.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Gleraugun

Þegar maður er barn skiptir maður tímanum í fimm mínútna einingar.
Börn eru oft sögð bestu orðasmiðirnir og þess vegna skulum við kalla þessar einingar því nafni sem litli frændi minn bjó til, klukkumínúta.
Það eru því tólf klukkumínútur í einum klukkutíma og heill sólarhringur er því hvorki meira né minna en 288 klukkumínútur. Það er erfið tala fyrir lítinn krakka að skilja og þess vegna hugsar litli frændi minn mestmegnis um hvað hann gerði fyrir einni klukkumínútu og hvað hann mun gera eftir eina til tvær. Meiri háttar atburðum svo sem bíóferðum eða aðfangadegi er skipt vandlega í fimm mínútna bita því krökkum með litla sál og lítinn munn finnst erfitt að kyngja stærri. En eftir því sem maður eldist renna bitarnir saman og í staðinn fyrir að sparka í bíósætið hjá náunganum fyrir framan þig í eina klukkumínútu og bíða óþreyjufullur í jólasparifötunum í tvær klukkumínútur meðan maður horfir á strumpana í fimmtánda skiptið hættir maður smám saman að pæla í þessu; sérstaklega þegar maður fer að borga bíómiðann sjálfur og gefa jólagjafir.

Vésteinn litli horfði á pakkann sem hann fékk frá Siggu frænku. Ljóminn af jólatrénu og kertunum bliknaði í samanburði við glampann í augum hans þegar hann tætti pappírinn af eins og tígrisdýr ræðst á bráð. Hann hafði beðið þessa aðfangadagskvöld í lengri tíma en hann gat nokkurn tímann ímyndað sér og þetta var ábyggilega í fyrsta skiptið sem hann fékk harðan pakka frá Siggu frænku. Vonbrigðin leyndu sér því ekki þegar hann sá hvað var innan gjafaöskjunnar frá "Sjónstöð Kópavogs". Hann þurfti sko engin asnaleg gleraugu.
Sigga frænka tók varalit upp úr töskunni, makaði honum á varirnar á sér og skellti honum aftur ofan í. Svo hallaði hún sér fram að Vésteini: "Sjáðu kúturinn minn, finnast þér þau ekki falleg?"
Vésteinn svaraði engu.
"Litli drengurinn er bara í sykursjokki, er það ekki Magga mín," sagði hún þá þá við mömmu hans Vésteins, "hann er líka orðinn svo syfjaður, þessi elska."
En Vésteinn var ekki í neinu sykursjokki. Hann virti gleraugun fyrir sér. Þau voru með þykkum glerjum eins og stækkunarglerið hans pabba og með svartri umgjörð og alltof stór á hann. Þegar hann hafði þau á sér kitluðu þau bara eyrun og nefið og hann þurfti að taka þau af sér eftir smátíma. Það versta við það var að þá sá hann bara mömmu og pabba og jólatréð og allt í móðu. En eftir að gömlu gleraugun hans brotnuðu gat hann ekki einu sinni lesið á götunöfnin á skiltunum og þá þurfti aldeilis að færa honum ný gleraugu svo honum gengi vel í skólanum eftir áramót, hafði Sigga frænka sagt. Hún sagðist líka hafa valið þessi svörtu því þau pössuðu svo vel við svartkrullaða hárið hans.
Vésteinn nennti ekki að hugsa um skólann. Það voru svo óendanlega margir klukkumínútur þangað til hann byrjaði.

Vésteinn geispaði. Hann var orðinn pínu syfjaður enda var hann búinn að leika sér að öllum leikföngunum sem hann fékk allt kvöldið. Nema gleraugun, þau setti hann aftur í öskjuna og undir rúm. Svo breiddi hann sjálfur sængina yfir sig.
Næsta dag sat hann í bíl sem brunaði eftir snæhvítri götunni á leið sinni út úr bænum. Hann var að fara til ömmu sinnar sem átti heima upp í sveit. Því miður hafði lymskubragð hans að setja gleraugun undir rúm, í þeirri von að hann þyrfti ekki að taka þau með, ekki heppnast. Hann reyndi að lesa á götuskiltin. Það var ekkert mál að lesa "Bragagata", því það var gatan hans. Svo kom Sól...eyjargata. Sæ...b...brauð.
"Mamma, hvað er Sæbrauð?"
"Hvað ertu nú að bulla Vésteinn minn?"
"Hvað er Sæbrauð mamma," sagði Vésteinn aftur. Fyrir fullorðna fólkinu geta svona spurningar verið svo skrýtnar og hann var orðinn þaulvanur að spyrja aftur og aftur að því sama.
"Mamma, hvað er Sæbrauð? Er það eins og brauðið í faðirvorinu?"
Nú voru þau komin alla leið á Bíldshöfða og mamma hans skildi þess vegna ekkert í spurningunni. "Passaðu þig nú að setja ekki súkkulaðið í fínu fötin þín," sagði hún án þess einu sinni að líta aftur fyrir sig. Vésteinn hélt því áfram að mylja prins pólóið í sætið þangað til þau voru komin að rótum Esjunnar.

