.

sunnudagur, mars 20, 2005

Reglur í fegurðarsamkeppnum

Lengi hefur vantað haldbærar reglur um hvernig skuli dæma og meta kvenfólk í fegurðarsamkeppnum. Ákveðið var að bæta úr því og bókin Hestar eftir Theodór Arnbjörnsson höfð til hliðsjónar:

1. Kona í kyrrstöðu
Kona í kyrrstöðu skal sýnd svo, að hún standi á eðlilega sléttu. Verði einhver vafaatriði, leitar maður hins rétta með því að fara með konuna afsíðis, láta hana breyta um stellingar og gera hið óljósa ljóst. Í einrúmi má þannig oft fá konuna til að sýna það sem hún kann að vera treg til að auglýsa í margmenni.

2. Kona séð framan frá
Eyrun séu há, oddhvöss, uppvafin, fínhærð, upprétt og nástæð, en þó sitt hvoru megin á höfðinu. Bringan hvelfd. Síðurnar fylli vel út í sjónhending milli bóga og læra, og sé konan hæfilega feit og hærð á réttum stöðum.

3. Kona séð aftan frá
Þegar kona er skoðuð aftan frá er best að standa í nokkurra skrefa fjarlægð frá henni. Rétt er að skoða hana bæði nástæða og gleiða, en hafa ber í huga að gleiddin markast nokkuð af því hvort konan er bein eða bogin í hnjáliðunum. Margir dómarar hafa það fyrir sið að dæma konur að mestu leyti í þessari stellingu. Þannig er best að dæma lögun lendarinnar frá þessu sjónarhorni og láta þá konuna standa bæði á fram- og afturfótunum. Mjög er tíðkað í tímasparnaðarskyni að dæma andlitið í leiðinni, en það sést í þessari stellingu glöggt milli afturfótanna.
Andlitið samanstendur af enni, snoppu, nösum, kjálkum, vöngum, munni og eyrum.
Ef ekki er laut í nefbeininu, skammt fyrir neðan augun (en það kallast merarskál), þá telst konan vera snoppufríð.
Nasir eiga að vera flenntar, slímhúðin innan í nösunum rauð. Sá kostur fylgir flenntum nösum, að síður kemur slaki í efri vörina þegar konan eldist.
Munnurinn liggur á milli eyrnanna fyrir neðan nasirnar. Fegurstur er munnurinn þegar konan þegir, og varast skyldi hún að brosa, nema hún sé með sínar eigin tennur.
Hálsinn er fyrir ofan höfuð (við munum að við erum að skoða konuna aftanfrá á milli afturfótanna), og á hann helst ekki að vera grennri og lengri en það að konan geti með góðu móti haldið höfði.
Nú verða dómarar að snúa konunni aftur við, skoða hana á ný framan frá og dæma frá því sjónarhorni axlir, bringu, þind, skauf, mjaðmir (lendin hefur verið dæmd aftanfrá), læri. hné, leggi og fætur.
Bringan skiptist í tvennt, hægra og vinstra brjóstið. Gott er að brjóst séu það stór að hægt sé að sletta þeim aftur fyrir öxl og kallast það að ,,axla sín skinn“.
Og svo haldið sé niður eftir líkamanum eins og leið liggur, en þar taka lærin við. Þykkt læranna er best að skoða úr dálítilli fjarlægð, fyrir aftan konuna, og meta þau bæði í senn. Þau kallast vel þykk þegar konan er samvöðva niður á móts við hnéliði.
Að síðustu ber dómurunum að taka í dómum sínum verulegt tillit til geðslags keppenda. Leggja ber áherslu á að konan sé léttlynd. Slíkar konur hafa venjulega heldur lág eyru, nokkuð þykk og breið, ekki uppmjó, en þó með fínum broddum, þétthærð og gljáandi.

|

sunnudagur, mars 06, 2005

Bólu-þáttur

Tjaldið dregið frá. Tvær bólur liggja hlið við hlið á hálsi Kristjáns og taka tal saman:

1. bóla: "Sæl, þú ert bara enn hér?"
2. bóla: "Já, ætli það þýði nokkuð annað."
1. bóla: "Jah, þú getur trútt um talað. Ætli það sé nokkuð tekið út með sældinni að vera bóla. Þessi guðsvolaði staður ætlar mig lifandi að drepa."
2. bóla: "Þær hafa það nú víst lítið betra þarna uppi á enninu. Heyrði af tveimur eða þremur sem virðast lepja dauðann úr skel."
1 bóla: "Betra og ekki betra!" Setur upp snúðugan svip og sveiar. "Búin að vera kyrr á þessum stað í einar tvær vikur og fjandans maðurinn ætlar aldrei að láta mig í friði. Var alltaf að kreista mig til og frá og kroppa og klóra. Hann tók þá upp á því að vera alltaf með trefil og ekki var sú samvist betri. Rykmaurarnir skriðu um mig hér og þar, andskotans kvikindin og andarteppan fór loks að gera virkilega vart við sig þegar maður er innilokaður allan daginn alveg hreint undir treflinum."

Þegar hér var komið sögu vissi höfundur ekkert hvað hann átti að setja næst. Hann vöðlaði blaðinu saman og henti í ruslið, sem varð óhjákvæmilega til þess að blaðið lenti hér. Satt best að segja þá er þessi síða lítið annað en ruslakista óþekkts höfundar nokkurs sem gleypir við hvaða bulli sem er. Óvíst er hvort næsti þáttur um bólurnar tvær verði nokkurn tímann skrifaður - í millitíðinni hlýtur önnur himnasending af sorpskrifum að lenda hér í þessum netsins táradal.

|