Áfram, út í stríð
"Lukás höfuðsmaður sat á hesti sínum og naut félagsskapar Svejks, sem hljóp við hlið hans , eins og hann gæti nú ekki beðið lengur þeirrar stundar er hann fengi að kljást við óvinina. Líkt og vant var, lét hann móðan mása: - Hafið þér ekki veitt því eftirtekt, herra höfuðsmaður, að margir af hermönnunum eru dæmalausir amlóðar? Þeir hafa ekki einu sinni hálfa vætt á bakinu, og samt geta þeir ekki silast áfram. Það þyrfti að tala yfir hausamótunum á þeim, svona líkt og Buchánek sálugi höfuðsmaður var vanur að gera, maðurinn sem skaut sig út af brúðkaupsvíxli, sem hann hafði ginnt tilvonandi tengdaföður sinn að skrifa upp á, en peningunum sóaði hann í vín og stelpur. Svo tók hann annan víxil með öðrum tilvonandi tengdaföður á og fór nú hyggilegar að ráði sínu, því hann tapaði öllu á einu bretti í spilum, en lét stelpurnar eiga sig. Ekki dugði þessi fjandi og hann fór á stúfana að leita sér að þriðja tilvonandi tengdaföðurnum. Fyrir þann víxil keypti hann sér hest, víxlaðan Arabajálk...
Lukás höfuðsmaður stökk af baki.
- Svejk, sagði hann ógnandi. - Ef þér komið með fjórða tengdaföðurinn, sparka ég yður í skurðinn.
Hann snaraði sér á bak aftur og Svejk hélt áfram, alvarlegur á svip:
- Tilkynni, herra höfuðsmaður, um fjórða tengdaföðurinn gat alls ekki verið að ræða, því hann skaut sig, þegar hér var komið sögu.
- Mikið var, sagði Lukás höfuðsmaður.
- En svo að við komum nú aftur að efninu, hélt Svejk áfram, - þá er það mín lítilmótlega skoðun, að aðrar eins ræður og Buchánek sálugi höfuðsmaður hélt yfir hermönnunum, þegar þeir voru að uppgefast á göngu, sé alveg bráðnauðsynlegt að halda við öll slík tækifæri. Hann lét okkur nema staðar og þyrpast umhverfis sig eins og kjúklinga kringum varphænu og hóf reiðilesturinn: - Slóðar og sluddmenni, fretkallar og fjörulallar! Ekki kunnið þið að meta það, að þið fáið að ganga á jarðkringlunni. Þið ættuð að vita, hvernig það er að ganga á sólunni; þar sem sérhver maður, sem á þessari eymdarplánetu okkar vegur 120 pund, vegur 3400 pund, malpokinn 3 tonn og byssuhólkurinn 1500 pund. Ætli þið mynduð ekki stynja þá og sópa ryk vegarins með lafandi tungunni, eins og uppgefnir hundar?
Einn okkar, óhamingjusamur barnakennari, gerðist svo djarfur að biðja um orðið og sagði: - Afsakið herra höfuðsmaður! Á mánanum vegur 120 punda maður aðeins 60 pund. Þar yrði okkur því léttara um gang, þar eð malurinn yrði ekki nema 8 pund. Á mánanum myndum við svífa en ekki ganga.
- Hvað heyri ég, sagði Buchánek sálugi höfuðsmaður. - Þakkaðu þínum sæla að þú færð aðeins jarðneskan löðrung, því að ef þú fengir mánasnoppung myndirðu svífa alla leið til Alpafjalla og fara þar í kássu, en ef ég gæfi þér eitt af þessum blýþungu sólarkjaftshöggum, myndu kvarnirnar malast í hausnum á þér og kollurinn fjúka suður til Blálands. Endirinn var sá að hann gaf honum þennan venjulega, jarðneska löðrung. Barnakennarinn fór að snökta og við héldum áfram. Alla leiðina var hann að kjökra út af því, að farið hefði verið með sig eins og skynlausa skepnu. Loks var hann látinn hreinsa kamra, en hann þoldi það ekki og dó úr uppgerð í sjúkrahúsi."
|
Lukás höfuðsmaður stökk af baki.
- Svejk, sagði hann ógnandi. - Ef þér komið með fjórða tengdaföðurinn, sparka ég yður í skurðinn.
Hann snaraði sér á bak aftur og Svejk hélt áfram, alvarlegur á svip:
- Tilkynni, herra höfuðsmaður, um fjórða tengdaföðurinn gat alls ekki verið að ræða, því hann skaut sig, þegar hér var komið sögu.
- Mikið var, sagði Lukás höfuðsmaður.
- En svo að við komum nú aftur að efninu, hélt Svejk áfram, - þá er það mín lítilmótlega skoðun, að aðrar eins ræður og Buchánek sálugi höfuðsmaður hélt yfir hermönnunum, þegar þeir voru að uppgefast á göngu, sé alveg bráðnauðsynlegt að halda við öll slík tækifæri. Hann lét okkur nema staðar og þyrpast umhverfis sig eins og kjúklinga kringum varphænu og hóf reiðilesturinn: - Slóðar og sluddmenni, fretkallar og fjörulallar! Ekki kunnið þið að meta það, að þið fáið að ganga á jarðkringlunni. Þið ættuð að vita, hvernig það er að ganga á sólunni; þar sem sérhver maður, sem á þessari eymdarplánetu okkar vegur 120 pund, vegur 3400 pund, malpokinn 3 tonn og byssuhólkurinn 1500 pund. Ætli þið mynduð ekki stynja þá og sópa ryk vegarins með lafandi tungunni, eins og uppgefnir hundar?
Einn okkar, óhamingjusamur barnakennari, gerðist svo djarfur að biðja um orðið og sagði: - Afsakið herra höfuðsmaður! Á mánanum vegur 120 punda maður aðeins 60 pund. Þar yrði okkur því léttara um gang, þar eð malurinn yrði ekki nema 8 pund. Á mánanum myndum við svífa en ekki ganga.
- Hvað heyri ég, sagði Buchánek sálugi höfuðsmaður. - Þakkaðu þínum sæla að þú færð aðeins jarðneskan löðrung, því að ef þú fengir mánasnoppung myndirðu svífa alla leið til Alpafjalla og fara þar í kássu, en ef ég gæfi þér eitt af þessum blýþungu sólarkjaftshöggum, myndu kvarnirnar malast í hausnum á þér og kollurinn fjúka suður til Blálands. Endirinn var sá að hann gaf honum þennan venjulega, jarðneska löðrung. Barnakennarinn fór að snökta og við héldum áfram. Alla leiðina var hann að kjökra út af því, að farið hefði verið með sig eins og skynlausa skepnu. Loks var hann látinn hreinsa kamra, en hann þoldi það ekki og dó úr uppgerð í sjúkrahúsi."