Upp í sveit voru margir skrýtnir hlutir. Hann man jólin í fyrra þegar hann heimsótti ömmu síðast, þá var fullt af hestum úti í haga og margt að skoða úti. Nú voru aftur á móti engir hestar og ekkert að sjá neins staðar. Vésteinn geispaði og horfði á svörtu gleraugun sem lágu í hinu aftursætinu.

Þegar jeppinn renndi í hlað á bænum hennar ömmu stökk Vésteinn út og teygði úr sér. Honum var orðið voða illt í rassinum og horfði á stóra fjallið sem bærinn stóð undir og kargaþýfið allt í kring.
"Mundu nú eftir gleraugunum þínum Vésteinn," sagði mamma. En þegar Vésteinn ætlaði að ná í þau í aftursætinu voru þau horfin. "Mamma, þau eru ekki í bílnum," sagði hann, hálfpartinn feginn, hálfpartinn angraður. Nú þyrfti hann að leita að þeim út um allt.
"Hvert settirðu þau Vésteinn? Þau hljóta að vera þarna einhvers staðar. Þú hefur þó ekki týnt þeim?"
"Mamma ég lofa ég tók þau ekki neitt," sagði Vésteinn með þreytumerki í tóninum. Það var alveg dagsatt. Honum hafði ekki komið til hugar að máta þau. Það hlaut einhver annar að hafa tekið þau. Þrátt fyrir að hafa leitað dauðaleit í bílnum fundust gleraugun ekki.

Amma var orðin voða gömul, hafði mamma sagt, og þess vegna mátti Vésteinn ekki vera með mikil læti. Hún bjó ein á sveitabænum með kúna út í fjósi og bröndóttan kött. Hann svaf nær allan tímann og nennti ekki að leika við Véstein þegar hann loksins vaknaði. Í eldhúsinu var allt óbreytt frá því þegar amma var lítil stelpa fyrir utan eitthvað af jólaskrautinu.
Nú sátu þau öll við eldhúsborðið og gláptu út á snæviþakta sveitina. Amma var að baksa við pönnur og potta við gömlu eldavélina. "Jæja mamma gamla," sagði mamma við ömmu. Hún kallaði hana alltaf gömlu. "Heldurðu að hann Vésteinn hafi ekki týnt gleraugunum sínum á leiðinni hingað."
"Mamma ég lofa ég setti þau aldrei á mig," sagði Vésteinn snúðugur á svip. Amma hans þurrkaði sér um hendurnar með rauðköflóttum vasaklút og settist hjá Vésteini. "Veistu drengurinn minn, mín gleraugu vantar líka. Ég lagði þau hérna á eldhúsborðið fyrir örstuttu síðan, og nú eru þau horfin. Þegar ég var lítil stelpa á þessum bæ var alltaf talað um að húsálfarnir þyrftu að fá hluti lánaða ef þeir hurfu. Kannski vantaði vasahníf, tóbakshorn eða jafnvel mjaltafötuna í nokkra daga. Svo birtust þeir á hinum augljósustu stöðum þrátt fyrir að allir á bænum hafi verið nær vissir um að hafa leitað þar. En það var aldrei verið að agnúast út í álfana þótt þeir hafi getað verið hrekkjóttir því þeir pössuðu líka upp á húsið."
"Æ gamla mín, vertu nú ekki að skálda upp í drenginn einhverja vitleysu. Hann hefur ekkert gott af því að heyra svona skröksögur," sagði mamma. Vésteinn horfði stórum augum á ömmu sína og dinglaði fótunum. Gat það verið að álfanir hefðu tekið gleraugun hans? Mikið væri hann þá feginn. Verst að Sigga frænka myndi ekki vera ánægð ef þeir skiluðu gleraugunum ekki. Og til hvers eiginlega þyrftu þeir gleraugu sem væru hvort eð er alltof stór á þá?
Fjölskyldan horfði nú á eldhúsborðið og bruddi keyptu piparkökurnar því allar þær heimabökuðu hennar ömmu voru svo harðar og gamlar. Vésteini fannst mjólkin ekki góð heldur. Hún bragðaðist allt öðruvísi en mjólkin heima og svo var hún heldur ekki í svona fernum.

