.

laugardagur, janúar 22, 2005

Önnur hljómsveitarsaga

Kristján spilaði eitt sinn á píanó í kletzmer hljómsveitinni Sababa. Fór hún út um víðan völl hverja helgi og lék sína tónlist, kletzmer aðdáendum(sem og öðrum aðdáendum) til skemmtunar.
Eitt sinn var sveitin pöntuð á knæpuna Stóra-Ben(á ensku Big-Ben) til að leika fyrir léttum dansi tindilfættra breiðhyltinga. Er þar yfirleitt glaumur og gleði hverja helgi og mannfögnuður mikill fram á rauða nótt. Meðlimir sveitarinnar gerðu sér gott til glóðarinnar og litu til helgarinnar með bjarma í augum enda hefur orðstír staðarins borist víða og meira að segja alla leið í litla 101.

Klukkan hálfátta á föstudagskvöldi sat píanóleikarinn í hnipri í aftursætinu á litlum Opel Astra, krókloppinn á fingrunum og hafði meira að segja ekki haft tíma til að greiða sér eftir að hafa skellt sér í vestið og hnýtt bindishnútinn. Kontrabassaleikarinn keyrði. Það kom gufa þegar þeir önduðu og báðum var skítkalt. Kontrabassinn sat við hliðina á í aftursætinu, breiddi úr sér og lét fara vel um sig. Efri hluti hljóðfærisins teygði sig alla leið upp undir hélaða afturrúðuna og gerði það að verkum að píanóleikarinn hafði lítið sem ekkert pláss til umráða og heldur ekkert næði, því í hvert skipti sem beygt var til vinstri þurfti hann að beita öllum sínum kröftum við að ýta bassanum til hægri svo hann tæki ekki slagsíðu og truflaði ökumanninn.
Ferðinni var heitið á Stóra-Ben og var löng leið fyrir höndum. Báðir þögðu alla leið nema kontrabassinn því það söng í honum þegar vélin náði ákveðnum snúningi sem var á sama tíðnisviði og strengirnir í bassanum blöðruðu alla leiðina og virtust ekkert ætla að þegja.

Þegar á staðinn var komið virtist allt í himnalagi. Húsnæði staðarins var til fyrirmyndar í alla staði og á móti hljóðfæraleikurunum tók vingjarnlegur eigandi í notalegu umhverfi. Á knæpunni var veglegt barborð með ágætis úrvali áfengra drykkja og spegli á bak við sem tvöfaldaði innihaldið. Síðan voru þarna nokkur ballskákarborð og látlaust svið.

Þá var að fá líf í kalna fingur og útlimi eftir heimskautaferðina upp í Breiðholtið og bíða þangað til hinir hljóðfæraleikararnir komu. Þeir höfðu haft það náðugt í vel upphitaðri glæsikerru með rafknúnum hauspúðum og DVD-spilara.
Eftir um klukkutíma var ágætlegur fjöldi gesta saman kominn á staðnum, ýmist fastagestirnir að drekkja sorgum sínum eða einhverjar villuráfandi flökkukindur sem vissu ekki almennilega hvað þeir voru að gera þarna inni. Fullkomið tækifæri, hugsuðu Sababa-meðlimir og töldu í fyrsta lagið. Einhverjum virtist líka það ágætlega og þeir settust í hóflegri fjarlægð frá sviðinu og hlustuðu á.

Nú hafði píanóleikarinn notað hljómborðs-statífið sem sést á myndinni í rúm þrjú ár án vandkvæða. Það var hins vegar í sérstaklega vondu skapi þetta kvöld og ákvað að bila.
Skyndilega súnkaði heljarþunga hljómborðið niður beint á tærnar hans(nei þetta eru ekki ýkjur) þegar helvítis skrúfan gaf sig. Kristján kæfði þó niður sársaukaveinið, kraup niður á gólf þar sem hljómborðið lá dasað eftir fallið og hélt áfram að spila með myndarbrag þar til lagið var búið. Þá var farið og náð í tvo auða stóla(sem nóg var af) og haldið áfram. Eftir tónleikana henti hann statífinu í ruslagám og hefur það áreiðanlega endað sína lífdaga þar.
Sababa kláraði sem betur fer tónleikana án fleiri stóráfalla þrátt fyrir að einn fastagesturinn hafi ekki verið alveg nógu sáttur með tónlistina og tjáð reiði sína með því að henda tómu bjórglasi að sviðinu.

