukkutími er liðinn er ekki enn stytt upp. Þá höfum við sópað nokkurn veginn öllum glerbrotunum út skottinu og fest plastdúkinn nokkurn veginn þar sem afturrúðan hafði áður verið og setjumst allir inn í bíl.

Í þann mund sem Örvar hyggst setja bílinn í gang spyr Danni hvort það sé ekki eitthvað bogið við hallamælinn í bílnum, sem sýni 5 gráðu halla til vinstri.
-Nei nei, það er allt svo helvíti fjöllótt hérna í Skerjafirðinum...þeir kunna ekki að búa til bílastæði þetta úthverfalið! segir Örvar fullur hneykslunar á þessu liði sem dettur í hug að halda tvær hátíðir sama daginn og rugla alla í ríminu.

Samt finnst okkur þetta eitthvað skrýtið, þar sem halli bílastæðisins virtist ekki vera teljandi en hins vegar var halli bílsins eitthvað undarlegur. Ég stíg út og strákarnir súpa hveljur þegar ég segi þeim að vinstra afturdekkið sé sprungið.


Þá eyðum við drjúgum tíma í að tæma skottið sem var stútfullt af hljóðfærum til þess að ná í tjakkinn og skiptilykla. Síðan tjakka ég bílinn samviskusamlega upp, skrúfa boltana af felgunni og tosa dekkið varlega af. Þegar við reynum síðan að losa varadekkið undan bílnum reynist það þrautin þyngri. Eftir hálftíma puð og með hjálp ófárra veislugesta(sem voru nú margir komnir í annarlegt ástand) verðum við einfaldlega að festa hið loftlausa varadekk aftur á og skrölta af stað.


Eftir kortérs bíltúr finnum við hina hátíðina. Mér líður aldrei úr minni svipurinn á veislugestunum þegar hún sér hljómsveitina drattast á áfangastað, hundblauta, tveimur tímum of seina, með laflausan plastdúk flaksandi aftan úr bílnum og grautlint afturdekk. Um leið og ég stíg út lendir fóturinn á mér í ökkladjúpum polli og ég fer að pæla hvort ég hefði ekki bara átt að gefa skít í gemsann minn þetta eina skipti og fara í sjóðandi heita sturtu.

|

laugardagur, september 04, 2004

Lítið ævintýri - síðasti hluti

Æ mig auman.

(SPILLIR - ef þið viljið ekki vita hvernig æfintýrið endar þá skuluð þið ekki lesa lengra!)

Konan hélt áfram að ramba um í skóginum, týnd og matarlaus og eftir nokkra daga varð hún fyrir barðinu á bíræfnum ryksugusölumanni sem í óðagotinu ryksugaði hana upp í sína nýju TURBOSUCKER3000 maskínu. Endaði hún þar með líf sitt, og nokkrum dögum seinna gaf karlinn í kotinu heima upp öndina. Lýkur þar með sögu þessari.




Kommon! Ég nennti ekki að undirbúa eitthvað stórt plott sem, í áframhaldandi framvindu sögunnar, myndi fléttast saman við persónusköpunina og koma út sem eitt sjálfstætt heildarverk. Það er alltof mikið vesen.

|