.

laugardagur, apríl 16, 2005

Á varðbergi

Hérna kemur þýðing mín á sögunni On Guard eftir Evelyn Waugh. Vonandi hafið þið gaman af henni.

Image hosted by TinyPic.com


I.


Hið ljósgullna hár sem Millicent Blade hafði var ekki það eina sem hreif svo fjölmarga; hún hafði einnig hrífandi líkamsburði og andlit sem gat breytt um svip á örskotsstundu úr vingjarnleika í hlátur og úr hlátri í nær lofsverðan áhuga.

En sá eiginleiki sem greindi hvað best hennar engil-saxneska uppruna frá öðrum var nefið.
Það höfðu ekki allir svona nef. Margir vilja frekar hafa það stærra; það félli málurum til dæmis ekki vel að skapi, því það var of lítið og hafði enga sérstaka lögun, í raun aðeins lítill bingur án nokkurrar sýnilegrar byggingar; nef sem gerði eiganda þess ómögulegt að vera montinn eða sýna einhverja yfirburði. Það myndi aldrei hæfa til dæmis barnfóstru eða póststjóra, en það hæfði persónuleika Blade stúlkunnar fullkomlega, því þetta var nef sem gaf til kynna brothætta yfirborðið sem þetta hlýja enska hjarta hefur og fær fólk til að láta sig dreyma um sokkabandsárin sín.

Þrír af hverjum fimm karlmönnum þykjast vaxa upp úr þessu og hugsa til þessara ára með hálfgerðri skömm og vilja frekar hafa nef sem vekur meiri eftirtekt meðal fólks, en hinir tveir eru bara venjulegir menn sem hvaða vel útlítandi stúlka væri ánægð með.

Hektor kyssti hana blíðlega á nefbroddinn. Um leið fóru skilningarvitin á flug og hann sá eins og í draumi kvöldhúmið í nóvember, þokuna sem breiddi sér yfir leikvanginn, hóp af rjóðum og ærslafullum drengjum í rúgbýleik; annan hóp af köldum og skjálfandi drengjum við vallarlínuna, stjakandi hver við öðrum á plankanum sem lá yfir drullusvaðinu, loppnir á fingrunum og öskrandi á sitt eigið lið þegar munnurinn á þeim var ekki fullur af kexi.

"Þú bíður örugglega eftir mér, er það ekki?" sagði hann.

"Jú elskan."

"Og þú skrifar mér?"

"Já elskan," svaraði hún með dulítilli efasemd í röddinni, "stundum...ég reyni að minnsta kosti. Ég er ekki sú besta við að skrifa, eins og þú veist."

"Ég mun hugsa um þig hverja einustu stund úti," sagði Hektor. "Þetta á eftir að vera taugaþjakandi...margra kílómetra fjarlægð milli mín og næsta hvíta manns, svíðandi sól, ljón, moskítóflugur, óvinveittir frumbyggjar, vinna myrkranna á milli með öll náttúruöflin á móti sér, drepsóttir, kólera...en bráðum verður þetta orðið það gott að þú getir komið og heimsótt mig.

"Já elskan."

"Þetta hlýtur að takast. Ég hef rætt þetta í þaula við Beckthorpe, þú veist, manninn sem er að selja mér bóndabýlið. Sjáðu til, uppskeran hefur brugðist hvert einasta ár hingað til...fyrst kaffi, svo rúgur, síðan tóbak. Og þetta er það eina sem hægt er að rækta þarna. Árið sem Beckthorpe ræktaði rúg, voru allir hinir að græða fúlgur fjár á tóbaki en rúgurinn kolféll; næsta ár ræktaði hann tóbak, en þá var það árgangurinn sem hentaði best til að rækta kaffi, og svo framvegis. Þannig gekk þetta í níu ár. En ef maður finnur þetta út með hjálp stærðfræðinnar, rétt eins og Beckthorpe segir, hlýtur maður að detta niður á réttu uppskeruna eftir þrjú ár. Ég get ekki útskýrt þetta alveg en þetta er eins og rúlletta og svoleiðis, ef þú skilur."