Eftir tónlistaratriðið kom í ljós að önnur skemmtiatriði voru einnig í boði þetta kvöld. Þegar síðasta laginu hafði verið rennt í gegn var nú orðið troðið á staðnum og þegar Sababa grennslaðist fyrir um ástæðuna sagði eigandinn þetta vera magadansaðdáendur, en magadansmeyjar höfðu verið leigðar þetta kvöld gestunum til yndisauka. Hvað um það, hugsuðu hljóðfæraleikararnir, gerðu upp við eigandann og pökkuðu sínu dóti baksviðs og ætluðu síðan að halda út um bakdyrnar. Þar mættu þau þremur magadansstúlkum frekar léttklæddum og með ýmiss konar glimmer og húllumhæ á þeim litlu pjötlum sem náðu að hanga utan á þeim.
Þegar allt dótið virðist vera komið uppgötvar hinn seinheppni píanóleikari að magnarinn hans verðmæti varð eftir á sviðinu. Ákveður hann þegar í stað að strunsa til baka og ná í gripinn. Hann skeytir engu um hvað kynnirinn á sviðinu er að segja þessa stundina en hefði einhver annar verið viðstaddur(auk hinna erlendu magadansara sem kunnu ekki bofs í íslensku) gæti hann sagt honum að magadansarar væru næstir á sviðið. Um leið og píanóleikarinn strunsar inn fyrir allra augliti, bölvandi yfir mörðu tánöglunum sem hann uppskar í kjölfar bæklaða statífsins, beinist kastljós sviðsins samstundis að honum og kynnirinn kallar "Gjörið svo vel dömur mínar og herrar".

Það var dauðaþögn í salnum. Kristján, þrátt fyrir íturvaxnar mjaðmir og óaðfinnanlegan bindishnút vakti ekki mikla lukku meðal miðaldra karlkyns gestanna sem vildu aðeins bert hold en engan bólugrafinn fjörulalla sem nú dandalaðist á sviðinu fussandi og sveiandi yfir því hvar magnarinn hans gæti verið. Vegna þessa sterka kastljóss og dauðaþagnarinnar sem ríkti í salnum áttaði hann sig ekki strax á hvað var um að vera og æddi fram og aftur tínandi upp rafmagnssnúrur, fótstig fyrir hljómborðið og ýmiss konar dinglumdangl sem hafði orðið eftir á sviðinu.

Eitt þétt spark í rassinn frá eigandanum og bólugrafni píanóleikarinn endasentist niður hinar mörgu tröppur Stóra-Ben og endaði fyrir framan fætur hinna meðlimanna. Að lokum fékk hann píanófótstigið í hausinn og vissi ekki af sér fyrr en hann var kominn heim.
Endir

|

sunnudagur, janúar 16, 2005

Á bleiku ljósi

Úff. Ég þurfti að skrifa hvert einasta orð upp aftur á þessari sögu. Og hérna er aðeins fyrsti hluti. Endilega segið ykkar álit á henni því af henni lekur blóð, sviti og tár!


---


1.

Tóm baunadós valt eftir Fajib stræti sem lá í norðurhluta Takma borgar. Hún byrjaði ferð sína í tunglskininu við niðurfallið sem lá fyrir framan vefnaðarvörubúðina og hélt í vesturátt framhjá slátraranum og loks út á miðja rykuga krossgötuna þar sem vindurinn hélt áfram að bera hana yfir Ghon-strætið.

Enginn var á ferli.