Það var heldur ekkert að gera úti. Hann eyddi heilum klukkutíma að dandalast meðfram lækjarsytrunni og horfa á lítinn snjótittling vasla um í sandinum. Bráðum heyrði hann mömmu sína kalla á sig að þau væru að fara heim. Hann sneri sér við og hljóp feginn að jeppanum á hlaðinu.Gleraugun höfðu því miður ekki fundist enn.

Mamma hans varalitaði sig og á meðan hún horfði í spegilinn á framrúðuskyggninu. "Vinkaðu nú ömmu þinni bless," sagði hún og þakti aðra umferð á neðrivörina. Vésteinn leit við og sá ömmu í glugganum. Hún vinkaði brosandi á móti og Vésteinn sá ekki betur en hún var með risastór og þykk gleraugu á nefinu. Með svörtum gjörðum.

|

mánudagur, nóvember 15, 2004

Ný saga

Það er svo gríðarlega langt síðan ég hef skrifað sögu á þetta blogg. Núna bæti ég úr því.
Því miður er ég nokkuð hugmyndasnauður um efni sögunnar. Þið skulið því skrifa allar ykkar hugmyndir í kommentakerfið hér fyrir neðan og ég skal skrifa veglega og langa sögu um besta efnið sem kemur fram. Aðalpersónan mun jafnframt heita í höfuðið á þeim sem kom með hugmyndina. Komið nú með eitthvað spæsí!

|

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Fréttir

Ljenzherrann á Kaffisterkt gerði sér það til dundurs um daginn að bera saman mikilvægi innlendra og erlendra frétta á mbl.is. Er ég heimsótti fréttasíðuna áðan gat verið einkennilegt að lesa fyrirsagnirnar í einni bunu:

Kristinn víkur tímabundið úr stjórn Straums - Segir öll helstu líffæri Arafats starfa enn

Grunur um rjúpnaveiði við Skagaströnd - Allawi leggur að uppreisnarmönnum að leggja niður vopn

Fluttur á sjúkrahús á Akureyri eftir bílveltu - Frændsystkin dæmd fyrir morð á bakpokaferðalangi


Einnig er nokkuð um neyðarlegar fyrirsagnir á erlendum fréttamiðlum, t.d. "Deer Kills 17,000" og "Kids Make Nutritious Snacks".

Fleira er ekki í fréttum.

|

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Bridge hornið

Bridge er ævagamalt spil sem var ábyggilega fundið upp af sama nöttara og bjó til róteindahraðalinn, þrívíddarkrossgátuna og skírlífisbeltið. Það er með öllu óskiljanlegt nútímamanninum og aðeins er vitað um eina hetjulega tilraun til að öðlast skilning á þessu spili, en hún var gerð af dularfullum Ítala á þriðja áratugnum. Hann fór síðan gjörsamlega yfir um og er síðan hvað þekktastur fyrir að hafa sett heimsmet í spilaborg, níutíu og þrjár hæðir.

Í bridge þætti dagsins verður fjallað um ævaforna viðureign Herr von Schlieschenmünschen baróns og lávarðarins af Ostbürger. Af gömlum skjölum má sjá stöðuna eins og hún var eftir þrjár alslemmur:



Ostbürger átti slaginn heima og hann lagði niður hjartadrottningu og spilaði svo öllum trompunum. Schlieberhsbemuncher, eða hvernig sem það er skrifað, átti blindan Áx í tígli og Kx í laufi samkvæmt endastöðunni, og opnaði austur með sagnhafa. Ostbürger spilaði sér tígulásinn í miðvörn og tryggði sér tíunda slaginn í lokin á laufkóng.
Shlafenhauser barón sló þá Ostbürger utan undir með laufakónginum sínum. Þá reiddist von Ostbürger og þeytti laufaþristinum beinustu leið í fésið á Herr Scheisenmünschen sem brást ókvæða við og hótaði að hringja í stóra bróður sinn Herr Ólsen Ólsen og lesa honum lexíuna í spilunum ef hann færi ekki að haga sér eins og lávarði sæmdi.