"Já elskan."

Hektor virti fyrir sér litla fallega nefið og týndi sér aftur.

"Hverjir eru bestir!" barst um völlinn, og eftir leikinn var hann heima hjá sér að rista beyglu...

II.

Seinna þetta kvöld snæddi hann kvöldverð með Beckthorpe. Eftir því sem leið á máltíðina varð vonarglæta hans æ daufari.

"Á þessum tíma næsta dag verð ég úti á rúmsjó," sagði hann og fitlaði við tóma púrtvínsglasið.

"Svona svona, hertu upp hugann drengur minn," sagði Beckthorpe.

Hektor hellti aftur í glasið og horfði með vaxandi fyrirlitningu á reykmettaða veitingastofuna á knæpunni hans Beckthorpe. Síðasti drukkni fastagesturinn var löngu farinn og þeir voru tveir eftir ásamt ísköldu matarleifunum.

"Hérna, ég hef reynt að komast til botns í þessu með uppskeruna. Þú sagðir að hún hlyti að heppnast eftir þrjú ár?"

"Það er rétt, drengur minn."

"Tja, ég fór aftur í gegnum útreikningana og mér virðist sem það gæti liðið áttatíu og eitt ár áður en hún verður rétt."

"Nei nei vinur, þrjú ár eða níu, eða í mesta lagi tuttugu og sjö."

"Ertu viss?"

"Að mestu leyti."

"Gott...þú skilur að það er hræðilegt að þurfa að skilja hana Millý eftir heima. Segjum að það liði áttatíu og eitt ár áður en uppskeran tekst...það er óskaplegur tími sem aumingja stúlkan þarf að bíða. Það hlýtur að vera einhver flötur á þessu."

"Á miðöldunum notuðu þeir stundum skírlífsbelti."

"Já einmitt, ég hef leitt hugann örlítið að því. En þau hljóta að vera skrambi óþægileg. Ég efast um að Millý vildi bera það utan um sig, jafnvel þótt ég fyndi eitt slíkt."

"Það er aldrei að vita. Þú verður þó að gefa henni eitthvað."

"Ansans vandræði...ég er alltaf að gefa henni eitthvað. Annað hvort brýtur hún óvart gjöfina, týnir henni eða gleymir samstundis hver gaf henni hana."

"Þú verður þá að gefa henni eitthvað sem hún man eftir. Eitthvað sem hún mun alltaf hafa hjá sér og sem endist."

"Í áttatíu og eitt ár?"

"Hmm, segjum að minnsta kosti tuttugu og sjö. Eitthvað sem minnir hana á þig."

"Ég gæti ef til vill gefið henni ljósmynd...en ég mun þó breytast heilmikið eftir tuttugu og sjö ár...?"

"Ljósmynd hæfir engan veginn. Gefðu henni frekar hund!"

"Hund?"

"Lífsglaðan hvolp sem er þó ekki of æstur og virðist langlífur er fullkomin gjöf. Hún gæti jafnvel skírt hann Hektor."

"Heldurðu að það sé góð hugmynd"

"Hundur er fyrsta flokks gjöf."

Næsta morgun, rétt áður en ferjan átti að fara, flýtti Hektor sér að einni af þessari tröllvöxnu stórverslunum í Lundúnum. Eftir mikið þóf var honum vísað í ”húsdýradeild”.

"Ég ætla að fá hvolp."

"Já, herra, af einhverri sérstakri tegund?"

"Einhvern sem lifir lengi. Áttatíu og eitt ár, eða... að minnsta kosti tuttugu og sjö.

Afgreiðslumaðurinn horfði á hann efasemdarsvip. "Við eigum hrausta og lífsglaða hvolpa að sjálfsögðu," sagði hann, "en engin ábyrgð um aldur fylgir þeim. Nú, ef herrann vill gæludýr sem er ögn varanlegra mæli ég með skjaldböku? Þær geta náð háum aldri og eru auðveldar í flutningi."

