Önnur hljómsveitarsaga
Eitt sinn var sveitin pöntuð á knæpuna Stóra-Ben(á ensku Big-Ben) til að leika fyrir léttum dansi tindilfættra breiðhyltinga. Er þar yfirleitt glaumur og gleði hverja helgi og mannfögnuður mikill fram á rauða nótt. Meðlimir sveitarinnar gerðu sér gott til glóðarinnar og litu til helgarinnar með bjarma í augum enda hefur orðstír staðarins borist víða og meira að segja alla leið í litla 101.
Klukkan hálfátta á föstudagskvöldi sat píanóleikarinn í hnipri í aftursætinu á litlum Opel Astra, krókloppinn á fingrunum og hafði meira að segja ekki haft tíma til að greiða sér eftir að hafa skellt sér í vestið og hnýtt bindishnútinn. Kontrabassaleikarinn keyrði. Það kom gufa þegar þeir önduðu og báðum var skítkalt. Kontrabassinn sat við hliðina á í aftursætinu, breiddi úr sér og lét fara vel um sig. Efri hluti hljóðfærisins teygði sig alla leið upp undir hélaða afturrúðuna og gerði það að verkum að píanóleikarinn hafði lítið sem ekkert pláss til umráða og heldur ekkert næði, því í hvert skipti sem beygt var til vinstri þurfti hann að beita öllum sínum kröftum við að ýta bassanum til hægri svo hann tæki ekki slagsíðu og truflaði ökumanninn.
Ferðinni var heitið á Stóra-Ben og var löng leið fyrir höndum. Báðir þögðu alla leið nema kontrabassinn því það söng í honum þegar vélin náði ákveðnum snúningi sem var á sama tíðnisviði og strengirnir í bassanum blöðruðu alla leiðina og virtust ekkert ætla að þegja.
Þegar á staðinn var komið virtist allt í himnalagi. Húsnæði staðarins var til fyrirmyndar í alla staði og á móti hljóðfæraleikurunum tók vingjarnlegur eigandi í notalegu umhverfi. Á knæpunni var veglegt barborð með ágætis úrvali áfengra drykkja og spegli á bak við sem tvöfaldaði innihaldið. Síðan voru þarna nokkur ballskákarborð og látlaust svið.
Þá var að fá líf í kalna fingur og útlimi eftir heimskautaferðina upp í Breiðholtið og bíða þangað til hinir hljóðfæraleikararnir komu. Þeir höfðu haft það náðugt í vel upphitaðri glæsikerru með rafknúnum hauspúðum og DVD-spilara.
Eftir um klukkutíma var ágætlegur fjöldi gesta saman kominn á staðnum, ýmist fastagestirnir að drekkja sorgum sínum eða einhverjar villuráfandi flökkukindur sem vissu ekki almennilega hvað þeir voru að gera þarna inni. Fullkomið tækifæri, hugsuðu Sababa-meðlimir og töldu í fyrsta lagið. Einhverjum virtist líka það ágætlega og þeir settust í hóflegri fjarlægð frá sviðinu og hlustuðu á.
Nú hafði píanóleikarinn notað hljómborðs-statífið sem sést á myndinni í rúm þrjú ár án vandkvæða. Það var hins vegar í sérstaklega vondu skapi þetta kvöld og ákvað að bila.
Skyndilega súnkaði heljarþunga hljómborðið niður beint á tærnar hans(nei þetta eru ekki ýkjur) þegar helvítis skrúfan gaf sig. Kristján kæfði þó niður sársaukaveinið, kraup niður á gólf þar sem hljómborðið lá dasað eftir fallið og hélt áfram að spila með myndarbrag þar til lagið var búið. Þá var farið og náð í tvo auða stóla(sem nóg var af) og haldið áfram. Eftir tónleikana henti hann statífinu í ruslagám og hefur það áreiðanlega endað sína lífdaga þar.
Sababa kláraði sem betur fer tónleikana án fleiri stóráfalla þrátt fyrir að einn fastagesturinn hafi ekki verið alveg nógu sáttur með tónlistina og tjáð reiði sína með því að henda tómu bjórglasi að sviðinu.
Eftir tónlistaratriðið kom í ljós að önnur skemmtiatriði voru einnig í boði þetta kvöld. Þegar síðasta laginu hafði verið rennt í gegn var nú orðið troðið á staðnum og þegar Sababa grennslaðist fyrir um ástæðuna sagði eigandinn þetta vera magadansaðdáendur, en magadansmeyjar höfðu verið leigðar þetta kvöld gestunum til yndisauka. Hvað um það, hugsuðu hljóðfæraleikararnir, gerðu upp við eigandann og pökkuðu sínu dóti baksviðs og ætluðu síðan að halda út um bakdyrnar. Þar mættu þau þremur magadansstúlkum frekar léttklæddum og með ýmiss konar glimmer og húllumhæ á þeim litlu pjötlum sem náðu að hanga utan á þeim.
Þegar allt dótið virðist vera komið uppgötvar hinn seinheppni píanóleikari að magnarinn hans verðmæti varð eftir á sviðinu. Ákveður hann þegar í stað að strunsa til baka og ná í gripinn. Hann skeytir engu um hvað kynnirinn á sviðinu er að segja þessa stundina en hefði einhver annar verið viðstaddur(auk hinna erlendu magadansara sem kunnu ekki bofs í íslensku) gæti hann sagt honum að magadansarar væru næstir á sviðið. Um leið og píanóleikarinn strunsar inn fyrir allra augliti, bölvandi yfir mörðu tánöglunum sem hann uppskar í kjölfar bæklaða statífsins, beinist kastljós sviðsins samstundis að honum og kynnirinn kallar "Gjörið svo vel dömur mínar og herrar".
Það var dauðaþögn í salnum. Kristján, þrátt fyrir íturvaxnar mjaðmir og óaðfinnanlegan bindishnút vakti ekki mikla lukku meðal miðaldra karlkyns gestanna sem vildu aðeins bert hold en engan bólugrafinn fjörulalla sem nú dandalaðist á sviðinu fussandi og sveiandi yfir því hvar magnarinn hans gæti verið. Vegna þessa sterka kastljóss og dauðaþagnarinnar sem ríkti í salnum áttaði hann sig ekki strax á hvað var um að vera og æddi fram og aftur tínandi upp rafmagnssnúrur, fótstig fyrir hljómborðið og ýmiss konar dinglumdangl sem hafði orðið eftir á sviðinu.
Eitt þétt spark í rassinn frá eigandanum og bólugrafni píanóleikarinn endasentist niður hinar mörgu tröppur Stóra-Ben og endaði fyrir framan fætur hinna meðlimanna. Að lokum fékk hann píanófótstigið í hausinn og vissi ekki af sér fyrr en hann var kominn heim.
Endir