Baunadósin hægði ferðina og var nærri búin að staðnemast við litla gosbrunninn þar sem lögregluskrifstofan var, en ný vindhviða feykti henni áfram og loks endaði hún ferð sína í sölubás grænmetiskaupmannsins sem stóð galtómur og gein við næturmyrkrinu eins og fuglsungi sem galopnar kjaftinn í von um að fá æti, hvort sem það voru ormar eða nýtt grænmeti.

Þegar skarkalinn frá dósinni var hljóðnaður gerðist nokkuð skrýtið. Umferðarljósin á krossgötunum, sem yfirleitt voru ljóslaus að næturþeli, kveiktu skyndilega á sér. Hefði einhver manneskja verið á ferli um Fajib strætið hefði hann séð grænt ljós skína sínu skærasta og gula ljósið sem var orðið brotið að mestu og lýsti venjulegu ljósi blikka til og frá í undarlegum rytma. Að lokum enduðu öll umferðarljósin á því rauða áður en þau hurfu fyrirvaralaust og máninn hóf aftur að sjá um að lýsa Takma borg eins og ekkert hefði í skorist.

---

“Peningarnir hljóta að duga fyrir þremur kjúklingum. Og mundu svo eftir því að láta slátrarann fá peningana fyrir svíninu sem hann skrifaði hjá okkur um daginn. Svo þarftu að koma og hjálpa mér að taka til,” heyrðist úr eldhúsinu.

“Já mamma,” sagði Sófía litla og fór í sandalana sína. Svo valhoppaði hún niður tréstigann og hljóp niður eftir götunni til slátrarans. Sólin var nú komin nokkurn spöl upp á himininn og stóra bronsklukkan hóf að slá níu högg skömmu áður en Sófía litla kom að markaðstorginu. Þessar fáu stundir dagsins þar sem hitastigið var hvorki of kalt né heitt var allt troðið af fólki í sínum venjulegu verslunarleiðangrum. Sófía sá rétt glitta í skilti slátrarans og kreisti fastar um peningana sem hún hélt á í lófanum. Svo hélt hún áfram að olnboga sig áfram eftir troðnu Fajib strætinu.

Raj slátrari var örlítið bústinn og töluvert dekkri yfirlitum en venjulegur maður. Hárið var byrjað að þynnast á hvirflinum og hann þurrkaði blóði drifnu hendur sínar í svuntuna á meðan hann þeyttist um bak við búðarborðið í undarlegum dansi og afgreiddi fólk sem mest hann mátti. Þegar röðin var komin að Sófíu dró hann djúpt inn andann, brosti til hennar og þurrkaði svitadropa af enninu á sama stað á svuntunni og áðan. “Jæja Sófía mín, hvað viltu svo fá í dag?” sagði hann.

Sófía rétti honum peningana fyrir svíninu sem hún hafði keypt í síðustu viku. Svo mumlaði hún feimnislega að hún ætlaði að fá þrjá kjúklinga.

“Auðvitað auðvitað barnið mitt.” Raj seildist eftir snærisspotta og batt þrjá væna kjúklinga saman utan um hálsana. Þegar kom í ljós að Sófía hafði ekki næga peninga meðferðis tók hann gleraugun af sér og klóraði sér í kollvikunum. “Já litla mín, því miður get ég ekki skrifað þetta hjá ykkur, þið voruð svo sein að borga mér núna. Segðu mömmu þinni að ég geti bara selt þér tvo.”

“Ég skal borga kjúklinginn,” sagði rödd bak við Sófíu. Hún sneri sér rakleiðis við og horfði upp til hávaxins manns í gráum kufli. Hann var með stór gleraugu með svörtum gjörðum og svart hár. Hann rétti Raj kaupmanni rakleiðis þá upphæð sem vantaði fyrir þriðja kjúklingnum og gekk út án þess að kveðja. Sófía sneri sér aftur að Raj með undrunarsvip og hljóp síðan út á eftir manninum til að þakka honum.

Úti á götu var nú orðin helmingi meiri mannþröng en áður. Sófía kom þó fljótt á manninn þar sem hann hliðraði sér á milli sölubása og hestvagna. Hún hljóp á eftir honum tindilfætt og smeygði sér auðveldlega milli ólífuolíutunna, asna og geita sem stóðu bundin við sölubásana. Hún hnippti loks í hann þar sem hann stóð við blaðasjálfsalana að kaupa sér dagblað.