"Nei, það verður að vera hvolpur."

"Kannski páfagauk?"

"Nei nei nei, hvolp. Helst einhvern sem heitir Hektor."

Þeir héldu áfram um búðina, framhjá öpum og kettlingum og páfagaukum og loks yfir í hundadeildina sem jafnvel á þessum tíma dags hafði laðað að sér nokkurn hóp af ýmis konar gæludýrabröskurum. Þarna voru hvolpar með allar mögulegar gerðir af eyrum, nefjum, skottum og jafnvel göngulögum. Hektor valdi hvolp af handahófi og þegar afgreiðslumaðurinn gekk að borðinu til að ná í afganginn, horfði hann djúpt í augu hvolpsins, vék sér undan þegar hann ætlaði að glefsa framan í hann og sagði: "Þú átt að líta eftir Millý, Hektor. Gættu þess að hún giftist ekki neinum þar til ég kem aftur."

Hektor dillaði litla skottinu sínu.

III.

Millicent kom til að sjá hann fara, en í hirðuleysi sínu endaði hún á vitlausum brautarpalli, sem reyndar skipti engu máli þar sem hún var hvort eð er tuttugu mínútum of sein. Hektor og hvolpurinn eigruðu um brautarhliðið og það var ekki fyrr en lestin var byrjuð að hreyfast sem hann lagði hvolpinn í hendur Beckthorpe með þeim fyrirmælum að senda hann á heimilisfang Millicent.

"Ferðataska týndist - merkt Mombasa" stóð í tilkynningu á stöðvarhúsinu. Honum fannst hann vera einmanasta mannvera á jörðinni.

Þetta kvöld fékk hann símskeyti á meðan skipið sigldi fram hjá Channel vitanum: Sakna-þín-mikið-fór-Paddington-brautarpall-einsog-asni-takk
-fyrir-hundinn-elska-hann-pabba-langar-heyra-bóndabýlið-ekki-verða-hrifinn-af-skvísunum
-ástarkveðjur-Millý.

Í Rauðahafinu fékk hann annað: Passaðu-skvísurnar-hvolpurinn-beit-mann-sem-hét-Mike.

Eftir það fékk hann ekkert frá Millicent nema jólakort sem kom í lok febrúar.

IV.

Satt best að segja entist hrifning Millicent á hvaða karlmanni sem er sjaldnast lengur en fjóra mánuði. Það valt á því hversu langt hann hafði gengið á þessum fjórum mánuðum hvort hrifning hennar dofnaði smám saman eða hvarf eins og dögg fyrir sólu. Áhugi hennar á Hektor hafði byrjað að dofna um það leyti sem þau trúlofuðu sig, hann virtist ætla að birtast aftur í kjölfarið þrjár vikur á eftir þegar hann stóð í stappi við að finna sér vinnu á Englandi, en brottförin til Kenýu batt snöggan endi á það allt saman.

Og hvolpurinn Hektor hóf að rækja skyldustörf sín gagnvart karlmönnum og Millicent strax fyrstu dagana. Hann var að sjálfsögðu of ungur í hlutverk varðhunds og því er nær ómögulegt að kenna honum um það sem gerðist með Mike Boswell.

Mike Boswell var ungur maður sem naut fullkomlega órómantískrar vináttu við Millicent síðan hann kom fyrst út úr skápnum. Hann hafði orðið vitni að hinu fagra hári hennar í hvaða greiðslu sem er, með öllum höttunum, blómunum, teygjunum og borðunum, hann hafði séð uppbretta nefið í hvaða veðri sem er og jafnvel klipið hana þar stríðnislega við tækifæri, en hafði aldrei nokkurn tímann hrifist af henni öðruvísi en sem vin.

