.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Riddarasaga: Kveðist á

Fyrir einhverju síðan birti skáld nokkurt tvær vísur á bloggsíðunni sinni. Urðu þær upphafið að orðaskiptum milli tveggja einstaklinga á öldum ljósvakans sem engan endi sér fyrir á.

Hér birtast þessar stökur sem Halla berklaskáld orti á sínum tíma:

Öll er lífs míns gleði gleymd
græt ég, örmust meyja
ævi mín er kvöl og eymd
ó, ég þrái að deyja.

Tæringin, minn trúi vin
tæmir fjörsins sjóði
að mér hlæja örlögin
er ég hósta blóði.


Er Kristján kvefskáld rakst á þennan kveðskap duttu honum allar dauðar lýs úr höfði. Hér var ung mær í vanda sem þurfti aðstoð undir eins - líf hennar var í hættu. Hann kvað því í skyndi vísur fjórar til að herða fljóðið upp svo hið illa böl berklanna riði henni ekki að fullu:

Þótt berklaveikin bölvuð herji á þig
þá betur skaltu ævinlega hafa
sálin þín fer ekki á æðra stig
án nokkurs vafa.

En flaustursverkin fara þó á stjá
ef fitlar þú við þessa ógnarpest;
að rótum vandans ráðast skaltu á
það reynst mér hefur ævinlega best.

Og eru þessar illu rætur hvar?
Nú ættir þú að vera búin að sjá'ða:
Lungun eru lausnin - hið rétta svar
og léttvægt ætti þú við það að ráða.

Í sannfæringar krafti, pí og kurt

kemst þú aðeins yfir þennan vanda
Nærtækt væri að nema þau á burt
og nærast eftir það á heilögum anda.

Með vísum þessum færði hann henni einnig kennslubók í esperanto eftir Þórberg Þórðarson. Hafði hann grúskað lítið eitt í henni, meðal annars lesið söguna um Litlu gulu hænuna sem útlagðist "Malgranda flava kokina" á esperanto. Með gjöf sinni hugðist hann þar með sýna velvilja sinn í garð mærinnar svo hún gæti að minnsta kosti stytt sér stundir í óværu berklaveikinnar. Þegar sveinninn ungi hugðist skrifa hver væri hér að verki þorði hann ekki að sýna sitt rétta nafn svo hann kvittaði bréfið með dulnefninu "Kristján kvefskáld".

Svar barst óðfluga. Pilturinn ungi handfjatlaði bréf meyjarinnar titrandi höndum, í óvissu um hvort hún hefði tekið leirburði hans með velvilja ellegar dramblæti og andstyggð. Honum var því stórlega létt er hann las þessar línur:

Í fyrradag var von mín veðrum sorfin
og veiku hjarta sérhvert slag var kvöl
því löngun mín til lífs var alveg horfin:
Ég lagðist upp í rúm og tuggði söl.

Þá birtist þú með bjarma fjörs í glyrnum
og bætir ráðsnjöll sálarfleytu mína
mig bera vængir þínir ofar þyrnum
þú, mín malgranda flava kokina!

Með þökk fyrir esperanto bókina
Halla Magnúsdóttir berklaskáld

Í hinum unga barmi sveinsins kviknaði óslökkvandi neisti skáldagyðjunnar sem blés honum í brjóst þessar línur undir eins og hann hafði lokið lestri bréfsins:

Að iðka nám í erlendu máli
andann græðir, kroppinn stærir
Sé hjartað úr gæsku en hugurinn stáli
haldast þér allir vegir færir.

Í öllu þessu amstri sérhvers dags
þú æ skalt muna að lífsins braut er bein
þá rætast þínar ríku óskir strax
og rottur kvaka um ást á hverri grein.

Höfðu Músurnar brugðist honum þarna því riddaranum hugumprúða barst aldrei svar. Bölvaði hann æ síðan síðustu línunni í sand og ösku og nagaði sig í handarbökin fyrir fljótfærni sína. Henti hann þvínæst öllum sínum Þórbergs Þórðarsonar-bókum beinustu leið í ruslið og las þær aldrei aftur.

|