.

sunnudagur, mars 06, 2005

Bólu-þáttur

Tjaldið dregið frá. Tvær bólur liggja hlið við hlið á hálsi Kristjáns og taka tal saman:

1. bóla: "Sæl, þú ert bara enn hér?"
2. bóla: "Já, ætli það þýði nokkuð annað."
1. bóla: "Jah, þú getur trútt um talað. Ætli það sé nokkuð tekið út með sældinni að vera bóla. Þessi guðsvolaði staður ætlar mig lifandi að drepa."
2. bóla: "Þær hafa það nú víst lítið betra þarna uppi á enninu. Heyrði af tveimur eða þremur sem virðast lepja dauðann úr skel."
1 bóla: "Betra og ekki betra!" Setur upp snúðugan svip og sveiar. "Búin að vera kyrr á þessum stað í einar tvær vikur og fjandans maðurinn ætlar aldrei að láta mig í friði. Var alltaf að kreista mig til og frá og kroppa og klóra. Hann tók þá upp á því að vera alltaf með trefil og ekki var sú samvist betri. Rykmaurarnir skriðu um mig hér og þar, andskotans kvikindin og andarteppan fór loks að gera virkilega vart við sig þegar maður er innilokaður allan daginn alveg hreint undir treflinum."

Þegar hér var komið sögu vissi höfundur ekkert hvað hann átti að setja næst. Hann vöðlaði blaðinu saman og henti í ruslið, sem varð óhjákvæmilega til þess að blaðið lenti hér. Satt best að segja þá er þessi síða lítið annað en ruslakista óþekkts höfundar nokkurs sem gleypir við hvaða bulli sem er. Óvíst er hvort næsti þáttur um bólurnar tvær verði nokkurn tímann skrifaður - í millitíðinni hlýtur önnur himnasending af sorpskrifum að lenda hér í þessum netsins táradal.

|