En því var varla við að búast að Hektor vissi þetta. Það eina sem hann varð vitni að var að tveimur dögum eftir að kaupandi hans hafði gefið honum þessi fyrirmæli, sá hann hávaxinn og myndarlegan mann sem virtist fullkomlega giftingarhæfur og kom fram við Millicent á þann hátt að hvolpurinn, samkvæmt uppeldi sínu í hvolpabúðinni, dró aðeins eina ályktun.

Ungmennin tvö voru að drekka te. Hektor horfði vandlega á úr sófanum með geltið á fremsta hlunni. Ákveðnum hápunkti var náð í samskiptum þeirra þegar Mike beygði sig fram og klappaði Millicent sakleysislega á hnéð.

Bitið var alls ekki fast, reyndar aðeins létt glefs, en Hektor hafði hárbeittar tennur eins og títuprjóna. Það var einnig þessi gríðarlegi hraði sem olli mesta skaðanum þegar Mike kippti hendinni að sér í skyndi; hann bölvaði, vafði hendinni í vasaklút og sýndi Millicent sárið eftir nokkrar mínútur við mikla geðshræringu hennar. Millicent talaði höstuglega við Hektor og blíðlega við Mike, og flýtti sér síðan að lyfjaskáp móður sinnar til að ná í flösku af joði.

Nú hefur enginn maður af enskum uppruna, hversu dauðyflislegur sem hann gæti verið, ekki getað orðið ástfanginn af stúlku sem smyr joði á hendur hans.

Mike hafði að sjálfsögðu séð nef hennar ótal sinnum áður, en þetta kvöld, þegar hann sá andlit Millicent dansa til og frá yfir særðu hendinni og heyrði hana segja ”meiðir þetta þig nokkuð ljúfur?” og ”svona svona, nú er allt í lagi” sá hann nefið í sama ljósi eins og svo margir aðrir karlmenn höfðu gert áður.

Hektor fylgdist með öllu sem gerðist og skildi um leið hvað hann hafði gert rangt. Hann skyldi sko aldrei aftur láta Millicent bera joð á hendur einhvers karlmanns.

V.

Þetta var einfalt verkefni hjá honum í það heila, því Hektor gat að nokkru leyti treyst á hina ófyrirsjáanlegu hegðun Millicent til að láta karlmenn ná ekki upp í nefið á sér af frústreringu. Það sem meira var, hún var byrjuð að elska hvolpinn út af lífinu. Hún fékk einnig bréf í hverri einustu viku frá Hektor sem, samkvæmt bréfunum lifði gleðisnauðu piparsveinalífi. Hún opnaði alltaf bréfin, oft las hún þau til enda en innihald þeirra hafði lítil áhrif á skapsveiflur hennar og smám saman féll sendandinn í gleymsku og dá. Þegar fólk spurði ”...og hvernig hefur hann Hektor það?” svaraði hún ”...ég er hrædd um að hann þoli illa þetta veður, og kápan hans er orðin hræðilega illa farin. Það þyrfti líka að láta snyrta feldinn hans,” í staðinn fyrir ”Hann fékk snert af malaríu eftir að svartmaðkurinn komst í tóbaksuppskeruna.”

Með tímanum kom Hektor sér upp tækni til að eiga við ungu herramennina sem heimsóttu Millicent. Hann var hættur að urra að þeim eða bleyta buxurnar þeirra, það endaði bara með því að hann var færður í annað herbergi. Þess í stað átti hann með tímanum afskaplega auðvelt með að eyðileggja öll innileg samtöl.

Tetími var hættulegasti hluti dagsins, því þá gat Millicent gjarnan skemmt vinum sínum í setustofunni. Og þótt Hektor þætti fátt betra en safaríkur kjötbiti þá náði hann að byggja upp einstakt þol gagnvart gríðarlegu magni af sykurmolum. Hverju sem það svo skipti fyrir meltinguna, þá beindi hann athygli Millicent að bellibrögðum sínum, hann gat gert ”biddu” og ”treystu”, leggjast og láta sem hann væri dauður eða standa úti í horni og lyfta framlöppinni að eyranu.

