.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Gleraugun

Þegar maður er barn skiptir maður tímanum í fimm mínútna einingar.
Börn eru oft sögð bestu orðasmiðirnir og þess vegna skulum við kalla þessar einingar því nafni sem litli frændi minn bjó til, klukkumínúta.
Það eru því tólf klukkumínútur í einum klukkutíma og heill sólarhringur er því hvorki meira né minna en 288 klukkumínútur. Það er erfið tala fyrir lítinn krakka að skilja og þess vegna hugsar litli frændi minn mestmegnis um hvað hann gerði fyrir einni klukkumínútu og hvað hann mun gera eftir eina til tvær. Meiri háttar atburðum svo sem bíóferðum eða aðfangadegi er skipt vandlega í fimm mínútna bita því krökkum með litla sál og lítinn munn finnst erfitt að kyngja stærri. En eftir því sem maður eldist renna bitarnir saman og í staðinn fyrir að sparka í bíósætið hjá náunganum fyrir framan þig í eina klukkumínútu og bíða óþreyjufullur í jólasparifötunum í tvær klukkumínútur meðan maður horfir á strumpana í fimmtánda skiptið hættir maður smám saman að pæla í þessu; sérstaklega þegar maður fer að borga bíómiðann sjálfur og gefa jólagjafir.

Vésteinn litli horfði á pakkann sem hann fékk frá Siggu frænku. Ljóminn af jólatrénu og kertunum bliknaði í samanburði við glampann í augum hans þegar hann tætti pappírinn af eins og tígrisdýr ræðst á bráð. Hann hafði beðið þessa aðfangadagskvöld í lengri tíma en hann gat nokkurn tímann ímyndað sér og þetta var ábyggilega í fyrsta skiptið sem hann fékk harðan pakka frá Siggu frænku. Vonbrigðin leyndu sér því ekki þegar hann sá hvað var innan gjafaöskjunnar frá "Sjónstöð Kópavogs". Hann þurfti sko engin asnaleg gleraugu.
Sigga frænka tók varalit upp úr töskunni, makaði honum á varirnar á sér og skellti honum aftur ofan í. Svo hallaði hún sér fram að Vésteini: "Sjáðu kúturinn minn, finnast þér þau ekki falleg?"
Vésteinn svaraði engu.
"Litli drengurinn er bara í sykursjokki, er það ekki Magga mín," sagði hún þá þá við mömmu hans Vésteins, "hann er líka orðinn svo syfjaður, þessi elska."
En Vésteinn var ekki í neinu sykursjokki. Hann virti gleraugun fyrir sér. Þau voru með þykkum glerjum eins og stækkunarglerið hans pabba og með svartri umgjörð og alltof stór á hann. Þegar hann hafði þau á sér kitluðu þau bara eyrun og nefið og hann þurfti að taka þau af sér eftir smátíma. Það versta við það var að þá sá hann bara mömmu og pabba og jólatréð og allt í móðu. En eftir að gömlu gleraugun hans brotnuðu gat hann ekki einu sinni lesið á götunöfnin á skiltunum og þá þurfti aldeilis að færa honum ný gleraugu svo honum gengi vel í skólanum eftir áramót, hafði Sigga frænka sagt. Hún sagðist líka hafa valið þessi svörtu því þau pössuðu svo vel við svartkrullaða hárið hans.
Vésteinn nennti ekki að hugsa um skólann. Það voru svo óendanlega margir klukkumínútur þangað til hann byrjaði.

Vésteinn geispaði. Hann var orðinn pínu syfjaður enda var hann búinn að leika sér að öllum leikföngunum sem hann fékk allt kvöldið. Nema gleraugun, þau setti hann aftur í öskjuna og undir rúm. Svo breiddi hann sjálfur sængina yfir sig.
Næsta dag sat hann í bíl sem brunaði eftir snæhvítri götunni á leið sinni út úr bænum. Hann var að fara til ömmu sinnar sem átti heima upp í sveit. Því miður hafði lymskubragð hans að setja gleraugun undir rúm, í þeirri von að hann þyrfti ekki að taka þau með, ekki heppnast. Hann reyndi að lesa á götuskiltin. Það var ekkert mál að lesa "Bragagata", því það var gatan hans. Svo kom Sól...eyjargata. Sæ...b...brauð.
"Mamma, hvað er Sæbrauð?"
"Hvað ertu nú að bulla Vésteinn minn?"
"Hvað er Sæbrauð mamma," sagði Vésteinn aftur. Fyrir fullorðna fólkinu geta svona spurningar verið svo skrýtnar og hann var orðinn þaulvanur að spyrja aftur og aftur að því sama.
"Mamma, hvað er Sæbrauð? Er það eins og brauðið í faðirvorinu?"
Nú voru þau komin alla leið á Bíldshöfða og mamma hans skildi þess vegna ekkert í spurningunni. "Passaðu þig nú að setja ekki súkkulaðið í fínu fötin þín," sagði hún án þess einu sinni að líta aftur fyrir sig. Vésteinn hélt því áfram að mylja prins pólóið í sætið þangað til þau voru komin að rótum Esjunnar.