Varð það til þess að lávarðurinn gafst upp og spilaði rassinn úr buxunum.

Ég þakka þeim sem lásu. Í næsta pistli verður fjallað um Bergen hækkanir og hvernig tvíslemmur geta haft áhrif á þær.

|

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Riddarasaga: Kveðist á

Fyrir einhverju síðan birti skáld nokkurt tvær vísur á bloggsíðunni sinni. Urðu þær upphafið að orðaskiptum milli tveggja einstaklinga á öldum ljósvakans sem engan endi sér fyrir á.

Hér birtast þessar stökur sem Halla berklaskáld orti á sínum tíma:

Öll er lífs míns gleði gleymd
græt ég, örmust meyja
ævi mín er kvöl og eymd
ó, ég þrái að deyja.

Tæringin, minn trúi vin
tæmir fjörsins sjóði
að mér hlæja örlögin
er ég hósta blóði.


Er Kristján kvefskáld rakst á þennan kveðskap duttu honum allar dauðar lýs úr höfði. Hér var ung mær í vanda sem þurfti aðstoð undir eins - líf hennar var í hættu. Hann kvað því í skyndi vísur fjórar til að herða fljóðið upp svo hið illa böl berklanna riði henni ekki að fullu:

Þótt berklaveikin bölvuð herji á þig
þá betur skaltu ævinlega hafa
sálin þín fer ekki á æðra stig
án nokkurs vafa.

En flaustursverkin fara þó á stjá
ef fitlar þú við þessa ógnarpest;
að rótum vandans ráðast skaltu á
það reynst mér hefur ævinlega best.

Og eru þessar illu rætur hvar?
Nú ættir þú að vera búin að sjá'ða:
Lungun eru lausnin - hið rétta svar
og léttvægt ætti þú við það að ráða.

Í sannfæringar krafti, pí og kurt

kemst þú aðeins yfir þennan vanda
Nærtækt væri að nema þau á burt
og nærast eftir það á heilögum anda.

Með vísum þessum færði hann henni einnig kennslubók í esperanto eftir Þórberg Þórðarson. Hafði hann grúskað lítið eitt í henni, meðal annars lesið söguna um Litlu gulu hænuna sem útlagðist "Malgranda flava kokina" á esperanto. Með gjöf sinni hugðist hann þar með sýna velvilja sinn í garð mærinnar svo hún gæti að minnsta kosti stytt sér stundir í óværu berklaveikinnar. Þegar sveinninn ungi hugðist skrifa hver væri hér að verki þorði hann ekki að sýna sitt rétta nafn svo hann kvittaði bréfið með dulnefninu "Kristján kvefskáld".

Svar barst óðfluga. Pilturinn ungi handfjatlaði bréf meyjarinnar titrandi höndum, í óvissu um hvort hún hefði tekið leirburði hans með velvilja ellegar dramblæti og andstyggð. Honum var því stórlega létt er hann las þessar línur:

Í fyrradag var von mín veðrum sorfin
og veiku hjarta sérhvert slag var kvöl
því löngun mín til lífs var alveg horfin:
Ég lagðist upp í rúm og tuggði söl.

Þá birtist þú með bjarma fjörs í glyrnum
og bætir ráðsnjöll sálarfleytu mína
mig bera vængir þínir ofar þyrnum
þú, mín malgranda flava kokina!

Með þökk fyrir esperanto bókina
Halla Magnúsdóttir berklaskáld

Í hinum unga barmi sveinsins kviknaði óslökkvandi neisti skáldagyðjunnar sem blés honum í brjóst þessar línur undir eins og hann hafði lokið lestri bréfsins:

Að iðka nám í erlendu máli
andann græðir, kroppinn stærir
Sé hjartað úr gæsku en hugurinn stáli
haldast þér allir vegir færir.

Í öllu þessu amstri sérhvers dags
þú æ skalt muna að lífsins braut er bein
þá rætast þínar ríku óskir strax
og rottur kvaka um ást á hverri grein.

Höfðu Músurnar brugðist honum þarna því riddaranum hugumprúða barst aldrei svar. Bölvaði hann æ síðan síðustu línunni í sand og ösku og nagaði sig í handarbökin fyrir fljótfærni sína. Henti hann þvínæst öllum sínum Þórbergs Þórðarsonar-bókum beinustu leið í ruslið og las þær aldrei aftur.

|