”Hvað þýðir ”s-y-k-u-r”? spurði Millicent og Hektor gekk í kringum teborðið að sykurskálinni og hnusaði af henni og setti móðu á allt silfurstellið.

“Hann skilur allt sem ég segi,” sagði Millicent þá sigri hrósandi.

Þegar bellibrögðin báru ekki lengur árangur krafðist Hektor að hann yrði færður í annað herbergi. Ungi maðurinn sæi þá skyldu sína í því að standa upp og opna dyrnar. Þegar hurðinni væri síðan lokað myndi hann ýlfra og væla og krafsa á hurðina til að fá að komast aftur inn.

Í ítrustu neyð þóttist Hektor vera veikur – sem var reyndar ekkert tiltökumál eftir allt þetta sykurát. Hann engdist þá allur um og kúgaðist eins og hann ætti lífið að leysa þangað til Millicent tók hann upp og færði hann á marmaragólfið fram á gangi, en með þessu gat hvolpurinn bundið snöggan endi á ofurviðkvæmt samtal milli hennar og herramannsins og allar vonir hans um rómantískan endi á heimsókninni voru runnar út í sandinn.

Þessar hernaðaraðgerðir héldu síðan áfram og áfram. Um leið og einhver sýndi merki þess að eiga við hana einlægt samtal birtist Hektor á milli þeirra og hver piparsveinninn á fætur öðrum var hrakinn í burtu, ringlaður og örvæntingarfullur.

Á hverjum morgni lá Hektor á sæng Millicent þegar hún snæddi morgunverð og las blöðin. Frá tíu til ellefu á morgnana helgaði hún sig algerlega símtólinu og það var helst þá sem ungu mennirnir sem hún hafði dansað við kvöldið áður gerðu hetjulega tilraun til að endurnýja samskipti þeirra og skipuleggja stefnumót. Í fyrstu reyndi Hektor að flækja sig í símasnúrunni en datt fljótlega niður á aðra áhrifaríkari lausn. Hann þóttist líka vilja hringja. Þannig, þegar síminn hringdi, dillaði hann skottinu og benti með trýninu á símann eins og hann vildi svara. Millicent tók upp tólið og Hektor kúrði sig upp að öxl hennar og hnusaði af símtólinu.

”Hlustaðu bara,” sagði Millicent þá, ”hér er einn lítill sem vill tala við þig. Er hann ekki algjör englabossi?” Síðan hélt hún símtólinu að Hektor og ungi maðurinn hinum megin á línunni var fljótt kaffærður af látlausu gelti. Þessi árangursríka aðferð féll Millicent svo vel í geð að oft á tíðum kærði hún sig lítið um hver var á hinni línunni en lét símtólið rakleiðis að Hektor, þannig að einhver grunlaus piparsveinn nokkra kílómetra í burtu, sem leið kannski ekki alltof vel í morgunsárið eftir gærkvöldið, var hreinlega tekinn úr umferð áður en hann gæti sagt eitt einasta orð.

Við önnur tækifæri reyndu piltar, undir áhrifum frá þessu ótrúlega nefi sem Millicent hafði, að sitja um fyrir henni í Hyde Park þegar hún spásséraði með Hektor. Til að byrja með þóttist hvolpurinn vera týndur, slóst við aðra hunda eða beit lítil börn til að beina athyglinni stöðugt að sér, en fór seinna meir mun þróaðri leið. Hann vildi fá að halda á töskunni hennar Millicent í kjaftinum. Síðan marseraði hann fyrir framan parið og hvenær sem nauðsynlegt var, missti hann töskuna svo herramaðurinn þyrfti að taka hana upp og rétta Millicent hana og síðan, að hennar beiðni, til hvolpsins. Fáir höfðu þrek eða hugrekki til að fara í fleiri en eina gönguferð í þessum hræðilegu aðstæðum.