“Afsakaðu herra, ég vildi segja takk kærlega fyrir kjúklinginn. Ég get borgað þér upphæðina ef þú vilt fylgja mér heim.”

Maðurinn setti upp brosvipru. “Þú þarft þess ekki, litla mín. Segðu mömmu þinni bara að Raj kaupmaður hafi reynt að svindla á þér, eins og venjulega.”

Í kjölfarið fylgdi vandræðaleg þögn, hvorugt vitandi hvað þau ættu að segja.

“Rosalega er þungt loft,” sagði Sófía að lokum rétt eins og hún væri að tala við sjálfa sig. Hávaxni maðurinn tók hana upp og setti hana á ólífutunnu sem stóð hjá ólífubásnum. “Svona væna, er þetta ekki betra.”

Nú var troðningurinn orðinn feikilega mikill og maðurinn átti í örlitlum erfiðleikum með hinn gríðarlega straum fólks þar sem enginn virtist vita hvert hann væri að fara. Sófía leit yfir mannhafið sem teygði sig eftir Fajib stræti eins langt og augað eygði. Troðningurinn virtist samt vera hvað þéttastur við gatnamótin þar sem hestvagnar og menn með varning á troðfullum hjólbörum öskruðu skammaryrðum hver á annan. Sófía sá að umferðarljósin voru blikkandi í sífellu og mennirnir hnakkrifust um það hver þeirra ætti réttinn fyrst. Í rykmekkinum á miðjum gatnamótunum sá Sófía móta fyrir prjónandi hestum sem reyndu af engri sýnilegri ástæðu að koma sér burt.

“Af hverju láta umferðarljósin svona?” spurði Sófía manninn. “Eru þau biluð?”

“Hvað segirðu barn?” Maðurinn leit snögglega upp með skelfingarsvip. “Farið frá!” hrópaði hann og ýtti harkalega til hliðar konu á miðjum aldri með fullt fang af appelsínum svo þær rúlluðu út um allt. “Farið frá allir, lofið mér að komast!”öskraði hann síðan og tróð sér leið gegnum mannþröngina. Síðan hvarf hann inn um ein af mörgum hliðargöngum á Fajib götunni.

Sófía stóð ein eftir á tunnunni. Hún var ekki viss um hvort hún þorði að hoppa niður í mannþröngina og reyna að komast heim eða bíða lengur í steikjandi hitanum sem virtist ætla allt lifandi að drepa. Eftir því sem efasemdirnar jukust beið hún bara lengur og hún þurfti að komast á klósettið. Rykið smaug inn í augu hennar, eyrun, nefið og munninn eins og milljónir agnarsmárra moskítófluga.

Brátt byrjaði henni að vera mikið mál og hún tvísteig á tunnunni til að þola þrýstinginn betur. Stóru ólífutunnurnar í Takma borg eru þekktar fyrir annað en að vera stöðugar og þegar geit sem var tjóðruð við einn básinn rak afturendann í tunnuna sporðreistist hún og Sófía litla hentist niður með angistarópi. Fyrir eitthvert kraftaverk náði hún að koma sér á fæturna og veltist nú til og frá í mannmergðinni.

Á því augnabliki gerðist það. Gífurlegur hvellur heyrðist frá gatnamótunum þar sem troðningurinn var hvað þéttastur. Allir öskruðu í vitfirrtu brjálæði og Sófía sá alls konar rusl og smáhluti þeytast langt upp í loftið. Strax á næstu sekúndum minnkaði troðningurinn þegar allir byrjuðu að hlaupa frá gatnamótunum í angist en Sófía stóð grafkyrr í sömu sporunum, lömuð af skelfingu. Hræðslan varð til þess að hún gat ekki haldið lengur í sér og þegar asnar, hænur og fólk á öllum aldri forðaði sér eins og það mest mátti stóð lítil stúlka snöktandi á ólífutunnu með lítinn poll fyrir neðan, ein og yfirgefin.

