.

föstudagur, apríl 01, 2005

Hvernig best er að stytta kennslustund

Eftir margra ára reynslu í þeirri eðlu listgrein að sóa 40 mínútum í ekki neitt hef ég sett saman litla leiðsögn sem hinir óreyndari nemendur geta vonandi nýtt sér við að láta tímann líða hraðar. Vonandi hafið þið gagn af.1. Hafa ber í huga að hver mínúta skiptir máli. Mættu því of seint. Þannig geturðu sparað þér allt upp í fimm mínútur af kennslustundinni - fimm mínútur sem færu í einhverja bölvaða vitleysu hvort eð er.

2. Komdu algerlega óundirbúinn og helst ekki með nein gögn. Mikilvægt er að þú hafir ekkert í fórum þínum sem tengist efni kennslustundarinnar því hætta er á að hugur þinn geti reikað inn á efnissvið þess sem kennt er og þá er öll fyrirhöfnin fyrir bí. Taktu með þér einhverja góða og auðlesna bók í staðinn - mælt er með Myndasögusyrpu nr. 45. og allan '93 árganginn af Lukku-Láka.

3. Sestu næst útganginum þar sem næsta skólabjalla er. Gefa skal gaum að því að það tekur hljóðið nokkurn tíma að ferðast gegnum andrúmsloftið - því nær bjöllunni sem þú situr því fyrr heyrirðu í henni.

4. Þegar kennarinn hefur byrjað kennslu skaltu passa þig að hlusta ekki á neitt sem hann segir. Athugaðu í staðinn borðið þitt. Hefur einhver krassað á það? Er búið að teikna eitthvað á bríkina? Skoðaðu með gaumgæfni samhengið milli teikninganna og textans og reyndu að finna út hvers konar persóna það var sem sat þarna á undan þér.
Kíktu síðan á borðfæturna. Ef hægt er að skrúfa einn borðfótinn ofurlítið upp(gert með það í huga að koma í veg fyrir að það sé valt) skrúfaðu hann þá eins hátt upp og þú getur. Athugaðu síðan hvort þú getir skapað nógu mikinn halla til þess að blýanturinn þinn renni sjálfkrafa niður.

5. Ruggaðu þér á stólnum. Í Heimsmetabók Guinness á Þjóðverjinn Klaus Grünbauer heimsmet í að rugga sér á stól, eða 27 mínútur sléttar. Reyndu að bæta metið hans - mundu að æfingin skapar meistarann. Athugaðu hvort þú getir ruggað þér á stólnum og gert broskall í strokleðrið þitt með blýantinum á sama tíma.

6. Spurðu kennarann hvort þú megir fara á klósettið(þó án þess að rétta upp hönd). Ef þú ert í tungumálatíma skaltu þvertaka fyrir að spyrja á því tungumáli sem kennslustundin er með. Farðu síðan fram á gang og reyndu að standa á höndum upp við vegginn. Komdu síðan kafrjóður í andlitinu aftur inn og tautaðu með sjálfum þér þvílík átök þetta hafi verið. Þetta ætti að tefja kennsluna nokkuð og lífga upp á tímann.


Þegar bjallan hringir (samkvæmt náttúrulögmálunum ættir þú að vera sá fyrsti sem heyrir í henni) skaltu vera búinn að taka saman það litla dót sem þú hafðir með þér og ganga rösklega út án þess að líta til vinstri eða hægri. Nú er sigurinn unninn. Þessa litlu leiðsögn má síðan nota aftur og aftur í hartnær hvaða kennslustund sem er. Gangi ykkur vel.

|