Þannig liðu tvö ár. Stöðugar bréfasendingar frá Kenýa bárust henni, fullar tíðindum af slysum, uppskerubrestum, flóðum, hvirfilvindum og ógnarstjórninni sem þar ríkti eða gangi mála á heimsmarkaðnum. Við og við las Millicent bréfin fyrir hvolpinn en oftast skildi hún þau eftir ólesin á morgunverðarbakkanum. Hana og Hektor rak stefnulaust um hið áhyggjulausa haf enska skemmtanalífsins. Hvar sem hún rak inn nefið urðu tveir af hverjum fimm ógiftu piltum ástfangnir af henni tímabundið og hvar sem Hektor rak inn trýnið breyttust kurteisu og fyndnu piltarnir í angraða og skömmustulega piparsveina. Mæður víðs vegar um borgina byrjuðu að furða sig á því hvers vegna þessi aðlaðandi Blade stúlka var ennþá ógift.

VI.

Á þriðja ári þessarar ógnarstjórnar Hektors kom nýtt vandamál fram á sjónarsviðið, nánar tiltekið í persónu Sir Alexanders Dreadnought, majors og baróns. Hektor gerði sér strax grein fyrir að hér var á ferðinni erfiðara viðfangsefni en hann hafði nokkurn tímann tekið sér fyrir hendur.

Sir Alexander var þvert á móti ungur að aldri; hann var fjörutíu og fimm ára ekkill. Hann var vellauðugur, vinsæll og nær óhugnarlega þolinmóður, og hann var einnig mikils metinn sem formaður Midland hundafélagsins og með stútfulla stríðsferilsskrá af hetjudáðum. Foreldrar Millicent hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar þau sáu hvaða áhrif nef hennar hafði á majorinn. Hektor reyndi hvaða bellibrögð á hann sem hann hafði náð fullkominni færni í eftir tveggja og hálfs árs þjálfun, en allt án árangurs. Aðferðir sem höfðu hrakið tugi manna í hinar mestu ógöngur var einungis olía á ástareldinn. Þegar hann kom að ná í Millicent um kvöldið var hann alltaf með vasana troðfulla af sykurmolum; þegar Hektor var orðinn alvarlega veikur stökk Sir Alexander til með blaðsíðu úr The Times í hendinni; Hektor beit hann og beit en allt kom fyrir ekki. Majorinn sagði aðeins: ”Það mætti halda að ég sé að gera litla vininn öfundsjúkan. En trygglyndur hvutti.”

Sannleikurinn var sá að Sir Alexander hafði hlotið svipaða meðferð frá því hann var ungur maður – foreldrar hans, systkini, skólabræður, meðstjórnendur í hernum og herforinginn sjálfur, pólitísku samstarfsmenn hans, konan hans, veiðifélagar, kosningastjóri, ritari, og meira að segja einkaritari hans á þinginu voru allir samankomnir í majornum og hann tók þessari meðferð sem sjálfsögðum hlut. Fyrir honum var það ekkert eðlilegra en að láta gelta úr sér hljóðhimnuna þegar hann hringdi í stúlkuna á morgnana, og það var honum mikill heiður að taka upp tösku Millicent þegar Hektor missti hana í lystigarðinum. Sárin sem hann bar á ökklunum og úlnliðunum voru bara smáskrámur í augum hans. Á hátíðlegum stundum talaði hann um Hektor sem ”litli lagsmaðurinn”, að sjálfsögðu svo Millicent heyrði til. Og það fór ekki á milli mála þegar hann bauð Millicent og móður hennar að heimsækja sig, að ”heimboðið á að sjálfsögðu líka við um hann Hektor litla.”

Helgarheimsóknin til Sir Alexander var hreinasta martröð fyrir hvolpinn. Hann lagði sig fram eins og aldrei fyrr, hvert hernaðarbragðið á fætur öðru var ítrekað reynt án árangurs. Fyrir gestgjafann, það er að segja. Þjónustufólkið brást að minnsta kosti við, og hann fékk í sig illúðlegt spark þegar hann ætlaði að eyðileggja bollastell sem brytinn var að undirbúa fyrir tetíma.