Hún sá í gegnum tárin hrikalega útleikin lík sem höfðu lent í miðju sprengingunnar. Alls staðar var blóðugt fólk að reyna hvað það gat að koma sér í burtu meðan það hélt fyrir sár sín með óhreinum klútum, sandölum eða hverju sem hendi var næst. Þeir sem ekki voru svo heppnir að geta komið sér í burtu lágu meðvitundarlausir í götunni og grátandi mæður eða lítil börn stumruðu yfir dætrum sínum, bræðrum eða foreldrum. Sófía sá hvar þrír menn í stórum klossum með svarta klúta fyrir andlitinu hlupu um. Þeir voru með skotfærabelti um öxlina og riffla og skutu tilviljanakennt upp í loftið. Einn þeirra öskraði eitthvað sem líktist skipunum á hina tvo. Grímuklæddi maðurinn lengst til vinstri kveikti sér í sígarettu og náði í stóran svartan Blitz flugeld innan undir kuflinum. Hann braut prikið af og lamdi gamlan gráskeggjaðan mann, alblóðugan í andlitinu sem reyndi að staulast í burtu. Frekari drunur og sprengingar heyðust nú neðar í götunni og ópin og skrækirnir jukust aftur um helming.

Maðurinn setti sígarettuna upp í sig og dró reykinn djúpt niður í lungun. Svo kveikti hann í flugeldinum með sígarettunni og henti honum hirðuleysislega frá sér. Hinir tveir félagar hans hlupu í burtu og hurfu inn í eitthvert öngstræti. Sófía stóð grafkyrr og horfði stjörf á athafnir grímuklædda byssumannsins. Áður en hann hljóp í burtu horfði hann á Sófíu og lagfærði klútinn eins og böðull fyrir aftöku sem vill ekki þekkjast. Svo lét hann sig einnig hverfa.

Sófía hélt áfram að vola. Nú fór fólki að fækka örlítið þótt enn ríkti alger ringulreið hvert sem litið var. Kveikiþráðurinn brann upp á örskotsstundu og stóri Blitz flugeldurinn þaut stjórnlaust af stað. Hann rakst utan í sölubásana í trylltu flugi sem ætlaði engan enda að taka. Sófía var enn sem lömuð og horfði á flugeldinn kastast til og frá um strætið með ýlfri sem ætlaði að skera eyrun af fólki.

Hún hvorki heyrði né sá hvellinn þegar flugeldurinn sprakk því það síðasta sem hin stjörfu, tárvotu augu hennar skynjuðu var stóri sprengjuklumpurinn koma æðandi eins og mannýgur boli að höfði sér. Svo varð allt svart.

|

mánudagur, janúar 10, 2005

Mylla

_|_|_
_|X|_
_|_|_



|

mánudagur, janúar 03, 2005

Á döfinni

Ný saga á leiðinni þrátt fyrir mikið annríki við atriði fyrir söngvakeppnina. Birti hérna viðureign Grettis og Gláms eins og Þórarinn Eldjárn sér hana frá tveimur sjónarhornum:

Grettir og Glámur I

Glámur minnti á mann er kom úr jötu;
mestur varð hann eftir að hann dó.
Hann lagði margan stein í Grettisgötu
grimmastur var augasteinninn þó.

Í Drangey liggur líkaminn af Gretti
brátt líður þungur pillusvefn af brá.
Flikkið vaknar allt á einu bretti
er að fara að teygja úr sér, en þá

lyftir Glámur gleraugum af nefi
og Grettir verður undir eins við það
svo hræddur að hann heldur varla slefi
og hefur ekki talfærin úr stað

en stynur loks er glyrnurnar úr Glámi
gefa honum ofurlítið frí:
"Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig
ef þú meinar ekki neitt með því."

Grettir og Glámur II

Á glámbekk liggur grettistakið mitt
og gerir hitt.

Reyndar veit ég ekki alveg hvað hann var að pæla með annan hlutann. En hann er svolítil ádeila þrátt fyrir að vera stuttur.

|