Upp í sveit voru margir skrýtnir hlutir. Hann man jólin í fyrra þegar hann heimsótti ömmu síðast, þá var fullt af hestum úti í haga og margt að skoða úti. Nú voru aftur á móti engir hestar og ekkert að sjá neins staðar. Vésteinn geispaði og horfði á svörtu gleraugun sem lágu í hinu aftursætinu.

Þegar jeppinn renndi í hlað á bænum hennar ömmu stökk Vésteinn út og teygði úr sér. Honum var orðið voða illt í rassinum og horfði á stóra fjallið sem bærinn stóð undir og kargaþýfið allt í kring.
"Mundu nú eftir gleraugunum þínum Vésteinn," sagði mamma. En þegar Vésteinn ætlaði að ná í þau í aftursætinu voru þau horfin. "Mamma, þau eru ekki í bílnum," sagði hann, hálfpartinn feginn, hálfpartinn angraður. Nú þyrfti hann að leita að þeim út um allt.
"Hvert settirðu þau Vésteinn? Þau hljóta að vera þarna einhvers staðar. Þú hefur þó ekki týnt þeim?"
"Mamma ég lofa ég tók þau ekki neitt," sagði Vésteinn með þreytumerki í tóninum. Það var alveg dagsatt. Honum hafði ekki komið til hugar að máta þau. Það hlaut einhver annar að hafa tekið þau. Þrátt fyrir að hafa leitað dauðaleit í bílnum fundust gleraugun ekki.

Amma var orðin voða gömul, hafði mamma sagt, og þess vegna mátti Vésteinn ekki vera með mikil læti. Hún bjó ein á sveitabænum með kúna út í fjósi og bröndóttan kött. Hann svaf nær allan tímann og nennti ekki að leika við Véstein þegar hann loksins vaknaði. Í eldhúsinu var allt óbreytt frá því þegar amma var lítil stelpa fyrir utan eitthvað af jólaskrautinu.
Nú sátu þau öll við eldhúsborðið og gláptu út á snæviþakta sveitina. Amma var að baksa við pönnur og potta við gömlu eldavélina. "Jæja mamma gamla," sagði mamma við ömmu. Hún kallaði hana alltaf gömlu. "Heldurðu að hann Vésteinn hafi ekki týnt gleraugunum sínum á leiðinni hingað."
"Mamma ég lofa ég setti þau aldrei á mig," sagði Vésteinn snúðugur á svip. Amma hans þurrkaði sér um hendurnar með rauðköflóttum vasaklút og settist hjá Vésteini. "Veistu drengurinn minn, mín gleraugu vantar líka. Ég lagði þau hérna á eldhúsborðið fyrir örstuttu síðan, og nú eru þau horfin. Þegar ég var lítil stelpa á þessum bæ var alltaf talað um að húsálfarnir þyrftu að fá hluti lánaða ef þeir hurfu. Kannski vantaði vasahníf, tóbakshorn eða jafnvel mjaltafötuna í nokkra daga. Svo birtust þeir á hinum augljósustu stöðum þrátt fyrir að allir á bænum hafi verið nær vissir um að hafa leitað þar. En það var aldrei verið að agnúast út í álfana þótt þeir hafi getað verið hrekkjóttir því þeir pössuðu líka upp á húsið."
"Æ gamla mín, vertu nú ekki að skálda upp í drenginn einhverja vitleysu. Hann hefur ekkert gott af því að heyra svona skröksögur," sagði mamma. Vésteinn horfði stórum augum á ömmu sína og dinglaði fótunum. Gat það verið að álfanir hefðu tekið gleraugun hans? Mikið væri hann þá feginn. Verst að Sigga frænka myndi ekki vera ánægð ef þeir skiluðu gleraugunum ekki. Og til hvers eiginlega þyrftu þeir gleraugu sem væru hvort eð er alltof stór á þá?
Fjölskyldan horfði nú á eldhúsborðið og bruddi keyptu piparkökurnar því allar þær heimabökuðu hennar ömmu voru svo harðar og gamlar. Vésteini fannst mjólkin ekki góð heldur. Hún bragðaðist allt öðruvísi en mjólkin heima og svo var hún heldur ekki í svona fernum.

Það var heldur ekkert að gera úti. Hann eyddi heilum klukkutíma að dandalast meðfram lækjarsytrunni og horfa á lítinn snjótittling vasla um í sandinum. Bráðum heyrði hann mömmu sína kalla á sig að þau væru að fara heim. Hann sneri sér við og hljóp feginn að jeppanum á hlaðinu.Gleraugun höfðu því miður ekki fundist enn.

Mamma hans varalitaði sig og á meðan hún horfði í spegilinn á framrúðuskyggninu. "Vinkaðu nú ömmu þinni bless," sagði hún og þakti aðra umferð á neðrivörina. Vésteinn leit við og sá ömmu í glugganum. Hún vinkaði brosandi á móti og Vésteinn sá ekki betur en hún var með risastór og þykk gleraugu á nefinu. Með svörtum gjörðum.

|