Aðferðir sem höfðu gert Millicent vandræðalega í nær helmingi betri búinna heimila í Englandi var varla tekið eftir á herragarðinum. Það voru aðrir hundar í húsinu – eldri, stærri og betur siðaðir sem Hektor flýði undan en þeir létu sér nægja að snúa sér undan af hneykslun þegar hann gelti að þeim. Þeir röltu síðan með virðugleik eitthvað annað og Sir Alexander lét loka þá af það sem eftir lifði heimsóknarinnar.

Það var freistandi Aubusson teppi í borðstofunni sem Hektor náði að tæta í sundur en Alexander virtist ekki taka eftir því. Hann fann stóran hestvagn í garðinum og náði að rúlla honum af stað hvernig í ósköpunum sem hann gat það. Þegar hann sneri aftur inn klóraði hann í hvern einasta stól í teiknistofunni, en Sir Alexander hjálpaði Millicent í staðinn við að baða hann um kvöldið og kom meira að segja með baðsölt úr sínu eigin baðherbergi við aðgerðina.

Hektor ýlfraði eins og stunginn grís alla nóttina; hann faldi sig og lét hálft þjónustuliðið leita að sér logandi ljósi. Hann drap ungan fasana og gerði hetjulega tilraun við páfugl. Allt kom fyrir ekki. Hann náði meira að segja að bægja frá bónorðstilraun, það er dagsatt, einu sinni í hollenska lystigarðinum og annað skiptið þegar verið var að baða hann, en þegar mánudagurinn rann upp og Sir Alexander sagði ”Ég vona svo sannarlega að Hektor hafi notið heimsóknarinnar. Hann má endilega koma aftur sem fyrst,” vissi Hektor sig sigraðan.

Héðan í frá var þetta aðeins tímaspursmál. Á kvöldin í London var nær ómögulegt fyrir hann að fylgjast með henni. Einn daginn myndi hann vakna og heyra Millicent segja frá trúlofun sinni við vinkonur sínar í símann.

Þannig að eftir langa og stranga tilhugsun fann hann aðeins eina örvæntingarfulla leið. Hann var orðinn nokkuð hændur að henni, og þegar hún knúsaði hann fann hann til dulítillar samúðar með öllum þeim piparsveinum sem hann hafði farið svo illa með.

En Hektor var enginn ómerkilegur blendingsrakki. Eins og allir vel ættaðir hundar vissi hann að það eru peningarnir sem skipta máli og það er kaupandinn, en ekki eigandinn, sem skyldur hans liggja til. Hendurnar sem höfðu haldið á honum í risabúðinni í húsdýradeildinni voru nú blöðrum settar og fleiðraðar eftir ræktunarhokur í hinni villtustu Afríku en þessi heilögu fyrirmæli ómuðu enn í minni Hektors. Þannig að eftir miklar vangaveltur aðfaranótt mánudags hjá majornum komst hann að niðurstöðu: Nefið verður að fara.

VII.

Þetta var einfalt mál, aðeins hnitmiðað glefs þegar hún beygði sig yfir körfuna hans og ætlunarverkinu var náð. Hún fór í lýtaaðgerð og nokkrum vikum seinna var hvorki skráma né ör á nefinu. En það hafði breyst; lýtalæknirinn var á vissan hátt listamaður, og eins og kom fram áðan, hafði Millicent nef sem laut engum fagurfræðilegum lögmálum. Núna hefur hún listfræðilega fullkomið nef, sem hæfði vel þeirri piparjómku sem hún var í þann mund að breytast í. Eins og sannri piparjómku sæmir fylgist hún grannt með öllum útlenskum bréfum og geymir vandlega læsta skúffu fulla af niðurdrepandi landbúnaðarröfli. Og eins og sannri piparjónku sæmir fylgir henni hvert sem hún fer ört vaxandi kjölturakki.

|